Minnisleysi


"Minni mitt er ekki eins gott og það var fyrir lyfjameðferðina," segir Karen.

Karen er 48 ára krabbameinskempa. Þegar hún var spurð hvort hún væri tilbúin að fara aftur í meðferð með krabbameinslyfjum svaraði hún því játandi en bætti við: "Ég held að það hefði breytt heilmiklu fyrir mig að vita að "lyfjaþoka" er raunverulegt fyrirbæri sem truflar tilveruna ekkert síður en að missa hárið."

Fleiri konur en Karen hafa kvartað yfir því við lækna sína að þær upplifi einhvers konar minnisleysi - finnist þær vera´"óskýrar í kollinum", eins og þær séu með "bómull í hausnum" og finnist þær ekki geta einbeitt sér á sama hátt og áður meðan á meðferði með krabbameinslyfjunum stendur og fyrst á eftir.

Karen gat til dæmis átt það til að greiða reikninga og gleyma síðan að hún hefði greitt þá; boðið þremur fjölskyldum í sumarbústaðinn - en aðeins munað eftir að hafa boðið einni; pantað ólívur þegar hún fór út að borða - en ekki munað eftir því tíu mínútum seinna þegar komið var með þær.

"Mig vantar ennþá heilu kaflana þó að meðferðinni sé lokið," segir Karen sem hélt áfram í fullu starfi sem fyrirtækisráðgjafi á meðan á meðferðinni stóð og þurfti að vera á sífelldum ferðalögum. "Fólk skilur þetta ekki. Ég þarf alltaf að vera að biðjast afsökunar og útskýra að minni mitt sé ekki alveg í lagi."

Nú er farið að taka konur eins og Karen alvarlega. Nokkrar nýlegar rannsóknir sýna að krabbameinslyfjum getur hugsanlega fylgt vægt minnisleysi .

Mikilvægt er samt að hafa í huga að ýmis önnur atriði geta haft áhrif á minni kvenna og hæfileika þeirra til að hugsa skýrt — atriði sem kunna að raskast töluvert við það að þær fara í meðferð við brjóstakrabbameini.

Til dæmis geta eftirtalin atriði skert hæfileikann til að hugsa skýrt, muna og einbeita sér:

  • Svefntruflanir. Konur sem eru í meðferð við brjóstakrabbameini sofa ekki aðeins skemur en aðrar heldur er svefn þeirra oft slæmur. Kvíði og tilfinningar óvissu og ótta geta valdið því að margar konur missa svefn. Það er staðreynd að ótti við brjóstakrabbameinið getur haldið konum vakandi að næturlagi.

  • Daglegt líf raskast. Að þurfa að einbeita sér að greiningu á brjóstakrabbameini og meðferð og bata í framhaldi af því truflar daglegt líf allra. Öryggið sem felst í daglegum venjum og athöfnum hverfur við raskið og það getur aukið á tilfinningu konunnar af streitu, þreytu og kvíða.

  • Breyting á hormónastarfsemi. Margar ástæður, þar á meðal breyting á hormónastarfsemi, kunna að finnast fyrir því að þú ert döpur, þreytt og niðurdregin. Þegar hormónabúskapurinn minnkar til muna kann meðferðin að hafa í för með sér fyrirvaralaus tíðahvörf mörgum árum fyrr en eðlilegt væri og þú reiknaðir með. Það getur valdið því að þú ert "langt niðri". Hugsanlega færðu einnig hitakóf sem trufla svefninn. Þetta getur hæglega truflað getu þína til að einbeita þér og muna hluti. 

  • Streita, kvíði og depurð. Sérhvert stig í því að fá brjóstakrabbamein — greining, meðferð og bati —hefur í för með sér svo og svo mikla streitu, kvíða og tilfinningu þess að hafa ekki lengur stjórn á tilverunni. Að lifa með ótta við að sjúkdómurinn taki sig upp  getur einnig hvílt þungt á konum. Stöðugt álag sem fylgir þessum flóknu tilfinningum getur farið illa með getuna til að hugsa skýrt og einbeita sér.

  • Önnur lyf: Sterar, móthormónalyf (and-estrógenlyf), þunglyndislyf, svefnlyf og verkjalyf get öll dregið úr einbeitingu.

Samkvæmt nýlegri frumrannsókn virðast krabbameinslyf geta dregið úr hæfileika kvenna til að einbeita sér, hugsa skýrt og muna atburði og smáatriði daglegs lífs. Rannsóknin sem kom umræðunni af stað var kynnt árið 2000 í júlíhefti tímaritsins Journal of Clinical Oncology. Hún var gerð af krabbameinsdeild sjúkrahússins Princess Margaret Hospital í Toronto í Kanada í samvinnu við Háskólann í Toronto. Hún náði til:

  • 31 brjóstakrabbameinssjúklings sem fengu venjulegan skammt af krabbameinslyfjum í forvarnarskyni að lokinni skurðaðgerð. Sumar konurnar fengu CMF (cyclophosphamide, methotrexate og fluorouracil) en aðrar fengu CEF (cyclophosphamide, epirubicin og fluorouracil), ýmist með eða án tamoxifen.

