Tamoxifen
Tamoxifen er frumheiti fyrir Nolvadex®, og er elsta SERM-lyfið og það lyf sem oftast er ávísað á. Tamoxifen hefur verið samþykkt í því skyni að meðhöndla:
-
Konur og karla sem greinast með hormónaviðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein á fyrstu stigum eftir skurðmeðferð (eða hugsanlega krabbameinslyfjameðferð og geislameðferð) til að draga úr líkum á að krabbameinið taki sig upp (endurkoma)
-
Konur og karla sem greinast með langt gengið hormónaviðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein eða fjarmeinvörp þess
Tamoxifen er einnig notað til að:
-
Minnka líkur á brjóstakrabbameini hjá konum sem ekki hafa greinst en er hættara við að fjá sjúkdóminn en meðaltal gerir ráð fyrir. (*Ekki heimilað hérlendis.)
Tamoxifen hrífur ekki á brjóstkrabbamein þar sem hormónaviðtökum er ekki til að dreifa (hormónaviðtaka-neikvætt brjóstakrabbamein).
Tamoxifen er í töfluformi og ein tafla tekin inn einu sinni á dag. Flestir læknar mæla með að taflan sé að jafnaði tekin inn á sama tíma dags. Sums staðar fæst tamoxifen í fljótandi formi undir heitinu Soltamox
Gagnsemi tamoxifens
![]() |
Fruma með estrógenviðtökum sem tamoxifen hefur lokað á ásamt hjálparprótínum. A Estrogen-viðtaki |
Frá því að tamoxifen var samþykkt árið 1998 hafa milljónir kvenna og karla sem greinst hafa með hormónaviðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein verið meðhöndlaðar með lyfinu. Aromatase-hemill er fyrsta andhormónalyfið sem verður fyrir valinu til að meðhöndla konur sem komnar eru úr barneign en tamoxifen er fyrsta val fyrir konur í barneign og einnig góður kostur fyrir þær sem ófrjóar eru, geti þær ekki tekið inn aromatase-hemla.
Tamoxifen getur:
-
Minnkað líkur á að brjóstakrabbamein taki sig upp um 40% til 50% hjá konum komnum úr barneign og um 30% til 50% hjá konum í barneign (frjóum konum).
-
Minnkað líkur á að nýtt krabbamein ná að þróast í hinu brjóstinu um 50% -Minnkað stór hormónaviðtaka-jákvæð brjóstakrabbameinsæxli fyrir skurðaðgerð.
-
Hægt á vexti eða minnkað langt gengið (fjarmeinvörp) hormónaviðtaka-jákvæðs brjóstakrabbameinsæxli, bæði hjá konum í barneign og þeim sem komnar eru yfir tíðahvörf.
-
Minnkað líkur á brjóstakrabbameini hjá konum sem eru með meiri líkur en gengur og gerist á því að fá sjúkdóminn en hafa ekki fengið hann. (*Ekki heimilað hérlendis.)
Tamoxifen hefur fleiri kosti sem ekki tengjast meðferð við brjóstakrabbameini. Þar sem þetta er SERM-lyf, (Selective Estrogen Receptor Modulators) getur það ýmist lokað fyrir eða virkjað starfsemi estrógens í tilteknum frumugerðum. Tamoxifen lokar fyrir starfsemi estrógens í brjóstafrumum, en örvar aftur á móti estrógenvirkni í bein- og lifrarfrumum. Þannig getur tamoxifen:
-
stuðlað að því að stöðva beinþynningu eftir tíðahvörf
-
dregið úr magni kólestróls.
Sumir geta ekki nýtt sér til fulls gagnsemi tamoxifens
Líkaminn nýtir ensím (efnahvata) sem kallast CYP2D6 til að breyta tamoxifeni þannig að það taki að virka. Tvennt getur komið í veg fyrir að líkamanum takist þetta: Annars vegar galli í CYP2D6-ensími og hins vegar ákveðin lyf sem hindra virkni þessa ákveðna ensíms.
