Fréttir af rannsóknum á herseptíni

FDA (Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna) hefur gefið út leyfi til að nota herseptín við meðferð á dreifðu brjóstakrabbameini með HER2 viðtökum á grundvelli þriggja stórra rannsókna.

Herseptín eitt og sér

Í einni rannsókn var kannað hver áhrif herseptíns væru á sjúkdóminn hjá konum sem höfðu greinst með HER2-jákvæð æxli og fengið krabbamein á ný eftir hefðbundna krabbameinslyfjameðferð. Hjá konunumm minnkaði herseptín æxlin um 14%. Að meðaltali entust jákvæð viðbrögð við herseptíni í 9 mánuði og líf kvennanna lengdist að meðaltali um 13 mánuði.

Þetta eru markverðar niðurstöður, einkum vegna þess að dreift krabbamein með HER2 viðtökum hefur tilhneigingu til að vera illskeytt.

Herseptín ásamt krabbameinslyfjum

Hinar rannsóknirnar skiluðu jafnvel enn betri niðurstöðum hjá konum með dreift brjóstakrabbamein, væri þeim bæði gefið herseptín og krabbameinslyfin taxol eða adriamycin (efnafræðiheiti: doxurubicin) ásamt cytoxan (efnafræðiheiti: cyclophosphamide). Þessi lyfjablanda minnkaði æxlin hjá tæplega helmingi þeirra kvenna (45%) sem fengu meðferð með henni. Aftur á móti náðist svipaður árangur aðeins hjá um þriðjungi kvenna (29%) sem fengu meðferð með krabbameinslyfjunum einum. Þegar herseptíni var bætt við hin hefðbundnu krabbameinslyf, jókst lífslengd að meðaltali um 5 mánuði samanborið við hefðbundnu krabbameinslyfin ein og sér.

Fáeinar konur sem fengu bæði herseptín og adriamycin urðu fyrir alvarlegum hjartatruflunum, þar á meðal var hjartabilun (congestive heart failure). Þegar það gerist er hjartað ófært um að dæla nægilegu blóði. Lyfinu adriamycin var að mestu leyti talið um að kenna. Herseptín eitt og sér veldur sjaldan skemmdum á hjartavöðva. Þegar lyfin tvö voru gefin samtímis hafði það í för með sér meiri hjartaskaða en búist hafði verið við. Af þeirri ástæðu er mælt með að þessi tvö ákveðnu lyf, herseptín og adriamycin, séu EKKI notuð saman.

Klínískar rannsóknir á áhrifum lyfjameðferðar með krabbameinslyfinu navelbine ásamt herseptíni hafa einnig verið gerðar nýlega. Saman höfðu lyfin þau áhrif að minnka æxli hjá 75% kvenna sem tóku þátt í rannsókninni (þremur af hverjum fjórum). Algengasta aukverkunin og sú sem um fjórðungur kvennanna fann fyrir, var tímabundin fækkun hvítra blóðkorna en hlutverk þeirra er að fyrirbyggja sýkingar. Alvarlegra aukaverkana varð ekki vart. Verið er að vinna að frekari rannsóknum til að athuga hvort lífslíkur aukast við að nota saman þessi tvö lyf. Í bili hefur FDA aðeins leyft notkun navelbine til meðferðar hjá fólki sem hefur greinst með lungnakrabbamein.

Einnig er unnið að rannsóknum til að kanna hve áhrifaríkt herseptín kann að reynast þegar það er gefið ásamt lyfjunum taxol og gemzar. Í bili hefur FDA aðeins samþykkt notkun gemzar í því skyni að meðhöndla fólk með krabbamein í briskirtli og lungum.

Fylgstu vel með þessu vefsvæði til að fá nýjar niðurstöður og fréttir af rannsóknum á þessu mikilvæga efni. Fýsi þig að fá tölvupóst sem lætur þig vita af nýrri útgáfu Frétta af rannsóknum og ert tilbúin að lesa þær á ensku geturðu farið inn á http://www.breastcancer.org og áfram inn á Email Updates.

ÞB