Undirbúningur (hermimeðferð)

Nákvæmur undirbúningur er nauðsynlegur áður en sjálf geislameðferðin getur hafist. Undirbúningurinn tryggir að meðferðin komi að sem mestu gagni með sem minnsum áhrifum á aðra hluta líkamans. Við undirbúninginn gerir krabbameinslæknir uppdrátt af svæðinu sem þarf að meðhöndla. Krabbameinslæknir eða geislafræðingur notar sérstakt röntgentæki, eins konar hermi, til að líkja eftir meðferðinni, en ekki er geislað á þessu stigi.

Vegna þess hve mikilvægt er að stilla geislahornin nákvæmlega getur undirbúningurinn tekið allt að klukkutíma. Tíminn sem í þetta fer og nákvæmnin sem viðhöfð er, gera seinni heimsóknir snurðulausar og stuðla að því að geislameðferðin geri sem mest gagn. Þú ert ekki geisluð í undirbúningstímanum.

Svona mun þetta ganga fyrir sig þegar þú ferð í undirbúningstímann á geislalækningadeild:

Fyrir hermimeðferð

Mun læknir og/eða hjúkrunarfræðingur/geislafræðingur:

  • Útskýra kosti og galla geislameðferðar, útskýra undirbúninginn og sjálfa meðferðina og leysa úr spurningum sem þú kannt að vilja leggja fyrir hann og ræða við þig um annað það sem kann að valda þér áhyggjum eða kvíða.

  • Kynna þig fyrir meðferðarteyminu.

Meðan á hermimeðferð stendur

Læknirinn ákvarðar nákvæmlega það svæði líkamans sem verður fyrir geislun.

Hvernig þér er komið fyrir er afar mikilvægur þáttur í undirbúningi geislameðferðar. Þér verður hagrætt nákvæmlega þannig að þú fáir sem besta meðferð. Með því að halda stöðunni og vera kyrr stuðlar þú að því að hægt sé að miða geislum á nákvæmlega sama hátt í hvert skiptii sem þú færð geisla. Þér er óhætt að anda reglulega mestallan tímann meðan á undirbúningnum stendur. Til að festa stöðuna verður þú trúlega beðin um að liggja á meðferðarbekk með útbúnaði sem hjálpar þér að liggja hreyfingarlaus. 

Þessi útbúnaður getur verið af ýmsu tagi. Stundum minnir  hann á „vöggu", stundum er þetta eitthvað sem líkist kassa úr frauðplasti sem er lagaður að líkama þínum. Þér mun ekki finnast þú vera í þvingu eða innilokuð. Sums staðar eru fólk látið leggjast á tilbúið mót sem liggur að baki og síðum. Sums staðar eru notaðir bekkir þar sem höfuð, handleggur og hönd eru látin hvíla í fastri stellingu. Því miður er ekki hægt að fóðra meðferðarbekki eða staðsetningarútbúnað því það dregur úr nákvæmni meðferðarinnar.

Myndir eru teknar af svæðinu sem þarf að meðhöndla. Myndirnar eru sendar í tölvu sem undirbýr geislunina. Svæðið sem á að geisla er merkt á húðina. Þessar merkingar eru til leiðbeiningar þegar meðferðarsvæði er ákveðið og það er geislað.

Eftir hermimeðferð

Þegar hermimeðferð er lokið er reiknaður út geislaskammturinn sem þú átt að fá, svo og hvernig honum verður deilt niður á næstu daga. Geislalæknirinn er í nánu samstarfi við þann sem sér um að reikna geislaskammta, hjálpar til við að ákveða bestu stöðu og stærð meðferðarsvæðis og er ábyrgur fyrir því að þér sé gefinn réttur geislaskammtur. Saman reikna þeir stærð, lögun og fjölda meðferðarsvæða. Geislunarsvæði eru ákvörðuð með það fyrir augum að hámarka geislaskammt á svæðið sem þarfnast meðhöndlunar og minnka eftir föngum það geislamagn sem lendir á aðliggjandi heilbrigðum vef eða koma alveg í veg fyrir að það gerist.

Þegar öllu þessu er lokið er hægt að ákveða hvenær þú átt að mæta í meðferð. Sérstakar röntgenmyndir eru teknar til að ganga úr skugga um að meðferðarsvæði hafi verið rétt upp sett.
ÞB