Áður en meðferðin hefst


Líf þitt með gleði og stórum og smáum vandamálum heldur áfram án tillits til þess að þú ert í meðferð með krabbameinslyfjum. Það getur því reynst heillaráð að ganga frá nokkrum atriðum áður en þú byrjar í meðferðinni.

  • Farðu til tannlæknis og láttu skoða tennurnar, hreinsa og gera við, sé þess þörf. Hætta á sýkingum er meiri meðan á krabbameinslyfjameðferð stendur þannig að best er að ljúka tannhirðumálum af áður en hún hefst. Vilji læknir þinn að þú farir í hjartarannsókn (og fáir t.d. hjartaómmynd), skaltu einnig ljúka því af.  

  • Athugaðu hvort krabbameinslæknir þinn telur ráðlegt að þú farir í leghálskrabbameinsskoðun áður en þú ferð að fá krabbameinslyfin.  

  • Með örfáum undantekningum missir fólk hárið sem fer í meðferð með krabbameinslyfjum. Sum lyf valda því að hárið dettur bara sums staðar af, önnur að allt líkamshár dettur af. Til að búa þig undir að missa hárið getur verið gott að lesa um hárkollur, túrbana, hatta og klúta eða að vera bara hárlaus í kaflanum um Hár, húð og neglur.

  • Athugaðu hvort þú getur, ef á þarf að halda, fengið aðstoð við húsverk, innkaup og annað sem gæti verið gott fyrir þig að losna við um tíma. Misjafnt er hve mikla aðstoð er sótt um og hve mikla hjálp er hægt að fá með þessu móti. Það fer allt eftir aðstæðum. Því er gott að eiga vísa aðstoð vina og vandamanna.

  • Talaðu við fjölskyldu þína og vini og hjálpaðu þeim að búa sig undir að þú ert að fara í krabbameinslyfjameðferð.

  • Finndu stuðningshóp. Hjúkrunarfræðingurinn þinn getur veitt þér upplýsingar og á veggjum göngudeildar hanga uppi auglýsingar. Á spjallsíðu brjostakrabbamein.is geturðu fundið aðra sem eru að fást við sömu vandamál og þú. Sýnt hefur verið fram á að það að fá stuðning, hvort heldur þú hittir fólk eða ferð á netið, eykur lífsgæði og getur dregið úr kvíða og depurð. 

  • Farðu yfir það með lækni þínum eða hjúkrunarfræðingi hvað heppilegast er fyrir þig að borða og drekka daginn sem þú færð lyfin. Sum lyf eru þannig að þetta skiptir máli, önnur ekki.

  • Gerðu eitthvað sem þú hefur ætlað þér að gera lengi en alltaf frestað, hvort sem það er að fara í bíó, út að borða eða bara að fara ein í göngutúr með börnunum.

 ÞB