Krabbameinslyfjameðferð
Með því að lyfin berast með blóðrásinni um allan líkamann hefur meðferð með krabbameinslyfjum áhrif á hann allan, ólíkt því sem gerist með staðbundnar meðferðir. Markmiðið með krabbameinslyfjameðferð og öðrum "kerfismeðferðum" er að eyða staðbundnum krabbameinsfrumum og þeim sem kunna að hafa sáð sér úr upprunalegu krabbameinsæxli í önnur líffæri eða líkamshluta.
Krabbameinslyf virka á krabbameinsfrumur vegna þess að þau eru þess eðlis að hafa einkum áhrif á þær frumur sem skipta sér ört. Aukaverkanir krabbameinslyfja stafa einmitt af því að krabbameinsfrumur eru ekki einu frumur líkamans sem skipta sér hratt. Frumur í blóði eða merg, frumur í slímhúð sem þekur m.a. munn og meltingarfæri, í nefi, nöglumi og hári eru sífellt að skipta sér. Þar af leiðandi hafa krabbameinslyf einnig áhrif á þær.
Nú til dags er meðferð með krabbameinslyfjum mun þolanlegri en hún var fyrir aðeins fáeinum árum. Fyrir margar konur er hún aðeins eins konar "trygging", eða fyrirbyggjandi aðgerð í því skyni að draga úr líkum á að krabbamein taki sig upp á ný. Mikilvægt er að hafa í huga að krabbameinslyf hafa sjaldnast nokkur áhrif á frumur sem ekki skipta sér ört, eins og þær sem er að finna í lifur og nýrum. Auk þess munu læknar og hjúkrunarfræðingar fylgjast náið með aukaverkunum og hafa einhver ráð við flestum þeirra þannig að unnt sé að bæta líðan þína.
Í þessum hluta verður fjallað meira um hvernig meðferð með krabbameinslyfjum virkar og um leiðir til að ráða við ógleði, hármissi og aðrar aukaverkanir meðferðarinnar.
Þú getur einnig lesið um mismunandi samsetningar krabbameinslyfja og hvernig þú getur ásamt krabbameinslækni þínum komist að niðurstöðum um hvaða lyf muni henta þér best.
Mikilvægt er að hafa í huga að sú meðferð sem hentar hverri konu best getur verið ólík því sem aðrar konur fá. Krabbameinslyfjameðferðin þín getur verið öðruvísi en annarra og er ákveðin út frá einstaklingsbundnum - og oft minna augljósum - einkennum brjóstakrabbameinsins. Þeirra á meðal eru atriði eins og hvort krabbamein hefur sáð sér í eitla, stærð æxlis, hvort svo kallaðir viðtakar séu til staðar í æxlisfrumum, t.d. hormónaviðtakar og vaxtaþáttaviðtakar, frumusérhæfing (gráðun) og fjöldi frumuskiptinga (S-fasi). Búðu þig undir að krabbameinslæknir þinn mæli með fleiri en einu krabbameinslyfi sem annað hvort er gefið ásamt öðrum lyfjum eða eitt í einu.
Íslensku þýðinguna lásu:
Helgi Sigurðsson, Prófessor í krabbameinslækningum við Landspítala-Háskólasjúkrahús.
Ásdís Kristjánsdóttir, hjúkrunarfræðingur á LSH, deild 11B (frá "Hvenær, hvernig, hvar?" til og með "Að takast á við aukaverkanir").
ÞB