Geislun á hluta brjóstsins
Flestar konur með brjóstakrabbamein á fyrstu stigum geta í stað brjóstnáms farið í aðgerð sem leyfir þeim að halda brjóstinu (fleygskurð) og fara þá í geislameðferð á eftir. Líkur þeirra á góðum og langvinnum árangri er sá sami og þeirra sem fara í brjóstnám.
Með fleygskurðinum er æxlið fjarlægt. Geislameðferð er síðan veitt til þess að losna við allar krabbameinsfrumur sem kunna að hafa orðið eftir þegar æxlið var tekið.
Viðtekin aðferð við geislameðferð eftir fleyskurð er sú að geisla allt brjóstið. Þó er til önnur aðferð: Geislun á hluta brjóstsins. Vísindamenn kanna nú áhrif geislunar á hluta brjóstsins með það fyrir augum að bera árangurinn saman við geislun á allt brjóstið.
Geislun á hluta brjósts var þróuð með það fyrir augum að fækka tilfellum þegar krabbamein tekur sig upp, stytta tímann sem það tekur að fara í geislameðferð og minnka geislaskammta (og meðfylgjandi aukaverkanir) á aðliggjandi heilbrigða vefi. Geislun á hluta brjóstsins má einnig hugsanlega endurtaka - en einungis á einhvern annan hluta brjóstsins - skyldi nýtt krabbamein greinast síðar meir. Yfirleitt er ekki hægt að veita geislameðferð á brjóst sem áður hefur verið geislað.
Bakgrunnur
Í nokkrum rannsóknum á konum með brjóstakrabbamein á fyrstu stigum hefur verið borinn saman árangur fleygskurðar eingöngu við fleygskurð með eftirfarandi geislameðferð á allt brjóstið. Niðurstöðurnar sýndu að geislameðferð á allt brjóstið eftir fleygskurð minnkaði líkur á endurkomu sjúkdómsins um tvo þriðju.
Á svæðum nálægt þeim stað þar sem krabbameinsæxlið var, eru mestu líkurnar á að meinið taki sig upp. Líkur á að krabbamein taka sig upp annars staðar í sama brjósti eru fremur litlar. Þetta á við hvort sem eingöngu er farið í fleygskurð eða fleygskurð með eftirfarandi geislun á allt brjóstið.
Með hliðsjón af þessum niðurstöðum komu læknar sér upp nýrri aðferð við að geisla sem felst í því að beina meðferðinni eingöngu að svæði sem liggur að þeim stað þar sem æxlið var. Meðferð á minna svæði en allt brjóstið má veita á skemmri tíma (einni viku í stað sex eða sjö vikum).
Snemmbúnar niðurstöður úr fremur umfangslitlum rannsóknum á geislun á hluta brjósts lofa mjög góðu. Niðurstöðurnar leiddu til þess að næsta skref var tekið: Að bera saman geislun á hluta brjósts við geislun á allt brjóstið sem er hin viðtekna meðferð. Þær rannsóknir er verið að gera í klínískri rannsókn sem kallast NSABP B-39. Með henni eru þessar tvær aðferðir bornar saman og skoðað:
-
Hve lengi konur lifa almennt (með eða án endurkomu meinsins).
-
Hve lengi konur lifa án þess að meinið taki sig upp.
-
Hve lengi konur lifa áður en meinið tekur sig upp.
Með rannsókninni eru einnig skoðaðir þættir sem lúta að lífsgæðum, svo sem þreyta, aukaverkanir meðferðar og hvort eða hvernig konum gengur að samræma meðferðina daglegu lífi.
Hvernig er farið að því að geisla hluta brjósts?
Til eru fleiri ein aðferð við að geisla hluta brjósts. Yfirleitt er það gert með innvortis geislun. Einnig má geisla útvortis meðan á skurðaðgerð stendur eða að henni lokinni.
Þar til fyrir skemmstu hefur algengasta aðferðin við að geisla hluta brjósts falist í að koma örsmáum ögnum af geislavirku efni fyrir í holum hylkjum sem er komið fyrir á meðferðarsvæðinu. Nú er vinsælasta aðferðin við innvortis geislun sú að nota brjóstblöðrur (MammoSite) og geisla útvortis lítil svæði með línuhraðli. (Línuhraðall er stórt tæki sem býr til geisla sem beitt er við geislameðferð). Stundum er geislað meðan á skurðaðgerð stendur, en óvíða er boðið upp á slíka meðferð.
