Taxotere ásamt herseptíni fækkar tilfellum þar sem brjóstakrabbamein á byrjunarstigi tekur sig upp

Heikki Joensuu og fleiri

The New England Journal of Medicine, 23. febrúar 2006

Er þetta eitthvað fyrir mig? Hafir þú greinst með brjóstakrabbamein á fyrstu stigum, það er HER2-jákvætt og þú þarft að fara í krabbameinslyfjameðferð að lokinni skurðaðgerð, gæti þér þótt fróðlegt að lesa þessa grein.

Bakgrunnur og mikilvægi rannsóknarinnar: Herceptin® (efnafræðiheiti: trastuzumab) hefur verið samþykkt af Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) í því skyni að veita konum meðferð sem eru með dreift eða langt gengið HER2-jákvætt brjóstakrabbamein. Reynslan af lyfinu er traust og góð þegar kemur að því að hjálpa konum sem eru með langt gengið krabbamein. Rannsakendur hafa því áhuga á að kanna hvort herseptín getur einnig komið öðrum að góðu gagni: Konum með brjóstakrabbamein á fyrstu stigum þess og HER2-jákvæða tegund.

Taxotere® (efnafræðiheiti: docetaxel) er lyf sem mjög oft er gefið konum með brjóstakrabbamein. Reynslan sýnir að Taxotere® getur reynst áhrifaríkara en önnur krabbameinslyf og aukaverkanir þess færri en annarra hefðbundinna krabbameinslyfja.

Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) heimilaði notkun Taxotere® við meðferð á konum sem greinst höfðu með brjóstakrabbamein sem hafði sáð sér í eitla eftir að þær fóru í skurðaðgerð (brjóstnám eða fleygskurð). Navelbine® (efnafræðiheiti: vinorelbine) er krabbameinslyf sem er notað gegn krabbameini sem hefur tekið sig upp eða sáð sér. Bæði lyfin, taxotere og navelbine, hafa verið notuð ásamt herseptíni til að meðhöndla konur með HER2-jákvætt brjóstakrabbamein á seinni stigum.

Á árinu 2005 var sýnt fram á með mörgum og marvíslegum rannsóknum að herseptín ásamt krabbameinslyfjameðferð gat minnkað hættu á að krabbamein tæki sig upp um helming (50%) hjá konum sem eru með brjóstakrabbamein á fyrstu stigum, reynist það HER2-jákvætt (of margir HER2 erfðavísar eða viðtakar).

Í rannsókninni sem hér er fjallað um vildu rannsakendur athuga hvort annað hvort taxotere eða navelbine gæti lengt þann tíma sem konur lifðu án þess að krabbamein tæki sig upp á ný, væru þær með sjúkdóminn Á FYRSTU STIGUM hans. Þeir vildu líka komast að því hvort það lengdi sjúkdómshlé og ævilengd hjá konum sem voru með HER2-jákvætt krabbamein væri þeim gefið herseptín eftir meðferð með taxotere eða navelbine. Þeir vildu einnig komast að því hvort aukaverkanir væru mismunandi eftir því hvað lyf voru notuð saman.

Efniviður og aðferðir: Í rannsókninni voru skoðaðar 1.010 konur á aldrinum 25 til 65 ára sem höfðu greinst með brjóstakrabbamein á fyrstu stigum, æxlið að minnsta kosti 20 millimetrar að stærð og meinið ýmist dreift sér í eitla (jákvæðir eitlar) eða ekki (neikvæðir eitlar). Sumar konurnar höfðu farið í brjóstnám, aðrar í fleygskurð. Konunum var skipt í tvo hópa eftir HER2 stöðu:

 • 778 konur höfðu greinst með krabbamein þar sem frumur voru með réttan fjölda HER2 viðtaka (HER2-neikvæðar).

 • 232 konur höfðu greinst með krabbamein þar sem frumur voru með óeðlilega marga HER2 viðtaka (HER2-jákvæðar).

Konunum sem voru HER2 neikvæðar var deilt af handahófi í tvo hópa:

 • Um helmingur kvennanna fékk þrjár umferðir af taxotere og að því loknu þrjár umferðir af fluorouracil, epirubicin og cyclophosphamide (FEC).

