Mun Herceptin® koma að gagni?

Sértu ein þeirra kvenna með brjóstakrabbamein af tegund þar sem of margir HER2 viðtakar eru fyrir hendi, getur herseptín stuðlað að því að hægja á eða stöðva vöxt krabbameinsins. Lestu grein um notkun herseptíns að lokinni meðferð með krabbameinslyfjum.

Hægt er að gera tvenns konar rannsóknir í því skyni að komast að því hvort líklegt sé að krabbameinið bregðist við herseptíni. Önnur aðferðin mælir með litun á vefjasneið tjáningu prótínmags í HER2 viðtökum (IHC). Með hinni aðferðinni er með ljósmögnun talinn fjöldi eintaka HER2 viðtaka á hverri frumu (FISH):

1. IHC (ImmunoHistoChemistry)

Mótefnalitun vefja er íslenska heitið á þessari aðferð sem er algengasta aðferð við að rannsaka hvort í æxli eru of margir HER2 viðtakar á yfirborði krabbameinsfrumna. (Með aðferðinni er hægt að greina prótínvaka í vefjasneiðum og gert með því að nota hvatatengd (ensímtengd) mótefni og litlaus hvarfefni sem falla út og mynda lit í návist hvatans).

Rannsóknin gefur svör sem eru flokkuð á bilinu 0 til 3 (0 til +++) og gefa til kynna magn HER2 viðtaka í krabbameinsæxli. Sýni æxlið magn á bilinu 0 til 1 (0 til +) er sagt að það sé „HER2-neikvætt”. Sé magnið 2 (++) er staðan óviss og þá er FISH rannsókn  næsta skrefið til að skera úr um jákvæðni og sé það 3 (+++) er sagt að það sé „HER2-jákvætt” 

Konur sem IHC rannsókn sýnir að eru með HER2 jákvætt krabbamein bregðast yfirleitt vel við herceptíni. Ekki er talið að lyfið geri gagn séu niðurstöður úr IHC rannsókn á bilinu 0 til 1 (0 til +).

2. FISH (Fluorescence In Situ Hybridization)

Staðbundin þáttapörun með flúrskimun gæti verið heiti þessarar aðferðar en oftast er stuðst við skammstöfunina FISH. Með henni er leitað að tjáningu HER2 viðtaka. Þessi aðferð er áreiðanlegust í því skyni að komast að því hvort líklegt sé að krabbameinsæxli bregðist vel við meðferð með herceptíni. FISH rannsókn sýnir hversu mörg eintök HER2 viðtaka eru í krabbameinsfrumum.

Úr svona rannsókn getur fengist annað hvort “neikvæð” eða “jákvæð” niðurstaða. Sé æxlið “FISH jákvætt” þýðir það að krabbameinsfrumur eru með óeðlilegt magn HER2 viðtaka og því líklegt að herceptín muni vinna vel á þeim.

*Fýsi þig að vita hver niðurstaða þín var, skaltu biðja krabbameinslækni þinn að segja þér frá því. Niðurstöður rannsókna og upplýsingar um hvaða rannsóknir voru gerðar eru skráðar í meinafræðiskýrslu þína. Skýrslan er varðveitt á LSH, en þú átt rétt á að fá að skoða hana æskir þú þess eða finnst þú þurfa þess.

Notkun herceptíns hefur verið samþykkt í eftirfarandi tilvikum:

  • Handa konum með HER2-jákvætt meinvarpskrabbamein (krabbamein sem hefur dreift sér).

  • Sem viðbótarmeðferð (fyrirbyggjandi meðferð) fyrir konur með HER2 jákvætt krabbamein. Viðbótarmeðferð hefst að lokinni fyrstu meðferð, þ.e. skurðaðgerð. Sömuleiðis sem hluti af meðferð þegar gefin eru krabbameinslyfin doxorubicin (Adriamycin®), cyklófosfamíð (Cytoxan®) og paclitaxel (Taxol®).


*Hérlendis er það í höndum Lyfjanefndar ríkisins að meta hvort ákveðnar tegundir lyfja fá að fara á markað. Lyfjanefnd LSH ákveður fyrir sitt leyti hvort leyfa eigi lyf til nota á sjúkrahúsinu. Í tilfelli Herceptin® hefur enginn annar leyfi til að kaupa inn og nota lyfið hér á landi en Landspítali-Háskólasjúkrahús.

*Málsgreinar merktar stjörnu eru innskot þýðanda að ábendingu yfirlesara.

ÞB