Hvernig geislameðferð virkar

Venjulegt ljós eru sýnilegar bylgjur (orka). Geislar eins og þeir sem notaðir eru við geislameðferð haga sér á svipaðan hátt og ljós en búa yfir miklu meiri orku og eru ósýnilegir berum augum.

Þegar veitt er geislameðferð er orkumiklum geislum beint að brjóstinu þar sem æxlið var. (Dæmi eru einnig um að æxli sé geislað í því skyni að minnka það.) Smám saman gerist það að hnitmiðaðir geislar taka að skaða frumur sem verða á vegi þeirra – hvort sem þær eru heilbrigðar eða krabbameinsfrumur.

Krabbameinsfrumur eru iðnar við að vaxa og skipta sér – tvennt sem gerir þær viðkvæmar fyrir skemmdum af völdum geislunar. Krabbameinsfrumur eru ekki heldur jafn skipulagðar og heilbrigðar frumur og eiga því erfiðara með að gera við skemmdir og ná sér aftur á strik. Því er auðveldara að eyðileggja krabbameinsfrumur með geislum en heilbrigðar frumur sem lækna sig sjálfar og lifa af.

Tvær aðferðir eru notaðar til að veita geislameðferð: Útvortis og innvortis.

ÞB