Lyfið Tyverb®/Tykerb® gefur góða raun á herseptínþolið krabbamein með HER2 viðtökum

Charles Guyer, jr. og fleiri.

Ársfundur American Society of Clinical Oncology í júní 2006, sérstök kynning.

Er þetta eitthvað fyrir mig? Sértu með meinvörp frá HER2-jákvæðu brjóstakrabbameini gætirðu haft gagn af að lesa þessa grein.

Hvaða spurningum reynir rannsóknin að svara? Rannsakendur vildu komast að því hvort konur með langt gengið, dreift brjóstakrabbamein með HER2 viðtökum sem herseptín (efnafræðiheiti: trastuzumab) var hætt að virka á (herseptínþolið brjóstakrabbamein), hefðu gagn af því að taka nýtt lyf sem kallast Tykerb®/Tyverb® (efnafræðiheiti: lapatinib) og er gefið ásamt lyfinu Xeloda® (efnafræðiheiti: capecitabine).

Tykerb er nýtt tilraunalyf sem Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) hefur enn ekki samþykkt.

Tykerb og herseptín eru hvort tveggja lyf sem notuð eru í marksækinni meðferð og er ætlað að vinna á HER2-jákvæðu krabbameini. Að meinið er HER2-jákvætt merkir að frumur framleiða of mikið af HER2/neu prótíni. Herseptín lokar fyrir prótín á yfirborði krabbameinsfrumna, en tykerb lokar prótín inni í frumunum. Vegna þess að lyfin tvö verka á mismunandi vegu telja rannsakendur að tykerb kunni að reynast áhrifaríkt gegn krabbameini með HER2 viðtökum sem herseptín er hætt að virka á.

Efniviður og aðferðir: Rannsakendur fylgdust með 321 konu með langt gengið HER2-jákvætt brjóstakrabbamein. Konurnar höfðu allar þegar fengið meðferð með:

  • Herseptíni

  • taxane-lyfjum eins og taxol (efnafræðiheiti: paclitaxel) eða taxotere (efnafræðiheiti: docetaxel) og

  • anthracyclin-lyfi eins og adriamycin (efnafræðiheiti: doxorubicin).


Lyfin voru hætt að virka á krabbameinið sem þýddi að krabbameinsfrumur tóku að fjölga sér á ný, ýmist meðan á meðferð stóð eða eftir að henni lauk.

Konunum var af handahófi skipt í tvo jafnstóra hópa:


  • 160 konur fengu tykerb og xeloda

  • 161 kona fékk xeloda.

Konurnar í hópunum tveimur voru svipaðar.

  • Meðalaldur var 52 ár.

  • Um 90% kvennanna voru af hvítum kynstofni.

  • Um 85% þeirra voru með krabbamein með hormónaviðtökum.

  • Yfir 95% þeirra voru með krabbamein á IV. stigi.


Bæði tykerb og xeloda eru töflur sem teknar eru inn. Konur sem fengu tykerb tóku inn 1250 milligröm einu sinni á dag að staðaldri og eina xeloda-töflu tvisvar á dag í hálfan mánuð á þriggja vikna fresti. Konur sem aðeins tóku inn xeloda fengu örlítið stærri skammt, en munstrið var hið sama (tvisvar á dag í hálfan mánuð á þriggja vikna fresti). Konurnar héldu áfram að taka inn lyfin þar til í ljós kom að krabbameinið hélt áfram að vaxa eða þær urðu fyrir óásættanlegum aukaverkunum.

Konurnar komu í skoðun á eins og hálfs mánaðar fresti fyrstu átta mánuðina, en eftir það á þriggja mánaða fresti.

Rannsakendur vildu komast að því hvort það að taka inn tykerb ásamt xeloda stöðvaði vöxt krabbameinsfrumna lengur en ef þær tækju aðeins inn xeloda. Rannsakendur vildu einnig komast að því hvort líftími lengdist almennt (sá tími sem konurnar lifðu með eða án þess að krabbameinið héldi áfram að vaxa). Þeir vildu einnig komast að því hvort tykerb ylli einhverjum aukaverkunum, einkum hjartatruflunum, þar sem vitað er að herseptín hefur þannig aukaverkun í för með sér og getur valdið hjartatruflunum.

Rannsóknin hófst í mars 2003 og var kostuð af GlaxoSmithKline, sem framleiðir lyfið tykerb.

Niðurstöður rannsóknar: Bráðabirgðaskýrsla sem gefin var út í mars 2006 sýndi að tykerb tekið ásamt xeloda tvöfaldaði lengd hlésins sem varð á vexti krabbameinsfrumna þar til þær fóru að fjölga sér á ný, samanborið við lyfið xeloda eitt og sér, hjá konum með langt gengið HER2-jákvætt og herseptínþolið brjóstakrabbamein. Hjá konum sem tóku tykerb ásamt xeloda liðu átta og hálfur mánuður áður en krabbameinsfrumur tóku að fjölga sér á ný. Hjá konum sem eingöngu tóku inn xeloda liðu fjórir og hálfur mánuður. Þessi munur var tölfræðilega marktækur sem þýðir að líklega var það lyfið en ekki tilviljun ein sem réð árangrinum.