 • Hinn helmingurinn fékk þrjár umferðir af navelbine og síðan þrjár umferðir af FEC.

Konunum sem voru með HER2-jákvætt krabbamein (óeðlilega marga HER2 viðtaka) var af handahófi skipt í fjóra hópa og konunum í hverjum hópi ýmist gefið:

 • Þrjár umferðir af taxotere og síðan þrjár umferðir af FEC.

 • Þrjár umferðir af taxotere, síðan herseptín í níu vikur og loks þrjár umferðir af FEC.

 • Þrjár umferðir af navelbine og síðan þrjár umferðir af FEC.

 • Þrjá umferðir af navelbine, síðan herseptín í níu vikur og að lokum þrjár umferðir af FEC.

Rannsóknin fór af stað á árinu 2000 og henni lauk árið 2003. Óháð eftirlitsnefnd sem fylgdist með rannsókninni mælti með því árið 2002 að dregið yrði úr magni taxotere sem konunum var gefið vegna þess að 40% þeirra sem fengu taxotere höfðu greinst með hitasótt af völdum daufkirningafæðar. Hiti af þessari tegund orsakast af of fáum hvítum blóðkornum sem rekja má til lyfsins taxotere.

Konurnar sem fóru í fleygskurð fengu geislameðferð að lokinn meðferð með krabbameinslyfjum. Konur sem voru með krabbamein með hormónaviðtökum fengu meðferð með tamoxifeni í fimm ár.

Fylgst var með konunum í um það bil þrjú ár eftir að þær fóru í fyrstu meðferð.

Rannsóknin var kostuð af finnsku krabbameinssamtökunum og gekk undir nafninu Fin/Her rannsóknin.

Niðurstöður: Rannsakendur komust að því að hjá konum með brjóstakrabbamein á fyrstu stigum lengdi taxotere sjúkdómslaust líf kvenna samanborið við navelbine. Niðurstaðan taldist marktæk og munurinn að öllum líkindum taxoteri að þakka en ekki tilviljun. Þau tilfelli þar sem konur fengu fjarlæg meinvörp (krabbamein tók sig upp annars staðar í líkamanum) sem var gefið taxotere  voru marktækt færri en þegar konum var gefið navelbine. Munur á lífslengd í hópunum tveimur var hins vegar ekki marktækur – í báðum hópunum lifðu konur álíka lengi.

Þegar bornar voru saman konur með HER2-jákvætt krabbamen sem ekki fengu herseptín og þær sem fengu lyfið, sýndu þær sem fengu herseptín:

 • Marktækt lengra líf án sjúkdómsins.

 • Marktækt færri tilfelli meinvarpa.

 • Betri lífslíkur (en munurinn var ekki marktækur þannig að hann hefði getað verið tilviljun ein).

Þegar gefið var taxotere fundust meðal kvennanna fleiri tilfelli daufkirningafæðar (of lítið af hvítum blóðkornum), ofnæmisviðbragða, taugakvilla (fiðrings og/eða dofa í taugum) og bjúgs. Konum sem fengu navelbine var hættara við blóðtappa. Lítill munur virtist vera á óþægilegum aukakvillum hjá þeim konum sem einnig fengu herseptín og þeim sem ekki var gefið herseptín. Ekki varð vart neinna tilfella hjartabilunar á rannsóknartímanum hjá þeim konum sem fengu herseptín. (Eldri rannsóknir hafa bent til að herseptín geti tengst hjartabilun).

Niðurstöður: Rannsakendur drógu þá ályktun að taxotere lengdi þann tíma sem konur með brjóstakrabbamein á fyrstu stigum væru án sjúkdómsins meira en lyfið navelbine. Hins vegar fylgdu taxotere fleiri alvarlegar aukaverkanir en navelbine og engan mun var að merkja á almennri lífslengd, þ.e.a.s. hversu langt líf konur áttu fyrir höndum, með eða án sjúkdómsins.

