Hvaða hlutverki gegna andhormónar í meðferð við brjóstakrabbameini?

Hormónaviðtakar eru eins og eyru eða loftnet á frumum. Estrógen sendir boð um viðtakana sem skipa krabbameinsfrumum að vaxa. Frumur með estrógenviðtaka vaxa og fjölga sér þegar estrógen hengir sig á viðtakana.

Þegar brjóstakrabbameinsæxli hefur verið fjarlægt eru æxlisfrumur rannsakaðar með tillitil til þess hvort þær eru með hormónaviðtaka eða ekki. Séu viðtakar fyrir estrógen eða prógesterón fyrir hendi, er mjög líklegt að andhormónameðferð virki. Því fleiri estrógen- eða prógesterónviðtakar sem finnast í frumunum þeim mun meiri líkur eru á að andhormónameðferð muni vinna á tilteknu krabbameini.


Annað nafn yfir andhormónameðferð er „and-estrógen meðferð”. Markmið meðferðar er að fyrirbyggja að krabbameinsfrumur fái hormóninn sem þær þarfnast sér til viðgangs. Sá hormón er estrógen.

Hve mörg tilfelli brjóstakrabbameins eru með hormónaviðtaka?

  • Um það bil 75% brjóstakrabbameins eru með estrógenviðtaka (estrógen-jákvætt eða “ER-jákvætt” eða “ER+”).

  • Um það bil 65% ER-jákvæðs brjóstakrabbameins er einnig með prógesterónviðtaka (“PR-jákvætt” eða “PR+”).

  • Um það bil 25% brjóstakrabbameins eru bæði ER-neikvæð (“ER-“) og PR-neikvæð (“PR-) eða með óþekkta hormónastöðu.

  • Um það bil 10% brjóstakrabbameins eru ER-jákvæð en PR-neikvæð.

  • Um það bil 5% brjóstakrabbameins eru ER-neikvæð en PR-jákvæð.

  • Séu frumur með viðtaka fyrir báða hormónana EÐA með viðtaka fyrir annan hvorn, er talið að krabbameinið sé hormónaviðtaka-jákvætt.

Í þessu samhengi þýðir „jákvæður” að umtalsverður fjöldi krabbameinsfrumna er með hormónaviðtaka. „Neikvæður” þýðir að frumur eru ekki með umtalsverðan fjölda viðtaka.

Það kann að vera skilgreiningaratriði hvað telst „umtalsvert”. Yfirleitt er þó talið að séu um 5-10% frumna með hormónaviðtaka megi segja að niðurstaðan sé „jákvæð”. Sé niðurstaðan hins vegar „neikvæð” eða „á mörkum” er engu að síður mikilvægt að vita hver staðan er. Séu til dæmis um eða undir 5% frumna með hormónaviðtaka og niðurstaðan talin „neikvæð” er engu að síður mögulegt að krabbamein með hormónaviðtaka í þeim mæli geti svarað andhormónameðferð ágætlega.

Stundum er hormónastaðan óþekkt. Það getur þýtt ýmislegt, t.d. að:

  • Ekki var beðið um rannsókn eða hún ekki framkvæmd.

  • Sýnið sem fór í rannsókn var of lítið til að fá áreiðanlegar niðurstöður.

  • Ekki fundust nema fáeinir hormónaviðtakar.

Finnist engir hormónaviðtakar eða ekki unnt að mæla þá eða koma auga á þá af einhverjum ástæðum, er staðan „óþekkt”. Krabbameinið er þá flokkað sem brjóstakrabbamein án hormónaviðtaka.



Hvernig starfa hormónar?


Hormónarnir estrógen og prógesterón berast með blóðrás og leita uppi sæti sem þeir passa í, og á það jafnt við um heilbrigðar frumur sem krabbameinsfrumur. Viðtakar eru sérhæfðar prótíneindir eða mólekúl sem sitja ýmist innan eða utan á frumum líkamans. Viðtakarnir virka eins og kveikjari/slökkvari fyrir ákveðna starfsemi í frumunni. Finni rétta sameindin sér leið og passar við viðtakann – eins og lykill sem passar í skráargat – fer tilætluð starfsemi í frumunni í gang.

