Við hverju má búast?

Þegar þú hittir geislalækni þinn í fyrsta sinn – lækninn sem fylgist með meðferðinni sem þú færð – ertu hugsanlega hrædd og kvíðin. Þær tilfinningar eru eðlilegar og skiljanlegar. Þótt þú skiljir hvað mun gerast og hvernig geislameðferð virkar ertu engu að síður að kynnast alveg nýjum aðferðum.

Algengt er að þeir sem fara í geislameðferð finni til skapraunar og gremju yfir að þurfa að mæta í meðferð fimm daga vikunnar í allt að sjö vikur. Það truflar daglegt líf og stöðugt er verið að minna á krabbameinið. Svo eru til konur sem finnst notalegt að hitta daglega þá sem sjá um geislameðferðina. Þær finna fyrir sterkum tengslum og skilningi sem veitir þeim öryggi.

Um leið og þú hefur áttað þig á stundaskránni, geislaskammturinn hefur verið reiknaður út, þú hefur verið frædd um hugsanlegar hliðarverkanir og fengið fyrsta skammt, hefurðu stigið stórt skref í þá átt að sigrast á ótta, öryggisleysi og skapraun sem venjulega er gert ráð fyrir að fylgi geislameðferð. Fræðslan sem hér er að finna getur vonandi hjálpað þér á meðan þú sveiflast upp og niður tilfinningaskalann þann tíma sem meðferðin tekur.

Vertu virkur þátttakandi í meðferðinni

Eins og allir aðrir læknar sem koma að því að veita sjúklingum með krabbamein meðferð, mun krabbameinslæknir þinn og/eða hjúkrunarfræðingur eða geislafræðingur hafa samstarf við þig um meðferðina. Til þess að fá sem mest út úr sambandi þínu við þetta fólk þarftu:

  • Að fá fræðslu um meðferðina og fá að vita við hverju má búast.

  • Spyrja spurninga þegar eitthvað kemur þér ókunnuglega fyrir sjónir eða veldur þér áhyggjum eða kvíða.

  • Taka þátt í ákvörðunum sem lúta að umönnun þinni.


ÞB