Saga Herceptin®

Saga herseptíns (Herceptin® - efnafræðiheiti: trastuzumab) hófst á áttunda áratug síðustu aldar þegar vísindamenn tóku að nota nýja tækni sem sameindalíffræðin bauð upp á til að leita að erfðavísum (genum) sem orsök mismunandi tegunda krabbameins. Einn þessara vísindamanna fann erfðavísi sem fékk heitið HER2/neu eða HER2 sem stjórnaði framleiðslu prótíns er virtist framkalla krabbamein í músum.

Seint á níunda áratugnum sýndi vísindamaðurinn Dr. Dennis Slamon fram á að ágengni vissra tegunda brjóstakrabbameins tengdist því hve mörg eintök af HER2 viðtökum var að finna í krabbameinsfrumunum. Brjóstakrabbameinsfrumur með flest eintök HER2 viðtaka fjölguðu og dreifðu sér hraðast.

Dr. Slalom ályktaði sem svo að ættu HER2 viðtakar einhvern þátt í því hve hratt brjóstakrabbameinið óx, gæti lyf sem hindraði starfsemi viðtakanna dregið úr vexti. Hann taldi rannsakendur líftæknilyfjafyrirtækis á að búa til mótefni sem gæti ráðist á HER2 viðtaka. Mótefnið hengir sig á Her2 viðtaka í brjóstakrabbameinsfrumum og hindrar þá í að taka við boðum sem berast frumum um að vaxa og fjölga sér. Mótefnið sendir einnig boð til ónæmiskerfisins um að eyða frumum sem það hefur hengt sig á.

Tilraunir með mótefnið sýndu að það var mjög áhrifaríkt og gat stöðvað eða hægt mjög á vexti brjóstakrabbameins hjá mörgum konum sem voru með dreift krabbamein og yfirtjáningu HER2 viðtaka. Árangur tilraunanna varð til þess að Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) samþykkti Herceptin® í því skyni að meðhöndla konur með dreift krabbamein.

Herseptín er dýrmætur kostur fyrir konur með dreift brjóstakrabbamein með HER2 viðtökum og gerir þeim mögulegt að lifa lengur en ella.

ÞB