Margar tegundir brjóstakrabbameins eru háðar hormónum. Það þýðir að estrógen og prógesterón þarf til að örva vöxt með því að “kveikja á” hormónaviðtökum í krabbameinsfrumum. Séu hormónarnir ekki til staðar, berast krabbameinsfrumunum engin boð. Þær veslast því upp og drepast hugsanlega að lokum.

Estrógen og prógesterón gegna ákveðnu hlutverki í þróun vissra tegunda brjóstakrabbameins:

  • Estrógen er mjög mikilvægur “lykill” að estrógenviðtökum um allan líkamann OG á sumum krabbameinsfrumum.

  • Prógestrónviðtakar geta einnig átt þátt í að kveikja á vexti krabbameinsfrumna.

Þegar krabbamein sýnir fáa eða enga estrógenviðtaka ( er “ER-neikvætt”) er yfirleitt ekkert gagn að andhormónalyfjum. Séu hins vegar einhverjir prógestrónviðtakar fyrir hendi, gætu andhormónar hugsanlega gagnast engu að síður. Líkur á að andhormónar komi að gagni sem meðferð við krabbameini með prógesterónviðtaka en enga estrógenviðtaka eru að meðaltali 10%. Sértu með brjóstakrabbamein án estrógenviðtaka þarftu að ræða það við lækni þinn hvort tekur því að kanna áhrif andhormónalyfja á ÞIG.


Hvernig muntu bregðast við andhormónalyfjum?


Finnist hormónaviðtakar á krabbameinsfrumum í brjóstakrabbameini þínu, er líklegt að þú bregðist vel við andhormónalyfjum. Því fleiri sem viðtakarnir eru þeim mun betri árangri má búast við:

  • Séu bæði estrógen- og prógestrónviðtakar fyrir hendi (ER+/PR+) eru 70% líkur á að þú hafi gagn af andhormónalyfjum.

  • Sé einungis of mikið af estrógenviðtökum (ER+/PR-) EÐA einungis of mikið af prógestrónviðtökum (ER-/PR+) í krabbameininu eru 33% líkur á að andhormónalyf virki vel. **Þó er þetta hlutfall líklega lægra í konum sem eru PR+/ER-.

  • Sé hormónastaðan óþekkt eru að meðaltali um 10% líkur á að meðferðin skili árangri.

estrogen_receptors_tcm8-78781

Stækka mynd

Fruma með estrógenviðtökum, estrógeni og hjálparprótíni.

A Estrógenviðtaki
B Estrógen
C Estrógen hjálparprótín
D Frumukjarni
E DNA erfðaefni


Estrógen gegnir margvíslegu hlutverki, þar á meðal að stuðla að því að bein séu þétt og sterk. Æskilegt er að vera með sterk bein (og fleira gott sem estrógen stuðlar að eins og minna kólestról og aukin vellíðan), en betra er þó að vera laus við þann eiginleika þeirra að örva vöxt brjóstafrumna.

Nokkrar rannsóknir hafa leitt í ljós að meiri líkur eru á að rosknar konur með mikla beinþéttni (sterk bein) fái brjóstakrabbamein á seinni stigum en aðrar konur. Það varð til þess að sögusagnir fóru af stað um að þétt brjóst og þétt bein væru orsök brjóstakrabbameins. Það er hins vegar ekki þéttleiki brjósta eða beina sem veldur aukinni hættu á brjóstakrabbameini. Tiltölulega mikið magn estrógens í líkamanum framkallar trúlega allt þrennt: þétt brjóst, sterk bein OG auknar líkur á brjóstakrabbameini.

tamoxifen_estrogen_receptor_tcm8-79533

Stækka mynd

Fruma með estrógenviðtökum sem hefur verið lokað á með tamoxifeni, og hjálparprótíni.

A Estrógenviðtaki
B Tamoxifen
C Estrógen hjálparprótín
D Tamoxifen hjálparprótín
E Frumukjarni
F DNA erfðaefni

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

**Skv. ábendingu yfirlesara.

ÞB