Hvernig virka óhefðbundnar meðferðir?

Óhefðbundnar meðferðir beinast að samspili hugar, líkama og hegðunar (atferlis).

Rannsóknir hafa sýnt að tilfinningaástand, hvort sem það er gott eða miður gott, hefur áhrif á hæfileika ónæmiskerfisins til að verjast sjúkdómum. Í rannsókn einni kom í ljós að fólk sem var undir meira álagi (meiri streitu) eða með neikvætt hugarfar, átti erfiðara með að verjast kvefveiru og varð veikara en þeir sem ekki voru undir jafn miklu álagi eða með jákvæðara hugarfari en hinir fyrrnefndu.

Þó nokkrar rannsóknir á fólki með mismunandi tegundir krabbameins benda til að óhefðbundnar meðferðir geti létt lundina, aukið lífsgæði og gert það auðveldara að ráða við aðstæður. Minna stress með þannig hjálp kann að auðvelda ónæmiskerfinu að starfa vel og gert það auðveldara að ráða við aukaverkanir af völdum krabbameinsmeðferðar.

Fólk sem leggur stund á hugleiðslu eða jóga eða fer í nálastungur  segir að bæði líkami þess OG hugur séu þátttakendur. Nýjar rannsóknir gera nú rannsakendum kleift að skilja samband hugar og líkama. Í einni þeirra sýndi sig að hugleiðsla tengdist bættri svörun ónæmiskerfis við bóluefni.

Vísindalegar rannsóknir á mörgum óhefðbundnum meðferðum eru tiltölulegar nýjar. Margar þeirra eru smáar í sniðum og sumar hafa ekki verið gerðir við þær aðstæður sem krafist er við læknisfræðilegar rannsóknir. En eftir því sem óhefðbundnar meðferðir verða vinsælli og þekktari, þeim mun fleiri rannsóknum er hleypt af stokkunum. Í þessari rannsóknarvinnu eru margar rannsóknir gerðar á miðstöð óhefðbundinna meðferða, National Institutes of Health National Center for Complementary and Alternative Medicine, sem er ein þeirra miðstöðva sem eru aðilar að Heilbrigðisstofnunum Bandaríkjanna, National Institutes of Health. Sérhver ný rannsókn bætir við þá þekkingu sem fyrir er.

Nýlegar klíniskar leiðbeiningar (2014) til að auðvelda fagfólki og sjúklingum að samþætta notkun óhefðbundinnar meðferðar samhliða hefðbundnum meðferðum brjóstakrabbameinssjúklinga má finna hér:   http://jncimono.oxfordjournals.org/content/2014/50/346.full


"Placebo"- eða lyfleysuáhrif

Að gera eitthvað sérstakt reglulega, hvort sem það er að taka inn töflu eða fara í nudd, getur gefið þér mikinn ábata —  svo framarlega sem þú trúir því að það sem þú gerir muni hjálpa þér. Þegar fólk tekur inn lyf, bætir það árangurinn þegar það trúir á mátt lyfsins. Í læknisfræðilegum tilraunum er fólki gefin lyfleysa (platpilla eða sykurpilla) án sinnar vitundar og því kann engu að síður að líða betur vegna þess að það trúir því að það sem það tekur inn hafi læknandi áhrif. Þetta eru svokölluð "placebo"- eða lyfleysuáhrif. *Orðið er skylt latnesku sögninni placare sem þýðir að friða.

Ábatinn verður vegna þess að hugurinn vill að aðferðin eða lyfið hjálpi. Í hvert sinn sem gripið er til hennar styrkist vonin um að hún hjálpi. Krafturinn sem felst í því að trúa á áhrifin framkallar áhrif lyfleysunnar.

Óhefðbundin meðferð kann að hjálpa jafnvel þótt hún geri ekki annað en framkalla þóknunarhrifin eða lyfleysuáhrifin. Með því að færa fólki jákvætt viðhorf geta óhefðbundnar meðferðir hugsanlega dregið úr streitu og hjálpað ónæmiskerfinu að starfa betur.

 

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB