Hvaða andhormónalyf eru til?

Til eru fjórar aðaltegundir andhormóna. Fer það eftir ástandi þínu og aðstæðum hvaða lyf hentar best og þitt að meta það í samráði við lækni. Að hluta mun ákvörðunin verða háð því hvort þú ert enn í barneign (fyrir tíðahvörf) eða komin úr barneign (eftir tíðahvörf). Lestu meira um aromatase-hemlar og tamoxifen.
Sumar gerðir andhormónalyfja minnka magn estrógens í líkamanum, aðrar loka fyrir hæfni estrógens til að festa sig á estrógenviðtaka og enn aðrar nema brott eða loka fyrir meginupptök estrógenframleiðslu.

  1. Aromatase-hemlar draga úr því magni estrógens sem líkaminn framleiðir þegar konur eru komnar úr barneign. Þessir aromatase- hemlar eru Arimidex® (efnafræðiheiti: anastrozole), Aromasin® (efnafræðiheiti: exemestane) og Femara® (efnafræðiheiti: letrozole).

  1. SERM-lyf (Selective Estrogen-Receptor Modulators) eins og tamoxifen loka á estrógenviðtakana. SERM-lyfið sest í sætið sem estrógen tæki að öðrum kosti á estrógenviðtakanum – og því kemst það ekki að til að kveikja á frumuvexti.

  1. ERD-lyf (Estrogen-Receptor Downregulators) eyðileggja estrógenviðtaka. Sé enginn viðtaki á frumunni kemst estrógen ekki að. Í bili er Faslodex® (efnafræðiheiti: fulvestrant) eina ERD-lyfið sem til er.

  1. Brottnám eggjastokka eða að stöðva starfsemi þeirra. Þessi meðferð byggist á því að eggjastokkarnir eru aðaluppspretta estrógens hjá konum meðan þær eru í barneign (fyrir tíðahvörf). Hjá konum í barneign eru þrjár leiðir færar til þess að koma í veg fyrir að eggjastokkar framleiði estrógen:

  • Lyf: Zoladex® (efnafræðiheiti: goserlin) og Lupron® (efnafræðiheiti: leuprolide) eru gefin undir húð einu sinni í mánuði í nokkra mánuði til þess að eggjastokkar hætti að framleiða estrógen.

  • Skurðaðgerð: Þegar eggjastokkar eru fjarlægðir með skurðaðgerð (brottnámi) minnkar það framleiðslu estrógens í líkamanum mjög mikið.

  • Geislun á eggjastokka: Litlir geislaskammtar á eggjastokka geta stöðvað framleiðslu estrógens. Þessari aðferð við að binda endi á starfsemi eggjastokkanna er afar sjaldan beitt.

Hvaða hlutverki hver þessara meðferða kemur til með að gegna fer eftir því á hvaða stigi sjúkdómurinn er, hvorum megin tíðahvarfa konan er, hvernig almennu heilsufari hennar er háttað svo og hver afstaða hennar er til þeirra.

Andhormónalyf má gefa með ýmsu móti: Ein og sér, með öðrum lyfjum eða eftir að önnur lyf hafa verið gefin. Í janúar 2005 gáfu samtök krabbameinslækna í Bandaríkjunum út nýjar viðmiðanir í sambandi við andhormónameðferð og mismunandi aðstæður. Lestu meira um hvernig staðið er að því að veita mismunandi andhormónameðferðir.

Notfærðu þér upplýsingar í þessum hluta til að ákveða með lækni þínum hvaða meðferð er best fyrir ÞIG. Haltu svo áfram að vera í sambandi við lækni þinn til að tryggja að þú hljótir bestu fáanlegu meðferð.

ÞB