-
Gallað CYP2D6-ensím: Um það bil 10% fólks er með CYP2D6-ensím sem starfar ekki eðlilega. Að vera með gallað CYP2D6-ensím getur komið í veg fyrir að fólk geti nýtt sér til fulls gagnsemi tamoxifens. Þú getur beðið lækni þinn um að athugað sé hvort þessi galli sé fyrir hendi ef þú ert alvarlega að íhuga að taka inn tamoxifen.
-
Lyf sem geta truflað CYP2D6-ensímið: Til eru lyf sem geta komið í veg fyrir starfsemi CYP2D6-ensíms í mismiklum mæli (yfirleitt er talað um „sterka”hemla eða „meðalsterka” hemla á virkni CYP2D6-ensímsins. Á meðal þessara lyfja eru þunglyndislyf af gerðinni SSRI (serotonin-specific reuptake inhibitors) og SNRI (serotonin-norepinephrine reuptake inhibitors). Fleiri tegundir algengra lyfja geta hindrað virkni CYP2D6-ensíma, svo sem Cardioquin® (efnafræðiheiti quinidine), Benadryl® (efnafræðiheiti: diphenhydramine) og Tagamet® (efnafræðiheiti: cimetidine). Þegar lokað er með lyfjum á starfsemi CYP2D6 getur það truflað virkni tamoxifens og dregið úr áhrifum þess sem lyfs við krabbameini. Flestir læknar mæla með að ekki séu teknir inn sterkir eða meðalsterkir CYP2D6-hemlar á meðan verið er á tamoxifeni.
Hafirðu lokið meðferð með tamoxifeni og tókst önnur lyf á sama tíma, er rétt fyrir þig að bóka tíma hjá lækninum og ræða við hann hvort eitthvert af öðrum lyfjum þínum kunni að hafa truflað CYP2D6 og hugsanlega gagnsemina af því að taka inn tamoxifen. Hugsanlega mælir læknir þinn með viðbótarmeðferð eða áframhaldandi andhormónameðferð (með tamoxifeni eða aromatase-hemla) með hliðsjón af því hve miklar líkur þínar eru á að meinið taki sig upp á ný, almennu heilsufari þínu, svo og þínum eigin óskum.
Hafir þú tekið inn tamoxifen vegna þess að líkur þínar á að greinast eru miklar, og þú jafnfram tekið inn CYP2D6-hemlandi lyf, kann læknir þinn að mæla með viðbótar andhormónameðferð með tamoxifeni eða Evista® (efnafræðiheiti: raloxifene), með hliðsjón af því hvort þú ert enn í barneign eða komin úr barneign. Ræddu við lækni þinn um hvað er best fyrir þig að gera miðað við aðstæður þínar.
Hafi brjóstakrabbameinið þróast áfram á sama tíma og þú tókst bæði inn tamoxifen og sterkan eða meðalsterkan CYP2D6-hemla, er alls ekki víst að tamoxifen geti ekki komið að gagni. Ekki er ólíklegt að tamoxifenið hafi aldrei fengið tækifæri til að koma stjórn á krabbameinið vegna þess að önnur lyf höfðu hemlandi áhrif á virkni þess. Því má hugsa sér að framvegis gæti tamoxifen skilað góðum árangri sé það tekið án þess að CYP2D6-hemlandi lyf séu með í för.
Fyrir þá sem taka inn raloxifene (heiti lyfs: Evista®)
Ekki er þörf á CYP2D6-ensími (efnahvatanum) til þess að raloxifen (heiti lyfs: Evista®) nái að virka. Evista® er lyf náskylt tamoxifeni og er notað til að draga úr líkum á að þróa hormónaviðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein og til að meðhöndla beinþynningu hjá konum sem komnar eru úr barneign.
Lyf sem ber að forðast meðan verið er á tamoxifen
Í listanum hér að neðan eru lyf sem raðað er undir fyrirsögnunum „sterkir hemlar” og „meðalsterkir hemlar” sem geta truflað áhrifin af tamoxifeni. Lyf undir fyrirsögninni „ei hemlandi” loka ekki á CYP2D6-ensím og trufla því ekki meðferð með tamoxifeni. Listinn er ekki endanlegur og getur breyst með tímanum. Notaðu hann sem byrjunarreit og spyrðu lækni þinn hvort eitthvað af þeim lyfjum sem þú tekur inn eða mælt er með að þú takir inn, séu samrýmanleg því að taka inn tamoxifen.
