Hvað er andhormónameðferð?
Andhormónameðferð felst í að gefa lyf sem hafa áhrif á allan líkamann í því skyni að draga úr hættu á að brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum taki sig upp og til að koma í veg fyrir að nýtt brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum nái að myndast. Meðferðin hefur áhrif á allan líkamann en ekki bara eitthvert ákveðið líffæri eða líkamshluta. Markmiðið með að gefa andhormónalyf er að útrýma öllum krabbameinsfrumum sem kunna að vera til staðar í líkamanum eftir að upphaflegri meðferð lýkur, hvort sem sú meðferð fólst í skurðaðgerð, meðferð með krabbameinslyfjum, geislameðferð eða öllu þessu.
Að taka inn andhormónalyf er eins og að kaupa líf- eða sjúkdómatryggingu – leið til að draga úr hættu á að krabbamein taki sig upp umfram það sem hægt er að gera með skurðaðgerð, krabbameinslyfjum eða geislameðferð. Hafir þú greinst með brjóstakrabbamein, vonarðu innilega að meðferðirnar sem þú fórst í hafi tortímt öllum krabbameinsfrumum, en þú getur ekki verið viss. Þess vegna „kaupir” þú þér frekari minnkun á líkum með því að þiggja andhormónameðferð. Þú vonar að sjálfsögðu að tryggingin sé óþörf, en það er gott að hafa hana til vonar og vara.
Hjá mörgum konum með hormónaviðtaka-jákvæða tegund sjúkdómsins getur andhormónameðferð verið jafn mikilvæg og aðrar tegundir meðferðar. Reyndar hefur komið í ljós að andhormónameðferð getur jafnvel verið áhrifaríkari en meðferð með krabbameinslyfjum. Þið læknir þinn takið hugsanlega til athugunar hvort þú eigir eingöngu að taka inn andhormónalyf eða taka þau inn að lokinni meðferð með krabbameinslyfjum. Það fer eftir ástandi þínu.
Mismunandi tegundir andhormónalyfja hafa það allar að markmiði að draga úr áhrifum estrógens í líkamanum þannig að ekki sé „kveikt á” vexti brjóstakrabbameinsfrumna með hormónaviðtökum. Hugmyndin gengur út á að svelta brjóstakrabbameinsfrumur þannig að þær fái ekki það estrógen sem þær þarfnast sér til viðgangs.
Lyfin verka ýmist þannig að þau loka fyrir hormónaviðtaka, fækka hormónaviðtökum eða minnka estrógenmagn líkamans. Gagnleg áhrif þeirra eru örlítið mismunandi og hið sama má segja um aukaverkanir.
Unnt er að nota andhormónalyf í margvíslu skyni:
-
Til að draga úr líkum á brjóstakrabbameini séu líkur á að þú fáir brjóstakrabbamein miklar (margir áhættuþættir).
-
Til að meðhöndla staðbundið brjóstakrabbamein (DCIS og LCIS) og minnka líkur á að krabbamein taki sig upp.
-
Eftir fyrstu meðferð við brjóstakrabbameini eins og skurðaðgerð, meðferð með krabbameinslyfjum og geislameðferð til að draga úr líkum á að krabbamein taki sig upp eða nýtt krabbamein nái að myndast.
-
Til að vinna á ífarandi brjóstakrabbameini í því skyni að smækka stórt æxli áður en gripið er til annarra meðferða.
-
Til að meðhöndla dreift krabbamein (fjarmeinvörp).
Sérstök andhormónalyf eru ætluð konum í barneign, önnur konum komnum úr barneign. Andhormónalyf hjálpa samt einungis þeim konum sem eru með krabbamein með hormónaviðtökum (hormónaviðtaka-jákvætt krabbamein). Frumur geta verið með estrógenviðtaka, prógesterónviðtaka, hvort tveggja eða hvorugt. Hafi læknir þinn enn ekki látið rannsaka krabbameinsfrumur þínar með tilliti til þess hvort þær eru með eða án hormónaviðtaka, skaltu biðja hann að sjá til þess að það verði gert.
Hafi krabbameinslæknir þinn sagt þér að þú þurfir að fara í margs konar meðferðir eins og skurðaðgerð, meðferð með krabbameinslyfjum og geislameðferð, hefst andhormónameðferðin yfirleitt eftir að öðrum meðferðum er lokið. Allar meðferðir sem þú ferð í eftir fyrstu meðferð kallast viðbótarmeðferðir (adjuvant).
Mögulegt er einnig að byrjað verði á að gefa þér andhormónalyf áður en til skurðaðgerðar kemur í því skyni að minnka stórt æxli (stærra en 2 sentímetrar). Þegar gefin eru andhormónalyf áður en nokkuð annað er gert, kallast það formeðferð (neoadjuvant).
Í þessum hluta getur þú kynnt þér nánar eftirfarandi efni:
ÞB