Innvortis geislun á hluta brjósts
Innvortis geislun kallast einnig hæggeislun (brachy radiation). Þá eru geislar gefnir hægt og rólega með því að nota geislavirkar agnir. (Útvortis geislun gengur hratt fyrir sig með geislunartæki). Til eru tvær tegundir hæggeislunar og felst önnur í að koma fyrir mörgum smáum hylkjum en með hinni aðferðinni er komið fyrir s.k. brjóstblöðru.
Þegar geislar eru gefnir með hylkjum eru örfínar leiðslar saumaðar undir húðina og í svæðið þaðan sem æxlið var numið brott. Endi leiðslnanna stendur út um lítil göt á húðinni. Smáir saumar halda leiðslunum á sínum stað.
Geislavirkum ögnum ("fræjum") er komið fyrir í leiðslunum þann tíma sem það tekur að gefa fyrirfram ákveðinn skammt. Séu notuð fræ sem losa geislana hægt getur meðferð tekið nokkra daga. Meðan á henni stendur þarf að dvelja á sjúkrahúsi því að geislavirkni á sér stað í líkamanum. Mikillar varkárni er gætt til að vernda öryggi þitt og annarra. Hjúkrunarfræðingar, læknar og gestir mega aðeins stoppa hjá þér stutta stund á meðan geislafræ eru í leiðslunum. Enginn má koma mjög nærri þér. Þegar meðferðinni lýkur eru geislafræin, saumar og leiðslur fjarlægð. Eftir það máttu fara heim.
Sé meðferð veitt með sterkum geislavirkum fræjum er hvert fræ látið vera í líkamanum í allt að 10 mínútur. Þegar meðferð lýkur eru leiðslurnar fjarlægðar.
Þegar geislar eru gefnir með brjóstblöðru (MammoSite tækni), er notuð sérstök slanga með blöðru á endanum. Blöðrunni er komið fyrir þar sem æxlið var. Slangan er leidd út um lítið gat á húðinni. Saumar eru óþarfir vegna þess að blaðran er fyllt vökva til að halda henni og slöngunni tryggilega skorðuðum. Brjóstblöðrunni má koma fyrir í brjóstinu á skurðstofu eða á stofu skurðlæknis. Blaðran er höfð á sínum stað í eina til eina og hálfa viku.
Mikillar nákvæmni er gætt til þess að tryggja að blaðran passi vel í brjóstið. Meðan á geislun stendur er geislahylki komið fyrir í miðri blöðrunni í 5 til 10 mínútur - nógu lengi til að veita þann geislaskammt sem á að gefa. Yfirleitt eru geislar gefnir samtals 10 sinnum á fimm dögum, sem þýðir tvær geislanir á dag með sex stunda hléi á milli. Þegar geislar hafa verið gefnir í síðasta sinn er blaðran fjarlægð í gegnum litla gatið á húðinni.
Geislun á hluta brjósts meðan á skurðaðgerð stendur
Unnt er að veita geislameðferð á hluta brjóstsins eftir að gerður hefur verið fleygskurður og æxlið fjarlægt. Þótt brjóstvefurinn undir sé óvarinn er stökum geislaskammti veitt beint á svæðið þar sem meinið var.
Ein leið er að nota línuhraðal til að beina rafeindageisla að blettinum þar sem æxlið var. Geislun með rafeindum dregur aðeins stutta leið og hægt að miða á svæðið þar sem hætta er á að meinið taki sig upp. Sérstakri tækni er beitt til að vernda undirliggjandi vef. Meðferðin tekur aðeins um tvær mínútur og síðan er lokið við skurðaðgerðina á hefðbundin hátt.
Við hina aðferðina er beitt sterkum geislum sem með fjarstýringu er beint að svæðinu þar sem æxlið var meðan á skurðaðgerð stendur. Grannri slöngu er komið fyrir og hún tengd við tölvustýrt geislunartæki. Aðgerðin tekur um það bil 5 til 10 mínútur. Til öryggis fara læknar og hjúkrunarfólk út úr skurðstofunni á meðan geislað er. Fylgst er með sjúklingnum á skjá fyrir utan skurðstofuna allan tímann.