Sterkir hemlar
Frumlyf (Generic Names) Samheitalyf (Brand Names)
Bupropion Wellbutin®
Fluoxetine Prozac®
Paroxetine Paxil®
Quinidine Cardioquin®
Meðalsterkir hemlar
Frumlyf (Generic Names) Sameitalyf (Brand Names)
Duloxetine Cymbalta®
Sertraline Zoloft®
Diphenhydramine Benadryl®
Thioridazine Mellaril®
Amiodarone Cordarone®
Trazodone Desyrel®
Cimetidine Tagamet®
SSRI-lyf og SNRI-lyf Ei hemlandi/hamlandi
Frumlyf (Generic Names) Samheitalyf (Brand Names)
Venlavaxine Effexor®
Citalopram Celexa®
Escitalopram Lexapro®
Heimild: Flockhart DA. ©2008. Consortium on Breast Cancer Pharmacogenomics: Indiana University School of Medicine.
Aukaverkanir tamoxifens:
Tamoxifen er lyf sem hefur áhrif á estrógen á valkvæðan hátt og getur haft í för með sér alvarlegar aukaverkanir, þar á meðal blóðtappa, heilablóðfall og krabbamein í legi. Séuð þið læknir þinn að íhuga tamoxifen sem hluta af meðferð þinni, láttu hann þá vita ef þú reykir eða hefur einhvern tíma fengið blóðtappa eða snert af heilablóðfalli. Sértu í meðferð með tamoxifeni hafðu þá tafarlaust samband við lækni þinn ef þú finnur fyrir eftirtöldum einkennum:
-
óeðlilegri blæðingu úr leggöngum eða útferð
-
verk eða þrýstingi á lífbein
-
bólgu í fótleggjum eða eymsli
-
brjóstverk
-
andþrengslum
-
máttleysi, smástungum eða doða í andliti, handlegg eða fæti
-
erfiðleikum með að tala eða skilja
-
skyndilegri sjóndepru
-
svima
-
skyndilegum mjög slæmum höfuðverk
Algengustu aukaverkanir tamoxifens eru:
-
vaxandi verkir frá æxlum og beinverkir
-
hitakóf
-
ógleði
-
þreyta
-
skapsveiflur
-
þunglyndi
-
höfuðverkur
-
hármissir
-
harðlífi
-
þurr húð
-
kyndeyfð
Hitakóf eða nætursviti af völdum tamoxifens geta verið bagaleg en bresk rannsókn sem gerð var árið 2008 bendir til að konur sem fundu fyrir hitakófum og nætursvita á þeim tíma sem þær tóku inn andhormónalyf áttu síður á hættu að brjóstakrabbameinið tæki sig upp (endurkoma) en aðrar. Vitandi að þessar aukaverkanir geta bent til þess að líkur minnka á að meinið taki sig upp gæti hjálpað sumum að halda sig við meðferðina þrátt fyrir aukaverkanir.
Til eru þær konur sem hafa kvartað yfir minnisleysi á meðan þær tóku lyfið. Engar áreiðanlegar niðurstöður hafa fengist hvað þetta varðar, en í gangi er rannsókn sem kallast Co-STAR (Cognition in the Study of Tamoxifen and Raloxifene) þar sem verið er að kanna áhrif tamoxifens og Evista® (efnafræðiheiti: raloxifene) sem einnig er SERM-lyf á minni fólks og hugarstarfsemi.
Hve lengi er tamoxifen tekið?
Sumar konur taka hugsanlega tamoxifen í 5 ár, aðrar taka það kannski í 2 eða 3 ár og skipta svo yfir í aromatase-hemla. Það fer eftir þínum sérstöku aðstæðum hvort læknir þinn mælir með að þú takir inn tamoxifen í lengri eða skemmri tíma.
*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.
ÞB