Að taka ákvörðun
Það fer hrollur um flesta við það eitt að heyra minnst á krabbameinslyfjameðferð. Upp í hugann koma samstundis myndir af margra mánaða uppköstum, lamandi þreytu, sýkingarhættu og, ekki síst, hármissi. Gert er ráð fyrir að haft sé samráð við þig og á meðan þú situr hjá lækninum til að ræða kostina í stöðunni færðu ef til vill að heyra alls kyns stafarunur sem tákna mismunandi meðferðir og samsetningar krabbameinslyfja sem taka þarf afstöðu til - AC, EC og T, CEF, CMF, CAF, FAC, TAC, CVAP— og fleiri. Það getur verið ruglandi að eiga svo margra kosta völ. Til viðbótar koma upp í hugann spurningar um aukaverkanir sem fylgja hverjum kosti.
Þrennt er mikilvægt að hafa í huga:
Skammstafirnar sem um er að velja eru alls ekki jafn yfirþyrmandi þegar þú færð tækifæri til að ræða þær við lækni þinn út frá einkennum krabbameinsins sem þú ert með og þeirri meðferð sem talin verður vænlegust fyrir þig. Með því að nota mismunandi krabbameinslyf - ein og sér eða með öðrum - hefur læknum tekist að setja saman áhrifaríkar meðferðaráætlanir þar sem lengd meðferðar og skammtar eru mismunandi. Stórar klínískar rannsóknar, með þáttöku þúsunda kvenna, hefur gert læknum kleift að fága krabbameinslyfjameðferðir þannig að gagnsemi þeirra sé sem mest og aukaverkanirnar sem minnstar.
Að undanskildum hármissi er nú orðið hægt að ráða við skammtímaáhrif krabbameinslyfja með stoðlyfjum og breyttum lifnaðarháttum sem draga úr ógleði, þreytu og sýkingarhættu.
Ekki hafna krabbameinslyfjameðferð vegna þess að þér finnst þú vera orðin gömul. Fullorðnar og aldraðar konur við tiltölulega góða heilsu geta lifað vel og lengi og haft mikið gagn af krabbameinslyfjameðferð á sama hátt og yngri konur. Aukaverkanir krabbameinslyfjameðferðar eru yfirleitt ekki erfiðari eldri konum en þeim sem yngri eru og hægt að létta áhrif þeirra meið lyfjum, endurnærandi hreyfingu, hvíld og mataræði.
Í þessum hluta verður fjallað um krabbameinslyfjameðferð sem "stoðmeðferð", viðbótarmeðferð eða fyrirbyggjandi meðferð. Henni má líkja við það að fá sér viðbótartryggingu eftir skurðaðgerð - fyrir konur með sjúkdóminn á fyrstu stigum brjóstakrabbameins. Það sem hér fer á eftir á ekki við um beitingu krabbameinslyfjameðferðar til að vinna á dreifðu krabbameini - brjóstakrabbameini sem hefur sáð sér út fyrir brjóst og aðliggjandi eitla til annarra hluta líkamans.
ÞB