Geislun meðan á meðferð stendur er ekki hægt að fá nema á fáeinum stöðum. Ýmsar ástæður eru fyrir því:
-
Sú aðferð að geisla hluta brjósts meðan á skurðaðgerð stendur er mjög ný. Til þessa hafa aðeins verið gerðar smávægilegar rannsóknir og tíminn sem liðið hefur og fylgst hefur verið með sjúklingum er enn sem komið er mjög stuttur.
-
Geislun á hluta brjósts meðan á skurðaðgerð stendur hefur ekki verið borin saman við þá viðurkenndu aðferð að geisla allt brjóstið eftir fleygskurð.
-
Mjög kostnaðarsamt er að setja upp geislunartæki og nauðsynlega vörn gegn geislum í skurðstofum. Yfirleitt eru geislalækningadeildir staðsettir fjarri skurðstofum þannig að ekki er unnt að flytja tæki á milli eða samnýta þau.
Útvortis geislun á hluta brjósts
Aðeins hafa verið gerðar fáar og mjög smáar rannsóknir á árangri þess að geisla hluta brjóstsins utan frá eftir skurðaðgerð og stuttur tími hefur gefist til að fylgjast með árangrinum. Meðferðin hefst með því að búið er til hermilíkan. Tekin er sérstök tölvusneiðmynd af brjóstinu og hún notuð til að ákveða lítil meðferðarsvæði á þeim stað í brjóstinu þar sem mest hætta er á að meinið taki sig upp. Tegund geisla og dreifing þeirra miðast við að veita sem stærstum skammti á svæðið sem þarf að meðhöndla og komast hjá eða draga sem mest úr geislun á vefina sem liggja að því. Geislar eru gefnir með línuhraðli tvisvar á dag í eina viku.
Kostir og gallar geislunar á hluta brjósts
Að geisla hluta brjóstsins hefur ýmsa kosti framyfir geislun á allt brjóstið:
-
Meðferðartíminn er skemmri — ein vika á móti sjö. Geislun á hluta brjósts meðan á skurðaðgerð stendur tekur ennþá skemmri tíma.
-
Aðeins það svæði er geislað þar sem líklegast er að krabbameinið gæti tekið sig upp. Minna af líkamanum verður fyrir geislun og því kunna aukaverkanir að verða færri eða vægari.
-
Bráðabirgðaniðurstöður úr þeim fáu rannsóknum sem hingað til hafa verið gerðar hafa til þess sýnt að mjög lítil hætta er á að krabbamein taki sig upp eftir geislun á hluta brjósts.
Engu að síður eru ýmsir óþekktir þættir í sambandi við geislun á hluta brjósts sem þú þarft að ræða við lækni þinn áður en tekin er ákvörðun um meðferðina:
-
Engar langtíma skýrslur liggja fyrir um árangur af geislun á hluta brjósts. Í sambandi við hverja einstaka aðferð við að geisla hluta brjósts hefur aðeins verið fylgst með nokkur hundruð konum í tiltölulega stuttan tíma. Það þýðir að árangur og aukaverkanir af geislun á hluta brjósts eru ekki fyllilega þekktar. Aftur á móti hefur árangur og aukaverkanir af því að geisla allt brjóstið verið rannsakað í meira en þrjátíu ár hjá þúsundum kvenna. Ræddu við lækni þinn um hvernig þú getur valið á milli nýrrar aðferðar og þeirrar sem viðurkennd er.
-
Flestar aðferðir við að geisla hluta brjósts krefjast sérstakrar þjálfunar og reynslu. Læknar verða að vita hvernig velja ber konur sem þess háttar meðferð hentar og kunna með hana að fara þannig að rétt sé staðið að geisluninni.
Hafir þú áhuga á geislun á hluta brjósts gæti verið góður kostur fyrir þig að láta skrá þig í NSABP B-39 rannsóknina. Allir í lækningateyminu eru vel þjálfðir og þurfa að fylgja ströngum fyrirmælum. *Það gefur auga leið að slíkt hentar ekki íslenskum konum nema þeim sem kunna að vera búsettar í Bandaríkjunum.
*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.