  • 40 kvenna sem höfðu lokið meðferð með krabbameinslyfjum að jafnaði tveimur árum fyrr.

  • 36 kvenna sem aldrei höfðu greinst með brjóstakrabbamein eða fengið krabbameinslyf.

Fyrir allar konurnar voru lögð próf til að mæla hvers kyns frávik smá og stór í minni, beitingu máls, athygli og einbeitingu, sjón- og hreyfigetu og skipulagningu. Niðurstaðan varð þessi:

  • Helmingur allra kvennanna sem fengu krabbameinslyf á rannsóknartímanum eða höfðu lokið við meðferð með krabbameinslyfjum sýndu vægar truflanir í hugarstarfi og minni. Nánar tiltekið sýndu 15 af 31 konu sem voru í meðferð með krabbameinslyfjum og 20 af þeim 40 sem höfðu lokið við hana, skert minni og hugarstarfsemi. Konurnar sem voru í meðferð þegar á rannsókninni stóð áttu við marktækt meiri minnisvanda að glíma  en þær sem höfðu lokið meðferð.

  • Aftur á móti áttu aðeins 4 af 36 konum sem ekki höfðu greinst með brjóstakrabbamein eða gengist undir meðferð með krabbameinslyfjum við minnis- eða einbeitingarvanda að stríða. (Þær voru ennfremur lausar við álagið sem fylgir því að greinast með brjóstakrabbamein.) 


Lagast minnið og önnur hugarstarfsemi með tímanum? Toronto rannsóknin virðist sýna að minnistap lagast þegar fram líða stundir. Minnisglöp voru ekki eins alvarleg hjá konunum sem höfðu lokið meðferð tveimur árum fyrr og hjá hinum sem voru enn í meðferð. 

Í niðurstöðum nýlegrar rannsóknar sem gerð var í Texas er hins vegar dregið í efa að krabbameinslyfjum sé fyrst og fremst um að kenna þegar konur finna fyrir "lyfjaþoku". Sú rannsókn var gerð árið 2004 og náði til kvenna sem fóru í skurðsýnistöku, fleygskurð eða brjóstnám áður en þær hófu meðferð með krabbameinslyfjum. Litið var til annarra mögulegra þátta svo sem tíðahvarfa, kvíða og depurðar og þess hvort konur hefðu tekið inn hormóna meðan á breytingaskeiði stóð.

Niðurstöðurnar voru ekki tölfræðilega marktækar og það þýðir að þær kunna að hafa ráðist af tilviljun. Þær sýndu hins vegar að minni og hugarstarf getur orðið fyrir áhrifum að tilfinningalegu álagi, tíðahvörfum og því í hvers konar skurðaðgerð konur fóru. Það átti ekkert síður við um konur sem ekki voru byrjaðar í meðferð með krabbameinslyfjum.

Á ársfundi félags amerískra krabbameinslækna 2007 (American Society of Clinical Oncology) var kynnt lítil rannsókn sem sýndi að konur sem tóku inn Provigil® (efnafræðiheiti: modafinil) í 8 vikur eftir krabbameinslyfjameðferð við brjóstakrabbameini sögðu að minni þeirra og einbeiting hefði verið meiri en áður en þær byrjuðu að taka lyfið. Þar sem rannsóknin náði til mjög fárra kvenna (68 talsins) þarf rannsóknir með þáttöku fleiri kvenna til að staðfesta þessar niðurstöður. Eldri rannsókn sem gerð var af sömu rannsakendum sýndi að konur sem fóru í meðferð með krabbameinslyfjum við brjóstakrabbameini og tóku inn provigil fundu fyrir minni þreytu en þær sem ekki tóku inn lyfið. Þetta virðist lofa góðu, en sem stendur hefur provigil aðeins verið samþykkt sem lyf við ákveðnum tegundum sveftruflana (eins og skyndimóki, e. narcolepsy). Ekki er heimilt að nota Provigil® við þreytu, minnisleysi eða einbeitingarskorti hjá fólki sem gengst undir meðferð með krabbameinslyfjum.

Mörgum spurningum um minnisleysi og krabbameinslyf er ósvarað. Eftir því sem þessi þáttur verður kannaður betur vonast læknar til að öðlast þekkingu á því hvaða krabbameinslyf, hvaða skammtar og hvaða lengd meðferðar kunna að valda minnisleysi og skertri hugarorku. 

 ÞB