Heppilegasta lyfjablandan fyrir þig

  • Ræðst á allar þær mismunandi tegundir frumna sem er að finna í brjóstakrabbameininu sem þú ert með,

  • er sett saman úr lyfjum sem bæta hvert annað upp með það að markmiði að fá meiri virkni og minni aukaverkanir.

  • verkar á nægilega flókinn hátt til að krabbameinsfrumur nái ekki að "átta sig" á henni og sjá við henni,

  • hefur aukaverkanir sem eru ekki meiri en svo að þú getur sætt þig við þær.

Þegar vandlega hefur verið farið yfir einkenni krabbameinsins og heilsufarssögu þínu, ákveðið þið saman, þú og læknir þinn, hvaða lyf sé rétt að þú fáir, skammtastærðir og lengd meðferðar. Vertu viss um að áhættuþættir/gagnsemi sé í samræmi við óskir þínar.

Hugsanlega velur krabbameinslæknir þinn viðurkennda og margreynda samsetningu lyfja þar sem svörun mælist á bilinu 35-60%. Meðal þeirra eru AC, CMF, CAF, FAC, eða AT (AT þýðir sex gjafir af A fyrir Adriamycin® ásamt T sem er annað hvort taxan-lyfið, Taxotere® eða Taxol®). Einnig kann krabbameinslæknir þinn að velja eitt ákveðið lyf, eins og Adriamycin® eða annaðhvort Taxotere® eða Taxol® (þar sem svörun er á bilinu 30-60%). Aðrar samsetningar eru einnig mikið notaðar og einhver þeirra gæti reynst sú sem er heppilegust fyrir þig.

Fyrir konur með brjóstakrabbamein sem hefur sáð sér til eitla er algeng meðferð að gefa fjórum sinnum AC, og síðan fjórum sinnum Taxol® eða Taxotere®. Lestu meira (á ensku) um mismunandi samsetningar krabbameinslyfja. Hjá konum með langt gengið krabbamein hefur líftíminn lengst meira með taxotere en taxol, en lyfinu fylgja meiri aukaverkanir. Lestu áfram og fáðu að vita meira um krabbameinslyf.

*Í eftirfarandi málsgrein er lýst krabbameinslyfi sem ekki hefur verið samþykkt og skráð til notkunar hérlendis: Nýtt krabbameinslyf sem kallast Abraxane (grein á ensku) inniheldur paclitaxel, sama virka efnið og er að finna í taxoli. Abraxane er búið til á prótínbasa í stað fjöloxýl laxerolíu-basa eins og taxol. Úrefni laxerolíunnar (cremophor) getur valdið alvarlegum ofnæmisviðgrögðum. Konur með dreift krabbamein (meinvörp) virðast eiga auðveldara með að þola abraxane og ekki þarf að gefa þeim stera áður en þær fá abraxane eins og þarf að gera þegar taxol er gefið.

Áður voru notaðir stórir skammtar af krabbameinslyfjum og beinmergsflutningur til að berjast við ágengustu tegundir brjóstakrabbameins. Síðan kom í ljós í tveimur umfangsmiklum rannsóknum að þessar meðferðarleiðir virtust engu breyta í sambandi við það hve lengi einhver lifði. Þar við bætist að stórir skammtar af krabbameinslyfjum ásamt beinmergsflutningi eru taldir tengjast alvarlegum og lífshættulegum aukaverkunum samanborið við venjulega skammta krabbameinslyfja.  

 

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

 ÞB