Aromatase-hemlar

Í stuttu máli: Hvernig líkaminn býr til estrógen eftir tíðahvörf

Sértu komin úr barneign myndast megnið af estrógeni í líkama þínum í tveimur þrepum:

- Nýrnahetturnar (tveir litlir kirtlar ofan á nýrunum) búa til hormón sem kallast andrógen. Andrógen er fyrst og fremst karlhormón en er líka til staðar hjá konum.

- Sérstakt prótín sem er að finna í vöðva- og fitufrumum um allan líkamann býr til efnahvata (ensím) sem kallast aromatase og sá efnahvati breyti andrógeni í estrógen.

Aromatase-hemlar draga úr magni estrógens hjá konum komnum yfir tíðahvörf (úr barneign) sem greinast með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum (hormónaviðtaka-jákvætt krabbamein). *Kona getur verið komin sjálfkrafa úr barneign vegna aldurs eða starfsemi eggjastokkanna hefur verið stöðvuð með lyfjum eða þeir fjarlægðir með skurðaðgerð.

Hormóninn estrógen sendir boð til hormónaviðtaka um að vaxa og fjölga sér. Þegar dregur úr estrógenmagni líkamans, berast færri vaxtarboð til hormónaviðtaka, það hægir á vexti krabbameinsfrumna eða hann stöðvast alveg.

Á meðan eggjastokkarnir eru virkir (fyrir tíðahvörf) framleiða þeir mest allt estrógen kvenlíkamans og því gagnslítið að draga úr framleiðslu estrógens annars staðar í líkamanum. Hjá konum komnum úr barneign verður hins vegar mest af estrógeni líkamans til úr öðrum hormón sem kallast andrógen. Aromatase-hemlar hindra efnahvatann (ensímið) aromatase í að breyta andrógeni í estrógen. Þar með minnkar magn estrógens sem framleitt er ANNARS STAÐAR en í eggjastokkum. Það þýðir að minna estrógen fer út í blóðið, minna estrógen nær til estrógenviðtaka og færri krabbameinsfrumur ná að vaxa og skipta sér.

Til eru þrjár tegundir aromatase-hemla:

  • Arimidex® (efnafræðiheiti: anastrozole)

  • Aromasin® (efnafræðiheiti: exemestane)

  • Femara® (efnafræðiheiti: letrozole)

Öll eru lyfin tekin inn í töfluformi, ein tafla á dag í allt að fimm ár. Hjá konum með fjarmeinvörp er lyfið tekið eins lengi og það virkar.

Gagnsemi aromatase-hemla

Með fjölda rannsókna hefur verið gerður samanburður á aromatase-hemlum og tamoxifeni til þess að kanna hvort lyfið væri árangursríkara í að meðhöndla hormónaviðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein á fyrstu stigum hjá konum komnum úr barneign. Á grundvelli niðurstaðnanna mæla flestir læknar nú orðið með að eftir upphafsmeðferð (skurðmeðferð og mögulega einnig krabbameinslyfjameðferð og geislameðferð) sé: 

  • Aromatase-hemill  er það andhormónalyf sem best sé að byrja á. Við meðferð á hormónaviðtaka-jákvæðu brjóstakrabbameini á fyrstu stigum sýna aromatase-hemlar meiri árangur og minni aukaverkanir en tamoxifen.

  • Rétt að skipta yfir í aromatase-hemla eftir að hafa tekið inn tamoxifen í 2 til 3 ár (þannig fæst andhormónameðferð í samtals 5 ár), og það geri meira gagn en að vera í 5 ár á tamoxifeni.

  • Dregið úr líkum á að krabbameinið taki sig upp ef aromatasi-hemlar eru teknir inn í 5 ár eftir meðferð með tamoxifen í 5 ár fremur en að taka ekki inn nein lyf efitr 5 ára meðferð með tamoxifen.

Öll lyfin hafa verið samþykkt í því skyni að gefa þau konum með fjarmeinvörp.

Aukaverkanir aromatase-hemla 

Aromatase-hemla hafa yfirleitt færri alvarlegar aukaverkanir í för með sér en tamoxifen svo sem blóðtappa, heilablóðfall og  krabbamein í legslímhúð. Hins vegar geta aromatase-hemlar valdið fleiri hjartakvillum, meiri beinþynningu og beinbrotum en tamoxifen, að minnsta kosti í fáein ár eftir að meðferð hefst. Séuð þið læknir þinn að íhuga aromatase-hemla sem hluta af meðferðinni, ættirðu kannski að biðja hann um að senda þig í beinþéttnimælingu til að kanna hvort rétt sé að þú fáir jafnframt beinstyrkjandi lyf á meðan þú tekur inn aromatase-hemla.

Algengustu aukaverkanir aromatase-hemla eru stirðleiki í liðum og liðverkir.

Liðverkir af völdum aromatase-hemla geta verið áhyggjuefni, en bresk rannsókn sem gerð var árið 2008 bendir til að konur sem fundu fyrir liðverkjum á þeim tíma sem þær tóku inn andhormónalyf áttu síður á hættu að brjóstakrabbameinið tæki sig upp (endurkoma) en aðrar. Vitandi að þessi aukaverkun geti bent til þess að líkur minnka á að meinið taki sig upp gæti hjálpað sumum að halda sig við meðferðina þrátt fyrir aukaverkanir.

Fáir þú aukaverkanir af einni tegund aromatase-hemla gæti læknir þinn mælt með að þú reyndir aðra tegund með annarri efnasamsetningu. Arimidex® og Femara® hafa svipaða efnasamsetningu. Aromasin® er hins vegar ólíkt Arimidex® og Femara® að uppbyggingu.

  • Aromasin® er steratálmi af gerð 1 sem stöðvar starfsemi efnahvatans aromatase fyrir fullt og allt.

  • Arimidex® og Femara® eru steralausir hemlar af gerð 2. Bæði lyfin stöðva starfsemi efnahvatans aromatase, en aðeins tímabundið.

Þessar tvær gerðir aromotase-hemla kunna að hafa örlítið mismunandi kosti og mismunandi aukaverkanir. Til þessa hefur þó ekki með rannsóknum verið gerður beinn samanburður á einum aromatase-hemla við annan. Þar við bætist að aukaverkanir hvers lyfs fyrir sig kunna að vera einstaklingsbundnar. Því er mögulegt að læknir þinn mæli með gerð 1, líði þér ekki nógu vel af gerð 2.


*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB