Að taka við upplýsingum

Í stuttu máli

Athugaðu útgáfutímann! Krabbameinslyf, viðurkennd meðferð, meðhöndlun aukaverkana, allt getur þetta breyst frá einu ári til annars. Vertu því viss um að það sem þú lest hverju sinni sé það nýjasta, hvort sem það eru bækur, tímarit, vefsíður eða tímaritagreinar um meðferð við brjóstakrabbameini.

Reyndu ekki að skrifa hjá þér allt sem læknirinn segir á fyrsta fundi ykkar um meðferð með krabbameinslyfjum. Upplýsingarnar eru einfaldlega of miklar. Aftur á móti gætirðu til dæmis:

  • Tekið með þér upptökutæki og hljóðritað samtal ykkar.

  • Beðið maka, vin eða ættingja að vera viðstaddan og hlusta á það sem sagt er. Þú getur jafnvel beðið viðkomandi um að skrifa hjá sér atriði til minnis.

  • Beðið lækninn um skriflegar upplýsingar til að hafa með þér heim. Margir krabbameinslæknar hafa tilbúnar hjá sér upplýsingar um krabbameinslyf og meðferðir.

  • Vertu óhrædd við að spyrja spurninga um krabbameinslyfin og meðferðina. Hikaðu ekki við að segja "ég skil ekki" þegar þú skilur ekki eitthvað.

  • Fáðu símanúmer sem þú getur hringt í til að fá upplýsingar annaðhvort hjá lækni þínum eða hjúkrunarfræðingi ef á þér brenna spurningar sem þú þarft að fá svar við. Hikaðu ekki við að hringja.

Spurningar handa lækninum

Áður en þú samþykkir krabbameinslyfjameðferð gætirðu viljað fá svar við eftirfarandi spurningum:

  • Hvers vegna mælir þú með krabbameinslyfjameðferð?

  • Hvaða líkur eru á að lyfin muni koma mér að umtalsverðu gagni umfram það sem þegar hefur verið gert? Er líklegt að meðferðin lengi líf mitt? Dregur hún úr hættu á að sjúkdómurinn taki sig upp?

  • Hvaða ákveðna lyf eða lyfjablanda er heppilegust fyrir mig. Hverjir eru kostir og gallar því samfara?

  • Hvaða meðferðarleiðir aðrar eru mögulegar fyrir mig?

  • Eru einhverjar klínískar rannsóknir í gangi sem ég gæti hugsanlega haft gagn af?

Láttu það ekki trufla þig þótt læknirinn geti ekki alltaf gefið þér afdráttarlaus svör. Oft er afdráttarlaust svar ekki að hafa og ekki til. Læknir þinn ætti hins vegar hvenær sem að geta rætt við þig um kosti og galla sérhverrar meðferðar sem hefur áhrif á allan líkamann og leiðbeint þér þannig að þið getið í sameiningu tekið þá ákvörðun sem er best fyrir þig.

Bjóði læknirinn þér meðferð með krabbameinslyfjum sem eins konar VAL fremur en eitthvað sem hann mælir sterklega með, gakktu þá úr skugga um að þú skiljir hve mikið meðferðin getur hugsanlega dregið úr líkum á sjúkdómnum. Þegar svona stendur á er í góðu lagi að fylgja því sem "innsæið" segir þér.


Óttinn við krabbameinslyfjameðferð færður í orð


"Hvað er það sem konur óttast mest við krabbameinslyfjameðferð? Það er mismunandi. Hjá sumum er það óttinn við ófrjósemi, hjá sumum yfirskyggir óttinn við hármissi allt annað. Sumar óttast það að vera sífellt óglatt, ælandi eða þreyttar. Stundum er það einfaldlega óttinn við dauðann. Þegar meðferð með krabbameinslyfjum hefst, leggur sjúklingur af stað í langferð með þeim sem eiga að annast hann á einhvern hátt og það vekur ótta."

—Barbara Reville, krabbameinshjúkrunarfræðingur með sérfræðileyfi.


"Þegar maður hittir krabbameinslækni sinn í fyrsta sinn hefur maður varann á sér. Ég er að vísu vön að takast á við vandamál svo að sá fundur varð ekki áfall fyrir mig. Þetta var vandamál sem við ætluðum að leysa saman. Við fórum yfir allt í sambandi við krabbameinslyfin og hún sagði að AC væri það sem kæmi mér best. Ég samþykkti það. Ég nefndi taxol við hana. Hún varð hissa á að ég skyldi þekkja til þess! Hún samþykkti að í mínu tilfelli væri AC það besta ásamt taxol."

—Patty


"Ég var hræddust ÁÐUR en meðferðin byrjaði og ég vissi ekki við hverju var að búast. Þegar ég var á annað borð byrjuð í meðferðinni og sá hvernig þetta var ákvað ég að ég mundi ráða við þetta - og gerði það."

—Debbie

 

Deildu hugsunum þínum og ótta með öðrum.

ÞB