Aromasin

Í stuttu máli:
IES rannsóknin

Umfangsmikil rannsókn (the Intergroup Exemestane Study) bar saman árangur þess að skipta yfir í Aromasin® eftir tveggja eða þriggja ára meðferð með tamoxifeni við árangur þess að halda áfram að taka tamoxifen í samtals fimm ár.

Aromasin® (efnafræðiheiti: exemestane) er aromatase-hemill  sem Lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) hefur samþykkt til að meðhöndla:

  • Konur komnar úr barneign* sem greinast með hormónaviðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein á fyrstu stigum eftir að þær hafa tekið inn tamoxifen í 2 til 3 ár til að minnka líkur á að krabbameinið taki sig upp.

  • Konur komnar úr barneign* sem hafa greinst með langt gengið hormónaviðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein eða meinvörp þess.

*Kona getur verið komin sjálfkrafa úr barneign vegna aldurs þegar hún greinist eða starfsemi eggjastokkanna hefur verið stöðvuð með lyfjum eða þeir fjarlægðir með skurðaðgerð.

Konur hætta að taka inn tamoxifen þegar þær byrja að taka inn Aromasin®.

Aromasin® hrífur ekki á brjóstkrabbamein þar sem hormónaviðtökum er ekki til að dreifa (hormónaviðtaka-neikvætt brjóstakrabbamein).

Aromasin® er í töfluformi og ein tafla tekin inn einu sinni á dag. Flestir læknar mæla með að taflan sé að jafnaði tekin inn á sama tíma

Gagnsemi Aromasin®

IES rannsóknin (Intergoup Exemestane Study) hófst árið 1998. Hún fólst í að skipta yfir í Aromasin® eftir að konurnar höfðu tekið inn tamoxifen í 2 til 3 ár og bera saman við árangur þess að vera á tamoxifeni í 5 ár. Niðurstöðurnar sýndu, að það að skipta yfir í Aromasin® eftir 2 til 3 ár EFTIR að hafa tekið inn tamoxifen í 2 til 3 ár (samtals 5 ára andhormónameðferð) gefst betur en að halda áfram að taka tamoxifen í 5 ár. Árangurinn felst í að:

  • það lengir þann tíma sem líður áður en krabbamein tekur sig upp aftur hjá þeim sem greinast á ný

  • það dregur úr líkum á að krabbamein nái að þróast í hinu brjóstinu

hjá konum sem komnar eru úr barneign og greinast með hormónaviðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein á fyrstu stigum.

Aukaverkanir Aromasin®

Af því að Aromasin® minnkar magn estrógens í líkamanum, nær minna af því til frumna í beinum sem getur leitt til beinþynningar eða –veiklunar þannig að hætta á beinbrotum verður meiri en í meðallagi. Þessi hliðarverkun getur reynst sumum konum afar óþægileg. Sértu með beinþynningu, kann læknir þinn að mæla með að þú takir fremur inn tamoxifen en Aromasin® vegna þessarar hugsanlegu aukaverkunar. 

Aðrar algengar aukaverkanir Aromasin®  eru:

  • verkir í beinum og liðamótum

  • hitakóf

  • þreyta

  • höfuðverkur

  • svefntruflanir

  • aukin svitamyndun

Liðverkir af völdum Aromasin® geta verið áhyggjuefni, en bresk rannsókn sem gerð var árið 2008 bendir til að konur sem fundu fyrir liðverkjum á þeim tíma sem þær tóku inn andhormónalyf áttu síður á hættu að brjóstakrabbameinið tæki sig upp (endurkoma) en aðrar. Vitandi að þessi aukaverkun geti bent til þess að líkur minnka á að meinið taki sig upp gæti hjálpað sumum að halda sig við meðferðina þrátt fyrir aukaverkanir.

Sumar konur finna fyrir öðrum aukaverkunum á meðan þær taka inn Aromasin®:

  • taugaveiklun

  • svima

  • þurri húð

  • niðurgangi

  • breytingum á sjón

  • breytingum á hárvexti.

Sumar aukaverkanir geta þýtt að um ofnæmisviðbrögð við Aromasin® er að ræða. Verðir þú andstutt eða finnir fyrir brjóstverk, skaltu hafa samband við lækni þinn án tafar.

Hve lengi er Aromasin® tekið inn?

Í flestum tilfellum er Aromasin® tekið inn í 2 til 3 ár. Læknar kunna að mæla með því við sumar konur að þær taki lyfið inn lengur en svo.

 

* Við mörgum þeim aukaverkunum sem hér er minnst á, eru gefin ráð og leiðbeiningar í greinum sem er að finna undir Daglegt líf.

  
*Málsgreinar merktar stjörnu er innskot þýðanda.

 ÞB