Ógleði, uppköst og niðurgangur


Sumir finna aldrei fyrir ógleði og kasta aldrei upp. Öðrum er óglatt upp á hvern einasta dag á meðan á meðferðinni stendur. Sumir lýsa því þannig að þeir viti alltaf af maganum og langi ekki til að borða en er samt ekki óglatt. Sumir finna til ógleði í viku eða meira eftir að lyfin eru gefin. Sem betur fer er yfirleitt alltaf hægt að ráða við þessar aukaverkanir eða minnka þær til mikilla muna, ýmist með lyfjum af ýmsu tagi eða með breyttu mataræði.

Ógleði veldur flestum áhyggjum og áhyggjurnar geta aukið á ógleðina. Til dæmis geta áhyggjur og kvíði tengdur fyrstu lyfjagjöfinni gert hana erfiðari en þær sem á eftir koma. Sömu tilfinningalegu þættir og geta valdið ógleði eða niðurgangi áður en þú ferð í einhverja rannsókn eða hittir lækni geta einnig valdið ógleði áður en þú færð lyfin. Auk þess getur kvíði valdið meltingartruflunum og brjóstsviða sem ekki er til að bæta ástandið.

Vertu vakandi fyrir öðru sem gæti stuðlað að ógleði eins og hægðateppu eða langvarandi hósta (af völdum bronkítis eða af slæmu kvefi). Stundum fylgir ógleði töku verkjalyfja.

Mikilvægt er að átta sig á ógleði og þeim þáttum sem geta haft áhrif á hana áður en meðferð með krabbameinslyfjum hefst. Með því að fá upplýsingar og vinna náið með lækningateyminu þínu geturðu hugsanlega alveg komist hjá því að finna fyrir ógleði.

Ein leiðin til að undirbúa sig er að fá lyfseðil fyrir ógleðilyfi eða -lyfjum áður en meðferðin hefst. *Yfirleitt á læknirinn frumkvæði að því, en ef ekki, skalt þú biðja um það. Þá hefurðu lyfin við höndina ef þú skyldir þurfa á þeim að halda strax eftir meðferð og þarft ekki að byrja á að fara í apótekið á spítalanum. Oftast eru samt gefin ógleðilyf á undan krabbameinslyfjunum, ýmist í æð eða sem pilla, sem duga í einhverja klukkutíma. Fyrir stoðlyf vegna meðferðar með krabbameinslyfjum þarf yfirleitt ekki að greiða í apóteki LSH.

Væg ógleði

Við vægri ógleði hjálpar það sumum að anda að sér skorinni engiferrót. Engiferöl er ágætur drykkur við ógleði *og bestur er sá sem fæst í heilsuhúsunum. Þér gæti samt alveg dugað að skera sundur engiferrót og bera sárið upp að nösunum. Ef heilsan leyfir er líka fátt betra við ógleði en útivist og hreyfing í hreinu lofti.

Til eru þær sem finnst það gagna sér að vera með sjóveikiband eins og þau sem fást í apótekum og eru notuð til að koma í veg fyrir sjóveiki eða flugveiki. Lestu leiðbeiningarnar vel og að þú setjir bandið örugglega á réttan stað (rétt ofan við úlnliðinn).

Bæta má úr ógleði eða velgju sem stafar af áhyggjum með hvort heldur er lyfjum eða öðrum ráðum, svo sem með beitingu hugarins. Myndsköpun og hugleiðsla hafa reynst sérstaklega vel.

Nálastungur geta einnig gefist vel og linað ógleði. Fylgst var með konum sem fengur stóra krabbameinslyfjaskammta fyrir beinmergsflutning og í þeirri könnun reyndust nálastungur vel. Þær sem fengu nálastungumeðferð með rafstraumi (þá er stálnálum komið fyrir á réttum stöðum vægum rafstraumi veitt í gegn til örvunar) létti mun meira af ógleðinni en þær sem fóru í nálastungumeðferð án rafstraums eða slepptu því alveg að fá nálastungumeðferð.

Kvíðastillandi lyf eins og Ativan® (efnafræðiheiti: lorazepam ) getur gagnast vel. Sýruminnkandi lyf eins og Pepsid® og Reglan® (efnafræðiheiti: metodopramide) og Nexium® geta lagað brjóstsviða og meltingartruflanir.

Það getur dregið úr ógleðinni að drekka nógu mikið vatn. Miðaðu við að drekka sex til átta glös af vökva á dag. Forðastu að borða feitan mat, stórar máltíðir, kryddaða fæðu og sýrumikla fæðu eins og tómata, sítrónur og appelsínur. Haltu þig við bragðminni fæðu - banana, hrísgrjón, ósæta eplasósu, ristað braut og kartöflur (ekki steiktar).

