Svona virkar Herceptin®

Ómeðhöndlaðar krabbameinsfrumur eru frumur sem vaxa hömlulítið. Herceptín stöðvar vöxt eða hægir á vexti ákveðinna tegunda brjóstakrabbameinsfrumna með því að loka fyrir efnaboð sem þeim berast um að fjölga sér.

Í litningum hverrar einstakrar frumu eru erfðavísar (gen) sem stjórna frumuvexti og frumusamskiptum. Genin gera þetta með því að senda boð um að framleiða ákveðin prótín sem segja frumum hvað þær eigi að gera. Slíkt prótín setja í gang ferli í ákveðinni keðjuverkun sem hefur það að markmiði að framkalla hina æskilegu starfsemi frumunnar – að fjölga sér og lagfæra skemmdir.

Stundum gerist það að eitthvað fer úrskeiðis í erfðavísi eða litningi og þessi keðjuverkun fer úr skorðum. Séu HER2 erfðavísarnir til dæmis of margir, senda þeir beiðni um of mikla framleiðslu á prótínviðtökum á yfirborði krabbameinsfrumunnar sem nefndir eru HER2 viðtakar. Viðtakar eru eins og eyru eða loftnet á yfirborði hverrar frumu og taka við boðum um að þær eigi að fjölga sér.

Þegar HER2 viðtakar eru í viðbragðsstöðu færast þeir í aukana og skipa frumum að fjölga sér. Of margir viðtakar gera það að verkum að brjóstakrabbameinsfrumur taka á móti of mörgum vaxtarboðum, fjölga sér um of og of hratt. Ein leið til að hægja á vexti krabbameinsfrumna eða stöðva hann er að loka fyrir viðtakana þannig að þeir geti ekki virkjast og þar með sent frá sér boð um að fjölga sér. Það gerir herceptín.

Herceptín er ákveðið mótefnaprótín sem hengir sig á HER2 viðtaka í krabbameinsfrumum og kemur í veg fyrir að þær geti tekið við vaxtarboðum.

Vegna þess að herceptín hengir sig yfirleitt ekki á aðrar gerðir prótíns hefur lyfið afar sjaldan áhrif á aðrar frumur líkamans. Þess vegna hefur það líka í för með sér færri alvarlegar aukaverkanir.

ÞB