Aukaverkanir Herceptin®
Herseptín hefur í för með sér ýmsar aukaverkanir. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að lyfið veldur hvorki hármissi né ógleði eins og hefðbundin krabbameinslyf gera oftast.
Vægar aukaverkanir
Hjá um það bil 40% kvenna veldur herseptín í upphafi einkennum sem minna á inflúensu svo sem hita, kuldahrolli, vöðvaverkjum eða ógleði. Yfirleitt dregur verulega úr aukaverkunum eftir að lyfið hefur verið gefið einu sinni. Aðrar aukaverkanir geta verið fækkun hvítra og rauðra blóðkorna og niðurgangur. Sýkinga hefur afar sjaldan orðið vart hjá konum sem er eingöngu gefið herseptín.
Alvarlegar aukaverkarnir á hjarta
Mun sjaldgæfara, en ekki alveg óþekkt, er að herceptín dragi úr hæfni hjartans til að dæla blóði. Lestu meira um kosti og aukaverkanir herseptíns. Sjaldan (í um 5% tilfella) er hjartatruflun svo mikil að konur fá hjartabilun vegna þess að hjartað nær ekki að dæla nægilegu blóði.
Konur sem verða fyrir vægri eða alvarlegri hjartabilun geta hætt í herceptínmeðferð og fengið hjartastyrkjandi lyf þess í stað. Oftast færir það starfsemi hjartans aftur í samt lag.
Hjartaskaði getur orðið alvarlegri en ella þegar herceptín er gefið ásamt vissum krabbameinslyfjum sem vitað er að geta valdið hjartaskaða. Þar á meðal er doxurubicin (Adriamycin®) og hugsanlega fleiri lyf til viðbótar. Sérstök aðgát er þá viðhöfð.
Að fá herceptín ásamt krabbameinslyfinu paclitaxel (Taxol®) eykur ekki hættu á alvarlegum hjartaskaða. Rannsóknir hafa leitt í ljós að þessi samsetning veldur aðeins lítillega meiri skaða á hjarta en herseptín eitt og sér. Fylgst er mjög grannt með konum sem nú taka þátt í rannsókn á notkun herseptíns að viðbættu taxóli með tilliti til þessa þáttar.
Farðu í hjartarannsókn áður en meðferð með herseptíni hefst og meðan á henni stendur
Áður en meðferð með herseptíni hefst þarftu að fara í hjartaómskoðun. Einnig er til s.k. MUGA-skann (multigated blood-pool imaging). Hvort tveggja sýnir hversu vel hjarta þitt er á sig komið.
-
Við hjartaómskoðun eru notaðar hljóðbylgjur til að taka nákvæmar myndir af hjartanu á meðan það dælir blóði. Þetta er fljótleg rannsókn. Þú liggur kyrr á bakinu í fáeinar mínútur á meðan tæki sem sendir frá sér hljóðbylgjur er lagt ofan á brjóstkassann yfir hjartanu. Engin geislun fylgir aðferðinni.
-
Hin aðferðin, MUGA-skann, tekur um það bil eina og hálfa til tvær klukkustundir. Þá er örlitlu magni geislavirks efnis sprautað í æð í öðrum handleggnum. Efnið hengir sig tímabundið á rauðu blóðkornin. Þú liggur fyrir á meðan sérstök myndavél sem greinir geislavirka efnið tekur myndir af hjartanu dæla blóði og fylgist með blóðflæðinu í gegnum það (hjartavirkni).
Í byrjun meðferðar með herseptíni gæti læknir þinn viljað að þú farir í ómskoðun eða MUGA-skann á þriggja mánaða fresti til að fylgjast með hvort vart verður einhverrar hjartabilunar. Sértu með hjartasjúkdóm getur það komið í veg fyrir að lyfið sé notað í þínu tilfelli.
Meðan þú ert í herseptínmeðferð verður þú að láta lækni þinn samstundis vita eða fara á bráðavakt verðir þú vör einhverra einkenna um hjartabilun. Einkennin eru meðal annars þau að þú verður andstutt, hjartsláttur verður hraður eða óreglulegur, þú færð hósta sem ágerist og fætur þrútna.
Aðrar alvarlegar aukaverkanir
Lungnaskaðar eru afar sjaldgæfir (1/400). Viðbrögð í lungum geta komið fram síðar með m.a. með lungnabjúg, vökvasöfnun í fleiðruholi og öndunarörðugleikum. Ofnæmi kemur yfirleitt fram þegar í upphafi meðferðar.
Sértu í herceptínmeðferð nú þegar og hefur þolað hana vel er ólíklegt að þú verðir fyrir aukaverkunum af þessu tagi.
Þótt alvarlegar aukaverkanir séu sjaldgæfar er rétt að skoða bæði hjarta og lungu áður en meðferðin hefst og fylgjast vel með þér og hugsanlegum aukaverkunum hennar.
ÞB