Að fá krabbameinslyf - skref fyrir skref

Áður en meðferðin hefst

Þú hittir krabbameinslækni þinn yfirleitt bæði fyrir og eftir skurðaðgerð og þið munuð ræða saman eftir þörfum. Hann mun:

 • Fara yfir sjúkrasögu þína, skoða þig og fara yfir niðurstöður úr sýnum og rannsóknum.

 • Segja þér hvers konar meðferð hann vill ráðleggja.

 • Útskýra kosti og aukaverkanir þeirra meðferða sem hann mælir með.

 • Kanna hug þinn til meðferðar og leita eftir skoðun þinn um þá meðferð sem hann ráðleggur.

 • Setja niður tíma fyrir fyrstu lyfjagjöf og fræðslu hjá hjúkrunarfræðingnum sem mun gefa þér lyfin: Tímasetning fer eftir aðstæðum þínum.

 • Daginn fyrir lyfjagjöf mætir þú á LSH til þess að láta taka blóðsýni til þess að kanna m.a. blóðhag og gildi hvítra blóðkorna. *Þú gætir einnig komið snemma að morgni sama dags, en þá þarf að bíða eftir niðurstöðum og læknirinn að hafa tækifæri til að skoða þær.


Daginn sem þú færð lyfin í fyrsta sinn á dagdeild LSH

Þú byrjar á að:

 • Skrá þig inn í afgreiðslu göngudeildar krabbameins á LSH við Hringbraut. Þú ferð inn um aðaldyr, upp hallandi gangveginn til hægri og síðan inn gang til hægri. Afgreiðsla og biðstofa er á hægri hönd.

 • Þú hittir krabbameinslækni þinn sem skoðar þig, vegur þig og reiknar út þann lyfjaskammt sem er hæfilegur fyrir þig. Hann skrifar út s.k. lyfjafyrirmæli til hjúkrunarfræðings um lyf og skammta.

Síðan:

 • Ferð þú inn á dagdeild þar sem þú hittir hjúkrunarfræðinginn sem mun gefa þér lyfin og hún finnur handa þér rúm eða þægilegan stól.

 • Þegar þú ert mætt á staðinn eru send rafræn fyrirmæli til apóteks sjúkrahússins  *Eftir fyrstu lyfjagjafirnar má hugsanlega flýta fyrir með því að hringja og láta vita að þú ert á leiðinni og þá eru lyfin pöntuð svo framarlega sem blóðhagurinn er í lagi.

 • Blóðþrýstingur er tekinn og almenn líðan þín athuguð.

 • Hjúkrunarfræðingurinn þinn setur upp nál - yfirleitt í handarbak. Lyfin eru leidd úr pokum í gegnum slöngu og í nálina þaðan sem þau fara inn í blóðrásina. Sértu með lyfjabrunn er nálin sett í hann.

Að því loknu:

 • Krabbameinslyfin koma tilbúin úr apóteki spítalans. Það tekur a.m.k. klukkutíma að hafa þau til.  

 • Þú færð stundum stoðlyf á undan krabbameinslyfjunum — ýmist í töfluformi (um munn) eða í æð — til að koma í veg fyrir aukaverkanir svo sem ógleði, kvíða, bólgur eða hugsanleg ofnæmisviðbrögð.

 • Hugsanlega verður þér einnig gefinn vökvi í æð. Með ákveðnum tegundum krabbameinslyfja er þess krafist, einkum hafir þú ekki verið duglega að drekka. (Með sumum lyfjum, eins og cyclofosfamíði - Sendoxan® - þarf að hafa mikinn vökva í líkamanum til þess að tryggja að lyfin geri sitt gagn, ráðist gegn krabbameinsfrumum og skolist síðan hratt úr líkamanum með þvagi; sé lyfið lengi í líkamanum getur það ert blöðruna.)

 • Krabbameinslyfin koma úr apótekinu. Hjúkrunarfræðingurinn spyr þig um kennitölu og athugar hvort nafn lyfs og skammtur passar við beiðni læknisins áður en lyfjagjöfin fer af stað. 

Sjálf lyfjagjöfin:

 • Oftast eru krabbameinslyfin gefin um slöngu og þau látin dropa hægt og rólega í gegnum hana og nálina sem sett var upp. Það getur tekið nokkra klukkutíma að láta lyfin renna í gegn. *Þegar gefin eru fleiri en eitt lyf, er "skolað" á milli með því að láta saltvatnslausn dropa í æð.

 • Sumar samsetningar krabbameinslyfja eru gefnar bæði í æð og í pilluformi. Það á til dæmis við um CMF-lyfin. Methotrexate (MTX) og 5-fluorouracil (5-FU) eru gefin um æð og hið sama gildir um cyclofosfamíð hérlendis, en í Bandaríkjunum er cyclofosfamíð hins vegar tekið inn í pilluformi með stóru glasi af vatni. 

Að lokum:

 • Þegar lyf og saltvatn hefur verið látið dropa er nálin fjarlægð og hjúkrunarfræðingur gengur úr skugga um að lífsmörk séu eðlileg. 

 • Læknirinn hefur áður sagt þér hvaða aukaverkunum þú mátt búast við og hvernig þú getir ráðið við þær. *Yfirleitt hefur læknirinn þegar skrifað út lyfseðil og gott að vera búinn að sækja lyfin í apótek spítalans áður en sjálf lyfjagjöfin hefst.  Hafi það farist fyrir, skaltu láta vita þannig að þú hafir örugglega ógleðilyf við hendina eða annað sem þið læknir þinn kunnið að hafa komið ykkur saman um. Vertu opinská og óhrædd að spyrja.  

  

*Efni þessarar síðu hefur verið staðfært.. Málsgreinar merktar stjörnu eru innskot þýðanda eftir ábendingum lesara.

ÞB