Að takast á við aukaverkanir
Krabbameinslyf eru áhrifarík gegn krabbameinsfrumum vegna þess að þau virka fyrst og fremst á frumur sem skipta sér ört. Því er nú verr að krabbameinsfrumur eru ekki einu hraðvaxandi frumur líkamans. Aðrar frumur vaxa hratt, eins og frumur í blóði, merg, munni, meltingarvegi, nefi, nöglum, kynfærum og hári og skipta sér í sífellu. Það þýðir að krabbameinslyfin munu einnig hafa áhrif á þær.
Þessir hlutar líkamans hafa þó það framyfir krabbameinsfrumur að geta lagfært skaðann sem lyfin valda heilbrigðum frumum. Það skýrir hvers vegna hárið mun vaxa á ný, orkan aukast og sýkingar læknast. Meðan líkaminn berst gegn áhrifum krabbameinslyfja er unnt að gefa þér stoðlyf sem geta hjálpað þér að ráða við margar aukaverkanir krabbameinslyfjanna.
Sumar aukaverkanir hverfa fljótt, en aðrar hverfa ekki alveg fyrr en að mörgum mánuðum, jafnvel árum, liðnum. Sumar konur verða til dæmis varar við óþægindi í höndum og fótum af völdum taugaskaða sem stafar af taxane-lyfjunum (Taxol® eða Taxotere®) sem geta varað í marga mánuði. Það er mögulegt (þótt óvenjulegt sé) að krabbameinslyf valdi viðvarandi aukaverkunum sem ekki munu hverfa. Það er eitt af því sem þarf að hafa í huga þegar metnir eru kostir meðferðarinnar samanborið við áhættuna sem hún felur í sér og þú ferð yfir ásamt lækningateyminu.
Héru á eftir fara nokkrar alvarlegar aukaverkanir sem rétt er að þú vitir af og ræðir við krabbameinslækni þinn:
-
Krabbameinslyf geta valdið byrjandi beinþynningu. Konur sem komnar eru yfir tíðahvörf framleiða ekki nægilega mikið af hormónum til að beinin haldist sterk. Með tímanum getur beinmissir þróast yfir í beinþynningu sem eykur líkur á að þú getir hlotið alvarleg beinbrot. Sértu enn í barneign þegar lyfjameðferðin hefst kunna eggjastokkarnir að hætta að framleiða hormóna og það getur ógnað heilbrigði beinanna. Lyfjasamsetningin CMF er líklegri til að koma í veg fyrir að eggjastokkarnir framleiði hormóna en meðferð með Adriamycin®.
-
Taxane-lyfið paclitaxel (Taxol®) getur framkallað meiri óþægindi í höndum og fótum af völdum taugaskemmda en taxane-lyfið docetaxol (Taxotere®). Áhrifin geta verið tímabundin eða varanleg. Læknir þinn talar ef til vill um taugakvilla í þessu sambandi.
-
Taxotere® á það til að erta tárakirtla og valda offramleiðslu á tárum. Verði vandinn viðvarandi eða truflar þig, er yfirleitt hægt að laga hann með því að koma fyrir örsmáum rörum í táragöngum.
-
Doxorubicin, Adriamycin®, getur haft eitrunaráhrif á hjartað; læknir þinn mun gera það sem í hans valdi stendur til að minnka áhættuna með því að halda lyfjaskammtinum innan öruggra marka. Lestu grein (á ensku) um önnur krabbameinslyf sem kunna að gagnast betur konum með krabbamein á fyrstu stigum.
-
Í örfáum tilfellum getur cýklófosfamíð (Sendoxan®) valdið hvítblæði, sem er krabbamein í blóðfrumum.
Ómögulegt er að telja upp allar aukaverkanir hvers einstaks lyfs. Upplifun þín af ákveðnu lyfi ræðst að miklu leyti af því sem þú hefur þegar farið í gegnum og hvaða önnur lyf þú ert hugsanlega að taka á sama tíma. Þú og læknir þinn eruð einu manneskjurnar sem geta ákveðið hvort það gagn sem búist er við að krabbameinslyfin geri þér vegi þyngra en þau vandamál sem þú upplifir. Læknir þinn er einnig sá sem getur gefið þér raunsæjustu hugmyndina um við hverju þú mátt búast.
Hér á eftir er fjallað lítillega um algengustu aukaverkanir krabbameinslyfja og jafnframt nefnd þau stoðlyf og breytingar á lifnaðarháttum sem geta hjálpað þér að ráða við þær.
ÞB