Herceptín að lokinni meðferð með krabbameinslyfjum dregur úr líkum á að sjúkdómurinn taki sig upp

HERA Study Team, San Antonio Breast Cancer Symposium, 8. desember 2005, úrdráttur nr. 11 (HERA rannsóknarhópur á ráðstefnu um brjóstakrabbamein í San Antonío)

Er þetta eitthvað fyrir mig? Hafi læknir þinn sagt þér að þú sért með HER2-jákvætt brjóstakrabbamein á byrjunarstigi og þurfir að fara í skurðaðgerð og síðan í lyfjameðferð, gætir þú haft áhuga á að lesa þessa grein.

Bakgrunnur og mikilvægi rannsóknarinnar: Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) hefur samþykkt að Herceptín (efnafræðiheiti: trastuzumab) sé gefið konum með dreift (langt gengið) HER2-jákvætt brjóstakrabbamein. Árangur af notkun herseptíns við meðferð á konum með langt gengið krabbamein er mjög góður. Rannsakendur eru því áfram um að kanna hvort herseptín getur einnig gagnast konum sem eru með HER2-jákvætt brjóstakrabbamein á byrjunarstigi.

Fyrstu niðurstöður um reynslu af því að meðhöndla konur með Her2-jákvætt brjóstakrabbamein á byrjunarstigi voru lagðar fram, bæði á ársfundi American Society of Clinical Oncology og á ráðstefnu um brjóstakrabbamein sem haldin var í San Antonio árið 2005. HERA rannsóknin (Herceptin Adjuvant Trial) er ein af lykilrannsóknum sem birtar hafa verið á heimasíðu breastcancer.org, en þar kom fram að herceptín ásamt meðferð með krabbameinslyfjum gat dregið úr hættu á að sjúkdómurinn tæki sig upp um helming (50%). Hér er samantekt á þessari mikilvægu rannsókn.

Lærdómur sem draga má: Eftir að hafa fylgst með konum sem fengu herseptín á þriggja vikna fresti í eitt ár höfðu rannsakendur komist að því að hætta á að meinið tæki sig upp á ný hafði minnkað um 46% miðað við konur sem ekki fengu herseptín. Niðurstöðurnar voru tölfræðilega marktækar sem þýðir að orsökin var að öllum líkindum herseptín en ekki einber tilviljun. Samanborið við hefðbundna krabbameinslyfjameðferð eina og sér, dregur herseptín úr hættu á að krabbamein taki sig upp EFTIR lyfjameðferð hafi konur greinst með HER2-jákvætt brjóstakrabbamein á fyrstu stigum og farið í skurðaðgerð (brjóstnám eða fleygskurð).

Þessar fyrstu niðurstöður um árangur af notkun herseptíns eru mjög jákvæðar, einkum séu þær eru skoðaðar í ljósi niðurstaðna úr öðrum rannsóknum um herseptín sem lagðar voru fram í San Antonio.

FDA (Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna) er að fara yfir niðurstöður þriggja rannsókna þar sem með tilliti til aukaverkana eru vegnir kostir þess og gallar að veita konum meðferð með herseptíni sem hafa greinst með brjóstakrabbamein á byrjunarstigi.

Sérlega áríðandi er að finna áhrifaríka meðferð við HER2-jákvæðu brjóstakrabbameini því að þessi tegund krabbameins hefur tilhneigingu til að vera illskeyttari en aðrar tegundir þar sem HER2 viðtökum er ekki fyrir að fara (HER2-neikvætt). Þótt niðurstöður rannsókna séu bæði jákvæðar og uppörvandi er brýnt að hafa í huga að þetta eru snemmbúnar niðurstöður. Rannsakendur hyggjast fylgja konunum eftir miklu lengur til að sjá hvernig þeim reiðir af, bæði með tilliti til lífslengdar, með eða án krabbameins, og hættunnar á því að sjúkdómurinn taki sig upp. Þú getur kynnt þér HERA rannsóknina betur hér.

Mundu að sérhver kona bregst við á sinn sérstaka hátt við meðferð. Afar mikilvægt er að finna þá samsetningu sem þú ert sátt við og sem gagnast ÞÉR best.