Lyf sem gefin eru við vægri eða miðlungs ógleði eru til dæmis Torecan® (efnafræðiheiti: thiethylperazine), Phenegan® (efnafræðiheiti: prochlorperazine) og Vistaril® (efnafræðiheiti: hydroxyzine). Sé þér of óglatt til að koma niður eða halda niðri pillu er hægt að fá prochlorperazine í stíl sem stungið er í endaþarm.

 

Miðlungs og mikil ógleði


Finnur þú fyrir miðlungsmikilli eða mikilli ógleði mun þér líða til muna betur ef þú tekur inn ógleðilyf reglulega allan sólarhringinn - ekki bara þegar þér finnst þú þurfa þess. Þetta er sérlega mikilvægt fyrstu þrjá dagana eftir lyfjagjöf.

Ondansetron hydrochloride (tegundarheiti: Zofron®) er gott lyf til að byrja með. Það er sérlega gott við ógleði af völdum krabbameinslyfjanna cisplatin og cyclophosphamide. Læknir þinn mun aö öllum líkindum gefa fyrirmæli um að þú fáir lyfið í æð áður en krabbameinslyfn eru gefin. Síðan tekurðu inn töflu á tólf tíma fresti *(næstu þrjá sólarhringa).

Eigirðu erfitt með að halda lyfinu niðri geturðu notað lyf sem leysist hratt upp á tungunni. Verði þér óglatt á milli þess sem þú tekur inn Zofran®, geturðu tekið inn annað ógleðilyf, eins og t.d. Torecan®. Takist þér ekki að halda lyfinu niðri geturðu reynt prochlorperazine (Phenegan®) í endaþarmsstíl. Ativan® er einnig ágætt lyf ásamt hefðbundnari ógleðilyfjum þegar um mikla ógleði er að ræða.

Kytril® (efnafræðiheiti: granisetron HCI) og Anzemet®(efnafræðiheiti: dolasetron mesylate) koma að sömu notum og zofran. Kytril® er tekið í pilluformi einu sinni eða tvisvar á dag. Anzemet® er tekið einu sinni á dag. Bæði lyfin má gefa í æð.

Þegar um mikla ógleði er að ræða getur læknir gefið stera eins og til dæmis Decadron® (efnafræðiheiti: dexamethasone) ásamt ógleðilyfjunum. *Yfirleitt eru sterar gefnir í æð á undan fyrstu gjöf með krabbameinslyfjum og því jafnvel haldið áfram sé þess þörf. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af langtímaverkunum steranotkunar þótt þú takir þá inn ásamt ógleðilyfjunum í fáeina daga.

Til að draga úr mikilli ógleði eða koma alveg í veg fyrir hana er stundum gripið til þess ráðs á öðrum eða þriðja degi eftir krabbameinslyfjagjöf að gefa vökva í æð.

Þegar liðnir eru þrír dagar frá því að þú fékkst krabbameinslyfin er yfirleitt hætt að taka inn ógleðilyf allan sólarhringinn. Þess í stað nægir að taka inn ógleðilyfið eftir þörfum og nánari fyrirmælum læknisins.

Farir þú að fá ógleðiköst eftir að þrír sólarhringar eru liðnir frá því að þú fékkst krabbameinslyfin og þú ert enn að taka inn ógleðilyf, skaltu láta lækninn þinn vita. Á suma hætta lyfin að virka eftir að þau hafa verið tekin inn í nokkra daga.

Sum ógleðilyf geta gert fólk syfjað eða dregið úr viðbragðsflýti. Hafir þú til dæmis tekið inn Ativan®, ættirðu ekki að aka bíl fyrr en áhrif lyfsins eru horfin (sem getur tekið frá átt upp í tíu klukkustundir). Ekkert þessara lyfja má nota fyrir eða eftir neyslu áfengis.

Afla má ýtarlegri upplýsinga um ógleðilyf á ensku inni á vefsetri bandarísku stofnunarinnar National Comprehensive Cancer Network (NCCN).

 

Niðurgangur


Krabbameinslyf geta haft áhrif á alla hluta líkamans. Maginn getur komist í uppnám og valdið því að þú finnur til ógleði eða velgju, en þú getur líka fundið fyrir krampa og fengið niðurgang.

Niðurgangur er ein aukaverkun krabbameinslyfja. Fáirðu niðurgang sem varir lengur en í einn sólarhring eða finnur fyrir verkjum og krampa skaltu tala við lækninn þinn. Breytingar á mataræði kunna að hjálpa. Borðaðu minni skammta. Forðastu trefjaríka fæðu í bili, svo og kaffi, te og feitan og mikið kryddaðan mat. Drekktu mikinn vökva. Læknir þinn getur ávísað á lyf handa þér ef niðurgangurinn er mjög slæmur.

 

*Málsgreinar merktar stjörnu eru innskot þýðanda .

ÞB