Hjá konum með HER2 jákvætt brjóstakrabbamein á byrjunarstigi lengdi herseptín þann tíma sem þær lifðu án sjúkdómsins. Herseptín orsakaði engar hjartabilanir á meðan á rannsókninni stóð. Tíminn sem konum var fylgt eftir var hins vegar stuttur þannig að of snemmt er að draga af því ákveðnar ályktanir.

Lærdómur sem draga má: Rannsóknin styður niðurstöður fyrri rannsókna um að meðferð með herseptíni gagnist konum vel sem eru með HER2-jákvætt krabbamein á byrjunarstigi. Samanborið við meðferð sem einskorðast við hefðbundin krabbameinslyf minnkar herseptín ásamt lyfjameðferð líkur á að krabbamein taki sig upp á ný eftir skurðaðgerð hjá konum sem eru með HER2-jákvætt brjóstakrabbamein á fyrstu stigum.

Hins vega vekur rannsóknin ýmsar spurningar.

Hvers vegna þessi ákveðnu lyf? Lyfin sem notuð eru við meðferð í þessari rannsókn eru ekki þau sem venjulega eru notuð í Bandaríkjunum. Þótt þessar nýju samsetningar á lyfjum virðist koma konum með brjóstakrabbamein á byrjunarstigi að góðu gagni, stendur eftir að samanburðurinn var ekki gerður við viðtekna krabbameinsmeðferð eins og hún er þessi misserin.

Í Bandaríkjunum og annars staðar í Evrópu er herseptín venjulega gefið EFTIR að meðferð með krabbameinslyfjum lýkur, þriðju hverja viku í eitt ár. Í þessari rannsókn var herseptín gefið á eftir taxoteri eða navelbine, en ÁÐUR en FEC-lyfin voru gefin og þá aðeins í níu vikur.

Margt var verið að rannsaka í fyrsta sinn. Þetta er í fyrsta sinn sem lyfin navelbine og taxotere eru borin saman til að kanna áhrifamátt þeirra við meðferð á konum með brjóstakrabbamein á byrjunarstigi. Þetta er líka í fyrsta sinn sem herseptín er aðeins gefið í níu vikur. Þetta er ennfremur í fyrsta sinn sem herseptín er gefið á undan hefðbundinni lyfjameðferð (FEC blanda). Því er erfitt að segja fyrir um hvað af þessum breytingum hafði mest áhrif.

Herseptín getur valdið hjartabilun. Í rannsókninni komu ekki fram merki hjartabilunar hjá konum sem fengu herseptín. Það gæti hins vegar stafað af því að herseptín var aðeins gefið í níu vikur, svo og því að konunum var aðeins fylgt eftir í þrjú ár. Fylgjast þarf lengur með þeim til að sjá hvort hjartabilunar verður vart síðar.

Þar til gerður verður beinn samanburður á kostum þess að gefa herseptín í stuttan tíma, eins og var gert í þessari rannsókn, eða lengur eins og venjan er, verður ekki hægt að vita með vissu hvort kostir og gallar verða hinir sömu í báðum tilfellum.

Hjá Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) er verið að fara rækilega í saumana á niðurstöðum úr öllum rannsóknum sem gerðar hafa verið á herseptíni með tilliti til aukaverkana til þess að hægt sé að ákveða hvort gefa eigi út leyfi til að gefa konum herseptín sem eru með brjóstakrabbamein á fyrstu stigum.

Að finna árangursríka leið til að vinna á HER2-jákvæðu brjóstakrabbameini er mjög mikilvægt af því að þessi tegund krabbameins er oftast illskeyttari en krabbamein sem er HER2-neikvætt (ekki of mikið af HER2 viðtökum eða HER2-prótíni). Hafa verður í huga að þótt þessar niðurstöður um herseptín séu afar jákvæðar og uppörvandi, er engu að síður um snemmbúnar niðurstöður að ræða. Rannsakendur hyggjast fylgja konunum í rannsókninni miklu lengur eftir til að fylgjast með hversu lengi þær lifa, með eða án krabbameins, og hvaða líkur eru á að sjúkdómurinn taki sig upp aftur.

Mundu að sérhver kona bregst á sinn einstaka hátt við meðferð. Það er afar mikilvægt að finna þá samsetningu sem þú ert sátt við og kemur ÞÉR að mestu gagni.