Arimidex
Í stuttu máli: ATAC rannsóknin
ATAC rannsóknin var sú fyrsta sem greindi frá reynslunni af því að gefa konum aromatase-hemla við sjúkdómnum á fyrstu stigum. Í rannsókninni var borin saman notkun Arimidex® og tamoxifen hjá konum komnum úr barneign með hormónaviðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein á fyrstu stigum. Niðurstöður rannsóknarinnar breyttu viðtekinni meðferð kvenna með brjóstakrabbamein á fyrstu stigum.
Arimidex® (efnafræðiheiti: anastrozole) er aromatase-hemill sem Lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) hefur samþykkt til að meðhöndla:
-
Konur komnar úr barneign, sem greinast með hormónaviðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein á fyrstu stigum strax eftir skurðmeðferð (eða hugsanlega krabbameinslyfjameðferð og geislameðferð) til að draga úr líkum á að krabbameinið taki sig upp.
-
Konur komnar úr barneign sem hafa greinst með langt gengið hormónaviðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein eða meinvörp þess.
*Kona getur verið komin sjálfkrafa úr barneign vegna aldurs eða starfsemi eggjastokkanna hefur verið stöðvuð með lyfjum eða þeir fjarlægðir með skurðaðgerð.
Arimidex® hrífur ekki á brjóstkrabbamein þar sem hormóna viðtökum er ekki til að dreifa (hormónaviðtaka-neikvætt brjóstakrabbamein).
Arimidex® er í töfluformi og ein tafla tekin inn einu sinni á dag. Flestir læknar mæla með að taflan sé að jafnaði tekin inn á sama tíma dags.
Rannsóknarsaga og niðurstöður
Arimidex® var fyrsta lyfið í röð aromatase-hemla sem rannsakað var með samanburði við tamoxifen á konum með krabbamein á fyrstu stigum. ATAC rannsókninni (Arimidex or Tamoxifen Alone or in Combination=Arimidex eða tamoxifen eitt og sér eða saman) var hrundið af stað árið 1999. Þetta er stór og mikil rannsókn sem nær um allan heim. Í henni taka þátt konur með brjóstakrabbamein á fyrstu stigum og var rannsókninni ætlað að leiða í ljós hvort væri áhrifaríkara fyrir konur komnar yfir tíðahvörf að fá Arimidex®, tamoxifen eða bæði lyfin saman þegar hormónaviðtakar eru fyrir hendi.
Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar mæla gegn því að Arimidex® og tamoxifen sé gefið samtímis.
Til þess hafa niðurstöður sýnt að 5 ár á Arimidex® er betra en 5 ár á tamaoxifeni sem fyrsta andhormónalyf fyrir konur sem komnar eru úr barneign og eru með hormónaviðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein á fyrstu stigum. Arimidex er betra en tamoxifen þegar kemur að því að
-
lengja þann tíma sem líður áður en krabbameinið tekur sig upp aftur hjá þeim sem verða fyrir því að greinast á ný,
-
draga úr líkum á að krabbamein dreifi sér til annarra hluta líkamans,
-
draga úr hættu á að nýtt krabbamein nái að þróast í hinu brjóstinu.
Aukaverkanir Arimidex®
Af því að Arimidex® minnkar magn estrógens í líkamanum, nær minna af því til frumna í beinum sem getur leitt til beinþynningar eða –veiklunar þannig að hætta á beinbrotum verður meiri en í meðallagi. Þessi hliðarverkun getur reynst sumum konum afar óþægileg. Sértu með beinþynningu, kann læknir þinn að mæla með að þú takir fremur inn tamoxifen en Arimidex® vegna þessarar hugsanlegu aukaverkunar.
Aðrar algengar aukaverkanir Arimidex® eru:
-
verkir í beinum og liðamótum
-
ógleði
-
uppköst
-
hitakóf
-
máttleysi
-
þreyta
Liðverkir af völdum Arimidex® geta verið áhyggjuefni, en bresk rannsókn sem gerð var árið 2008 bendir til að konur sem fundu fyrir liðverkjum á þeim tíma sem þær tóku inn andhormónalyf áttu síður á hættu að brjóstakrabbameinið tæki sig upp (endurkoma) en aðrar. Vitandi að þessi aukaverkun geti bent til þess að líkur minnka á að meinið taki sig upp gæti hjálpað sumum að halda sig við meðferðina þrátt fyrir aukaverkanir.
Sumar konur finna fyrir öðrum aukaverkunum á meðan þær taka inn Arimidex® :
-
höfuðverk
-
lystarleysi
-
harðlífi
-
niðurgangi
-
brjóstsviða
-
þyngdaraukningu
-
skapsveiflum
-
svefntruflunum
-
svima
-
blæðingu frá leggöngum
-
þurrki í leggöngum
-
munnþurrki
-
þurri húð
-
hósta
-
breytingum á hárvexti
Sumar aukaverkanir geta þýtt að um ofnæmisviðbrögð við Arimidex® sé að ræða. Finnir þú fyrir einhverju af eftirtöldu, skaltu hafa samband við lækni þinn án tafar:
-
brjóstverk
-
óskýrri sjón
-
mjög hröðum hjartslætti
-
útbrotum eða ofsakláða
-
bólgu/þrota í augum, andliti, vörum, tungu, koki, handleggjum, höndum, fótum, ökklum eða fótleggjum
-
brjóstverk eða nýjum hnútum í brjósti.
Hve lengi þarf að taka inn Arimidex®?
Í flestum tilfellum er Arimidex® tekið inn í 5 ár. Læknar kunna að mæla með því við sumar konur að þær taki lyfið inn lengur eða skemur en svo.
* Við ýmsum þeim aukaverkunum sem minnst er á hér að ofan, eru gefin ráð og leiðbeiningar í greinum sem er að finna undir Daglegt líf.
*Málsgreinar merktar stjörnu er innskot þýðanda.
ÞB