Breytingar á þef- og bragðskyni

Krabbameinslyf geta valdið breytingum á þef- og bragðskyni. Þér getur þótt matur beiskur eða þrár og þú getur fengið ógeð á ákveðnum mat. Margar konur fullyrða að það sé málmbragð af matnum. Þetta gerist vegna þess að krabbameinslyfin breyta viðtakafrumum í munninum sem segja heilanum hvaða bragð er af því sem þú ert með uppi í þér eða lykt af því sem þú berð að vitunum. Þessi einkenni verða viðvarandi á meðan þú ert í meðferðinni. Bragð- og þefskyn ætti að verða eðlilegt að nokkrum vikum liðnum frá því að lyfjagjöf var hætt.

  • Lyf: Það eru engin lyf til við þessu tímabundna ástandi. Hins vegar geta læknar skrifað upp á lyf sem auka matarlyst, hafi meðferðin tekið frá þér lystina. Þó að sumar konur léttist meðan á meðferðinni stendur, eru mjög margar sem segjast hafa þyngst. Þyngdaraukning getur stafað af nýju stoðlyfjunum sem eiga að minnka aukaverkanir ekkert síður en því að þú borðar meira og hreyfir þig minna. Mikilvægt er að þú reynir að viðhalda þinni eðlilegu þyngd meðan á þessu stendur.

  • Lifnaðarhættir: Þú skalt forðast að borða þann mat sem þér finnst bestur í einn, tvo daga eftir að þú færð lyfin, að minnsta kosti ekki fyrr en þú veist hvort matarógeð fylgir lyfjagjöfinni. Fáir þú ógeð á mat sem þú borðar venjulega með bestu lyst til að fá eggjahvítuefni svo sem kjöt, fisk, egg eða fuglakjöt, reyndu þá að setja í staðinn aðrar góðar uppsprettur prótíns, svo sem kotasælu, hnetusmjör og tófú.


Krabbameinslyf geta einnig haft áhrif á maga og meltingarveg og þér getur þá fundist þú vera "að springa" eftir fáeina matarbita. Reyndu að borða hægt og borðaðu oft og lítið í senn í stað þriggja máltíða á dag. Forðastu feitan, steiktan eða fitugan mat og sömuleiðis grænmetti sem veldur vindgangi eins og brokkolíkál, rósakál, agúrku og grænar papríkur.

ÞB