Femara

Í stuttu máli:
MA–17 rannsóknin á Femara®

Rannsakendur fýsti að kanna hvort konur með brjóstakrabbamein á fyrstu stigum sem tekið höfðu inn tamoxifen í fimm ár kynnu að lifa lengur án sjúkdómsins, skiptu þær yfir í Femara® og héldu meðferðinni áfram í önnur fimm ár.

Femara® (efnafræðiheiti: letrozole) er aromatase-hemill sem Lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) hefur samþykkt til að meðhöndla:

  • Konur komnar úr barneign, sem greinast með hormóna-viðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein á fyrstu stigum strax eftir skurðmeðferð (eða hugsanlega krabbameinslyfjameðferð og geislameðferð) til að draga úr líkum á að krabbameinið taki sig upp.

  • Konur komnar úr barneign, sem greinast með horóma-viðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein á fyrstu stigum sem hafa tekið inn tamoxifen í 5 ár til að draga úr líkum á að krabbameinið taki sig upp.

  • Konur komnar úr barneign sem hafa greinst með langt gengið hormóna-viðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein eða meinvörp þess.

Femara® hrífur ekki á brjóstkrabbamein þar sem hormóna viðtökum er ekki til að dreifa (hormóna-viðtaka-neikvætt).

Femara® er í töfluformi og ein tafla tekin inn einu sinni á dag. Flestir læknar mæla með að taflan sé að jafnaði tekin inn á sama tíma dags.

Árið 2011 veitti FDA 11 lyfjafyrirtækjum leyfi til að framleiða lyf (samheitalyf) afleitt af Femara®  sem gengur undir kemíska heitinu letrozole.

Gagnsemi Femara

Með tveimur stórum rannsóknum hefur verið sýnt fram á gagnsemi Femara®.

Rannsóknin BIG 1-98 (Breast International Group) hófst árið 1998 og í henni var borinn saman árangur af Femara® (letrozole) og tamoxifen sem gefið var eftir skurðaðgerð konum komnum úr barneeign, sem greindust með hormóna-viðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein á fyrstu stigum. Niðurstöðurnar sýndu að árangurinn af Femara® var betri en af tamoxifeni að því leyti að:

  • það lengdi þann tíma sem leið áður en krabbameinið tók sig upp aftur hjá þeim sem greindust á ný

  • það dró úr líkum á að krabbamein dreifði sér til annarra hluta líkamans.

 

MA–17 rannsókninni var stjórnað frá Kanada og í henni var rannsakað hvort það að taka inn Femara® í 5 ár EFTIR að hafa verið á tamoxifeni í 5 ár (samtals 10 ár á andhormónalyfjum) gæti dregið úr líkum á að krabbamein tæki sig upp hjá konum komnum úr barneeign, sem greindust með hormóna-viðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein á fyrstu stigum. Niðurstöðurnar sýndu að Femara®:

  • minnkaði líkur á að krabbameinið tæki sig upp

  • minnkaði líkur á að krabbamein dreifði sér til annarra hluta líkamans

samanborið við það að taka ekki inn Femara® eftir 5 ár á tamoxifeni.

 

Aukaverkanir Femara®

Af því að Femara® minnkar magn estrógens í líkamanum, nær minna af því til frumna í beinum sem getur leitt til beinþynningar eða –veiklunar þannig að hætta á beinbrotum verður meiri en í meðallagi. Þessi hliðarverkun getur reynst sumum konum afar óþægileg. Sértu með beinþynningu, kann lænir þinn að mæla með að þú takir fremur inn tamoxifen en Femara® vegna þessarar hugsanlegu aukaverkunar. 

Aðrar algengar aukaverkanir Femara® eru:

  • verkir í beinum og liðamótum

  • þreyta

  • svimi

  • syfja (svefndrungi)

  • hækkað kólestról

  • hitakóf

  • þyngdaraukning

  • ógleði

  • uppköst.

 

Liðverkir af völdum Femara® geta verið áhyggjuefni, en bresk rannsókn sem gerð var árið 2008 bendir til að konur sem fundu fyrir liðverkjum á þeim tíma sem þær tóku inn móthormónalyf áttu síður á hættu að brjóstakrabbameinið tæki sig upp (endurkoma) en aðrar. Vitandi að þessi aukaverkun geti bent til þess að líkur minnka á að meinið taki sig upp gæti hjálpað sumum að halda sig við meðferðina þrátt fyrir aukaverkanir.

Sumar konur finna fyrir öðrum aukaverkunum á meðan þær taka inn Femara:

  • þrota í höndum, fótum, ökkum og fótleggjum

  • lystarleysi

  • harðlífi

  • niðurgangi

  • svefntruflunum

  • blæðingu frá leggöngum

  • verk fyrir brjósti

  • hita

  • hósta

  • þurri húð

  • útbrotum

 

Sumar aukaverkanir geta þýtt að um ofnæmisviðbrögð við Femara® er að ræða. Verðir þú andstutt eða finnir fyrir brjóstverk, skaltu hafa samband við lækni þinn án tafar.

Hve lengi þarf að taka inn Femara?

Í flestum tilfellum er Femara® tekið inn í 5 ár. Læknar kunna að mæla með því við sumar konur að þær taki lyfið inn lengur en svo.

 

* Við mörgum þeim aukaverkunum sem hér er minnst á, eru gefin ráð og leiðbeiningar í greinum sem er að finna undir Daglegt líf.

ÞB