Vegna þess hve þessar fyrstu niðurstöður lofuðu góðu lét óháða nefndin sem fylgdist með rannsókninni stöðva hana. Var rannsakendum sagt að hætta henni og gefa öllum konum sem tóku þátt í henni lyfið tykerb.

Fyrstu niðurstöður sýndu engan mun á almennri lífslengd. Fylgjast þarf lengur með áhrifum til að hægt sé að sjá hvort tykerb lengir líf kvennanna.

Rannsakendur komust að því að tykerb olli ekki alvarlegum hjartabilunum eins og þeim sem eru taldir tengjast herseptíni. Konurnar fóru í hjartaómskoðun á sex vikna fresti fyrsta hálfa árið sem þær tóku þátt í rannsókninni og síðan á þriggja mánaða fresti það sem eftir var. Fjórar konur sem tóku inn tykerb og ein kona sem aðeins tók inn xeloda urðu fyrir hjartatruflunum, en þær voru ekki alvarlegar. Konurnar voru meðhöndlaðar og náðu sér að fullu.

Sú aukaverkun sem flestar konurnar töluðu um sem tóku bæði tykerb og xeloda var niðurgangur, roði og fiðringur í höndum og fótum og útbrot. Þessar aukaverkanir voru ekki alvarlegar og var hægt að laga. Meðal annarra aukaverkana voru ónot í maga, uppköst og þreyta, en ekki á háu stigi.

Lærdómur sem draga má: Fyrstu niðurstöður þessarar rannsóknar lofa góðu fyrir konur með langt gengið HER2-jákvætt brjóstakrabbamein sem herseptín er hætt að virka á. Í sameiningu töfðu lyfin tykerb og xeloda vöxt krabbameinsfrumna tvisvar sinnum lengur en lyfið xeloda eitt og sér.

Til þessa hefur lyfið tykerb ekki sannað að það auki lífslengd kvenna án tillits til þess hvort krabbamein gengur fram eða ekki. Fylgjast þarf lengur með konunum til þess að fá vitneskju um hvort tykerb eykur almennt lífslengd.

Ólíkt herseptíni virðist tykerb ekki stuðla að alvarlegum hjartabilunum, að minnsta kosti ekki af þessum fyrstu niðurstöðum að dæma. Fleiri rannsóknir þarf að gera til að staðfesta þær. Stór kostur við tykerb er að hægt er að taka lyfið í töfluformi og því auðveldara viðureignar en lyf sem þarf að gefa í æð.

Hafðu í huga að þessi ákveðna rannsókn snýst um að finna lyf sem hægt er að grípa til ÞEGAR OG EF herseptín hættir að virka. Það er ekki ætlað til notkunar í upphafi í stað herseptíns.

Þessar nýju framfarir í lækningameðferðum gefa mörgum konum nýja von vegna þess að HER2-jákvætt brjóstakrabbamein hefur tilhneigingu til að vera illskeytt og grípa þarf til annarra aðgerða ef herseptín hættir að virka. Þótt þessar fyrstu niðurstöðu lofi góðu og séu afar uppörvandi má ekki gleymast að rannsóknir hafa aðeins staðið yfir í stuttan tíma. Rannsakendur hyggjast fylgja konunum miklu lengur eftir til að fylgjast með hve lengi þær lifa (lifun), hvernig krabbameinið þróast og aukaverkunum, einkum áhrifum á starfsemi hjartans.

Hafðu í huga að tykerb er tilraunalyf. Af hálfu lyfjafyrirtækisins GlaxoSmithKline hefur því verið lýst yfir að sótt verði um leyfi FDA (Matvæla- og lyfjastofnunar Bandaríkjanna) í lok ársins 2006. Fáist leyfið, ætti lyfið að verða komið á markað einhvern tíma á árinu 2007.

Þegar þú lest þetta kanntu að hugsa með sjálfri þér: “Ég verð að fá þetta lyf STRAX... hvernig fer ég að því að útvega það?”

Besta leiðin til að kanna hvort hægt er að fá lyfið sem allra fyrst er að tala við krabbameinslækni. Læknir þinn getur haft samband við fulltrúa GlaxoSmithKline í þínum heimshluta. GSK er með kerfi sem heimilar að lyfið sé notað áður en það hefur verið samþykkt af FDA með áætlun sem felst í að gefa lyfið af mannúðarástæðum og er hvert einstakt tilfelli metið. Um leið og GSK gefur út leiðarvísi um þessa áætlun sína verður sagt frá því ábrjostakrabbamein.is.

*Þótt ekki sé mælt með því hér er það staðreynd að sjúklingar hér á landi hafa gripið til eigin ráða og leitað læknismeðferðar og lyfja út fyrir landsteinana. Yfirleitt tekur nokkurn tíma að koma nýjum aðferðum og lyfjum í gegnum kerfið, hér eins og annars staðar. Kannski finnst þér þú engan tíma mega missa. Með dyggum stuðningi krabbameinslæknis eða annars læknis sem þú treystir er ekki útilokað að leiðin sem hér er lýst sé fær fyrir þig.

*Málgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda og ábyrgðarmanns.