Tímasetning geislameðferðar

Erfiðast getur reynst að finna tíma fyrir geislameðferð. Þegar á að geisla brjóst og holhönd er bókaður tími einu sinni á dag, fimm daga vikunnar í fimm til sjö vikur. Þegar geisla á svæði sem krabbamein hefur sáð sér í er það yfirleitt gert einu sinni á dag í tvær vikur.

Læknir hefur á undirbúningstímanum sett niður fyrir sér flest það sem snertir tæknilega útfærslu á meðferðinni og því geturðu reiknað með að hver heimsókn gangi nokkuð hnökralaust fyrir sig. Einu sinni í viku getur heimsóknin hugsanlega orðið eitthvað lengri en aðra daga vilji læknir eða hjúkrunarfræðingur fá að tala við þig, skoða þig til að athuga hvernig þú hefst við af meðferðinni eða koma með ábendingar sem geta hjálpað þér í gegnum hana. Í sumum tilfellum er blóðhagur einnig athugaður.

Á geisladeild LSH verður eftir megni reynt að koma til móts við óskir þínar um heppilegan tíma þannig að þú getir í stórum dráttum sinnt daglegum venjum og störfum. Þar sem mikið álag er á deildinni er þó ekki víst að gerlegt sé að koma fyllilega til móts við þig en það verður reynt. Helgarnar – þegar ekki er verið að geisla þig – eru meðal annars til þess ætlaðar að gefa heilbrigðum vef tækifæri til að jafna sig. Flestir læknar reyna að láta sjúklinga sína byrja meðferð ekki síðar en á fimmtudegi þannig að þeir fái að minnsta kosti tvo geislaskammta fyrstu vikuna.

Hvers vegna tekur geislameðferð svona langan tíma?

Að gefa í mörgum smáum skömmtum þann heildarskammt af geislum sem mælt er með er til þess gert að vernda heilbrigðar frumur. Með því að gefa marga smáa geislaskammta en ekki fáa stóra er minni hætta á að heilbrigðar frumur skemmist. Með því að gera hlé um helgar er verið að gefa heilbrigðum frumum tíma til að jafna sig.

Geislar hrífa best þegar frumur eru að vaxa og fjölga sér.  Með því að dreifa geislameðferðinni yfir langan tíma aukast líkur til muna á að geislar hitti fyrir krabbameinsfrumur  á vaxtarskeiði. 

Til þess að geislameðferð komi að fullu gagni er mikilvægt að þú mætir samviskusamlega í hvern tíma. Geislameðferð skilar mestum árangri þegar hún er samfelld og ekki vikið frá henni fyrr en allt er af staðið. Bregðist hörund þitt illa við, gæti læknir þinn ákveðið að gefa þér nokkurra daga hvíld. Einnig má segja að í mjög slæmu veðri og ófærð sé í lagi að missa úr tíma. Þegar þannig stendur er skoðað hvort bæta þarf við skiptum.

Biddu deildina um að sýna sveigjanleika

Því getur fylgt mikið álag að mæta alltaf á sama tíma fimm daga vikunnar til að fá geislaskammt, sérstaklega á sumrin. Ein leið til að minnka álagið er að biðja um að fá tíma snemma á föstudögum eða seint á mánudögum. Þessar viðbótarstundir geta lengt helgina og gert bærilegri þá miklu nákvæmni og skorður sem meðferðin setur. Geti svona sveigjanleiki hjálpað þér til að mæta stundvíslega í hvern bókaðan tíma, verður áreiðanlega reynt að koma til móts við óskir þínar sé þess nokkur kostur.

Ef til vill hefur þú þegar lagt drög að langþráðu sumarleyfi eða orlofi sem allt bendir til að muni rekast á upphaf eða lok geislameðferðar. Ræddu við lækni þinn um hvernig og hvort hægt er að skipuleggja meðferðina þannig að hún rekist ekki á orlofstímann. 

 

*Síðustu ár hefur aðsókn í geislameðferð farið vaxandi sem geir það að verkum að dagskipulag er mjög þétt. Því er ekki alltaf hægt að koma til móts við þarfir sjúklinga hvað varðar komutíma, en það er að sjálfsögðu skoðað á hverjum tíma.

 

*Málsgrein merkt stjörnu er athugasemd yfirlesara.

 ÞB