Misskilningur og sögusagnir um geislameðferð
Yfirlit
Eðlilegt er að kona sem er um það bil að hefja nýja læknismeðferð sé kvíðin – jafnvel dauðhrædd. Það fer eftir upplagi. Hjá sumum konum sem eru á leið í geislameðferð, hefur ótti fengið að magnast við ýmsan algengan misskilning varðandi meðferðina og útbreiddar bábiljur.
Misskilningur nr. 1: Geislameðferð er sársaukafull
Flestir sjúklingar finna ekki fyrir neinni geislun á meðan verið er að gefa geislaskammtinn. Fáeinir segjast finna fyrir lítils háttar hitatilfinningu eða fiðringi á svæðinu sem geislum er beint að. Með tímanum mun húðin á svæðinu sem er meðhöndlað verða þurr, aum viðkomu, klæja í hana eða hún brennur. Þetta getur allt valdið óþægindum en yfirleitt eru þau ekki svo mikil til að konan kjósi að hætta meðferð eða gera hlé á henni.
Meira um hvernig takast má á við viðbrögð húðarinnar.
Misskilningur nr. 2: Ég verð geislavirk af meðferðinni
Sértu geisluð útvortis verður þú aldrei nokkurn tíma geislavirk. Geislaskammtarnir sem þér eru gefnir fara inn í vefina á augabragði og engin frekari geislun á sér stað eftir að slökkt hefur verið á tækinu. Meðan þú leitast við að lifa hversdagslífi þínu án mikilla truflana er mikilvægt að þú minnir vini þína, fjölskyldu og samstarfsfólk á að þú ert ekki geislavirk og engin hætta á að þau verði fyrir geislavirkni. Fáir þú innvortis geislun sem aukaskammt í lok meðferðar, verður þú geislavirk á meðan geislavirkt efni er að finna í líkamanum. Meðan á slíkri meðferð stendur eru takmörk fyrir því hve nálægt eða hversu lengi fólk má vera þar sem þú ert.
Misskilningur nr 3: Ég missi hárið af geislameðferð
Sértu eingöngu að fara í geislameðferð, missir þú ekki hárið af höfðinu (hár við geirvörtu eða í handarkrika næst brjóstinu gæti dottið af meðan á meðferð stendur en það vex á nýjan leik). Sá misskilningur að geislameðferð valdi því að þú missir hárið stafar af því að ruglað er saman áhrifum geislameðferðar og meðferðar með krabbameinslyfjum. Margir sjúklingar hefja geislameðferð strax í kjölfar meðferðar með krabbameinslyfjum og því er skiljanlegt að hliðarverkunum þessara tveggja meðferða sé ruglað saman. Meðferð með krabbameinslyfjum hefur áhrif á allan líkamann og afar líklegt að sjúklingur missi hárið af hennar völdum. Geislameðferð er staðbundin meðferð sem einskorðast við afmarkað svæði í vefjum á brjóstsvæðinu og hugsanlega í nálægum eitlum. Sé geislum ekki beint að höfði, missir þú ekki hárið við meðferðina.
Misskilningur nr. 4: Geislameðferð veldur ógleði og uppköstum
Geislameðferð á brjóst og eitla veldur hvorki ógleði né uppköstum. Trúlega stafar þessi misskilningur af því að ruglað er saman áhrifum geislameðferðar og meðferðar með krabbameinslyfjum (frumudrepandi lyfjum). Sum krabbameinslyf geta valdið ógleði og uppköstum. Lyf eins og tamoxifen og viss verkjalyf geta einnig valdið vægri ógleði. Þú gætir líka fundið fyrir ólgu og óþægindum í maga af streitu og álagi sem fylgir því að kljást við sjúkdóminn.
Misskilningur nr 5: Geislameðferð eykur líkur á að ég fái brjóstakrabbamein á ný
Tilgangurinn með geislameðferð á brjóst er að minnka líkur á að krabbamein taki sig upp í brjóstinu. Geislameðferð á öðru brjósti eykur ekki líkur á krabbameini í hinu. Að vísu er rétt að ákveðið samband er milli geislunar og krabbameins því að meiri hætta er á að unglingsstúlkur sem hafa fengið geislameðferð á miðmæti (eitlasvæði á bak við bringubeinið) sem meðferð við Hodgkins-veiki, fái seinna brjóstakrabbamein. Það stafar af því að brjóst sem eru að vaxa og þroskast eru sérlega viðkvæm fyrir geislaskemmdum. Lítið brot kvenna sem urðu fyrir geislun frá kjarnorkusprengingunni yfir Hiroshima í síðari heimsstyrjöldinni fengu einnig mjög margar brjóstakrabbamein síðar á ævinni. Nú er vitað að það gerðist vegna þess að konurnar urðu fyrir vægri geislun á allan líkamann. Geislaskammtinum sem þér verður gefinn í lækningaskyni er hins vegar beint að afmörkuðu svæði á bringunni og nánast engri dreifingu geisla á önnur svæði líkamans fyrir að fara.
ÞB