Tímasetning andhormónameðferðar með hliðsjón af öðrum meðferðum

Þú og læknir þinn munuð hugsanlega eiga fleiri en eitt samtal um hvaða meðferðarleiðir séu bestar fyrir ÞIG. Eitt af því sem þið þurfið að ræða er hvort andhormónameðferð á að koma á eftir, undan eða á meðan á öðrum meðferðum stendur.

Andhormónameðferð að öðrum meðferðum loknum

Yfirleitt er meðferðaröðin þannig að fyrst kemur skurðaðgerð, þá meðferð með krabbameinslyfjum, síðan geislameðferð og að lokum andhormónameðferð. Eigir þú að fá meðferð með Herceptin®(efnafræðiheiti: trastuzumab), er þér hugsanlega gefið það á undan öðrum meðferðum, meðan á öðrum meðferðum stendur eða eftir að þeim líkur, allt eftir því hvernig ástand þitt og aðstæður eru. Með því að fara í andhormónameðferð að öðrum meðferðum loknum þarftu ekki að glíma við jafnmargar aukaverkanir í einu. Þar við bætist að finnir þú fyrir aukaverkunum meðan á meðferð stendur, er líklegra að þú vitir hvað veldur sértu aðeins í einni meðferð í senn.

Hafa þarf í huga að með því að taka inn andhormónalyf samtímis meðferð með krabbameinslyfjum eða geislameðferð er hugsanlegt að meðferðirnar skili ekki jafngóðum árangri og ella. Ástæðan er þessi:

Markmið krabbameinslyfja- og geislameðferðar er að losna við allar krabbameinsfrumur sem kunna að hafa orðið eftir við skurðaðgerð. Líkur á að krabbameinslyf og geislar drepi krabbameinsfrumur eru mestar meðan þær eru sem starfsamastar. Andhormónalyf hafa hins vegar þau áhrif að krabbameinsfrumur með hormónaviðtökum HÆTTA að skipta sér. Takir þú inn andhormónalyf á sama tíma og þú ert í annars konar meðferð þannig að krabbameinsfrumur hætta að vaxa, er mögulegt að meðferðin með krabbameinslyfjum og geislameðferðin skili ekki tilætluðum árangri.

Til þessa hafa rannsóknir gefið til kynna að ekki skipti máli hvort tamoxifen er gefið meðan á geislameðferð stendur eða að henni lokinni (grein á ensku). Tímasetning virðist ekki hafa áhrif á hvort eða hvenær sjúkdómurinn tekur sig upp, hve löng ævin verður eða hvaða aukaverkanir fylgja meðferðinni. Hins vegar kom fram í nýlegri könnun að meiri líkur væru á að konur væru lengur lausar við sjúkdóminn og lifðu lengur, færu þær í meðferð með krabbameinslyfjum og fengju tamoxifen að því loknu en þegar þær fóru samtímis í báðar meðferðirnar.

Yfirleitt liggur ekkert á að byrja andhormónameðferð. Meðferðin stendur í fimm ár, stundum lengur, þannig að það breytir engu þótt henni sé seinkað um nokkrar vikur. Fer það eftir aðstæðum þínum og ástandi hvenær læknir þinn mælir með að þú hefjir andhormónameðferð, hvort heldur það verður fyrr eða síðar.

Sértu til dæmis með ágengt krabbamein, gæti læknir þinn viljað að þú byrjir að taka inn andhormónalyf um leið og meðferð með krabbameinslyfjum lýkur og haldir því áfram meðan þú ert í geislameðferð. Sértu með brjóstakrabbamein sem ekki er talið sérlega ágengt, gæti læknir þinn fallist á að þú fáir að fresta því að byrja í andhormónameðferð í einhverjar vikur eða fáeina mánuði.

Andhormónameðferð á undan öðrum meðferðum

Hugsanlega verður mælt með að hefja andhormónameðferð áður en gripið er til annarra meðferða til að minnka meðalstórt eða stórt æxli fyrir skurðaðgerð. Sértu til dæmis með æxli sem er stærra en tveir sentímetrar og hormónaviðtakar fyrir hendi, gæti læknir þinn lagt til að æxlið yrði minnkað fyrir aðgerð með nokkurra mánaða andhormónameðferð. Með því móti er hugsanlegt að þú komist í aðgerð sem leyfir þér að halda brjóstinu - fleygskurð og geislameðferð – í stað þess að fara í brjóstnám. Í einni læknisfræðilegri rannsókn kom í ljós að 46% kvenna sem fengu Arimidex® fyrir skurðaðgerð þurftu ekki að fara í brjóstnám samanborið við 22% þeirra sem fengu tamoxifen og 26% þeirra sem fengu hvort tveggja.

Andhormónameðferð samtímis öðrum meðferðum

Stundum kemur fyrir, einkum þegar krabbamein er af ágengri tegund eða æxlið stórt, að læknirinn vill að andhormónalyf sé tekið á sama tíma og verið er í geislameðferð (sem er staðbundin meðferð sem miðar á ákveðinn, afmarkaðan stað líkamans). Með andhormónalyfjum sem verka í öllum líkamanum er haldið uppi stanslausum árásum í nokkra mánuði á þær krabbameinsfrumur sem kunna að hafa orðið eftir við skurðaðgerð.

Við ákveðnar aðstæður getur það gerst að andhormónameðferð sé hafin þótt liðið sé ár eða meira frá krabbameinsmeðferð (skurðaðgerð, geislameðferð og krabbameinslyfjameðferð). Þú gætir hugsanlega einnig byrjað í andhormónameðferð á sama tíma og þér er gefið Herceptin®.

Sumar konur hafa ef til vill ekki hugmynd um hvaða hlutverki andhormónalyf gegna fyrr en margir mánuðir eru liðnir frá því að þær fóru í aðrar meðferðir. Aðrar konur þurfa hugsanlega tíma til að ákveða hvort þær vilja þiggja andhormónameðferð. Einnig getur það gerst að einhverjir kvillar eða annar heilsubrestur kemur í veg fyrir að hægt sé að hefja andhormónameðferð. Ólíkt öðrum meðferðarleiðum, eins og með krabbameinslyfjum eða geislum sem verður að grípa til sem allra fyrst, getur andhormónameðferð komið að gagni hvenær sem hún hefst.

 ÞB