Hverjir fá krabbameinslyf?

Læknar styðjast við mörg atriði til að ákveða hverjum sé best að gefa krabbameinslyf, hverjum andhormónalyf (and-estrógen-lyf) og hverjum hvort tveggja. Nýtt próf (grein á ensku) gæti gert það auðvelda að taka ákvörðun í sambandi við meðferðir. Atriðin sem stuðst er við eru:

  • Aðaleinkenni viðkomandi krabbameins, þar á meðal stærð æxlis, sérhæfing (gráðun), hvort hormónaviðtakar eru fyrir hendi eða ekki, vaxtarhraði og hvort krabbamein hefur borist í eitla.

  • Séreinkenni sjúklings (aldur, heilsufar almennt, staðsetning æxlis og hvort vart verður stækkunar á eitlum í holhönd.

  • Á hvaða stigi sjúkdómurinn er.

  • Hvort kona er enn í barneign eða komin yfir tíðahvörf þegar hún greinist með krabbamein.

  • Áhættu-/gagnsemisþáttur meðferðarinnar. Krabbameinslæknir þinn vegur og metur hættuna sem þér stafar af krabbameininu í ljósi þess gagns sem þú gætir haft af meðferð með krabbameinslyfjum eða andhormónalyfjum (and-estrógenlyfjum) til lengri tíma litið og þá með hliðsjón af aukaverkunum meðferðanna og almennu heilsufari þínu.

Þegar þið læknir þinn farið yfir upplýsingarnar sem liggja fyrir um alla þessa þætti munuð þið skoða hvaða meginreglum og leiðbeiningum er yfirleitt fylgt í svona tilfelli. Hafðu í huga að þegar ákveðið er hverjir fari í krabbameinslyfjameðferð er hvert einstakt tilfelli sérstakt og þarfnast sérstakrar skoðunar af hálfu krabbameinslæknis.

  • Aldrei er mælt með krabbameinslyfjameðferð við forstigskrabbameini (ekki ífarandi) sem engin hætta er á að sái sér eða dreifist til annarra hluta líkamans (Tis). Markviss meðferð sem beinist eingöngu að því að fjarlægja æxlið úr brjóstinu, strangt eftirlit og eftirfylgni skipta meginmáli. Yfirleitt kemur vel til greina að gefa andhormónalyf (and-estrogenlyf) vegna þeirrar verndar sem það felur í sér fyrir brjóstvefinn sem eftir er.

  • Yfirleitt hallast læknar að því að gefa eftirmeðferð þegar um er að ræða ífarandi brjóstakrabbamein hjá konum sem enn eru í barneign. Brjóstakrabbamein frjósamra kvenna hefur tilhneigingu til að vera ágengara en annað krabbamein og yfirleitt gerist þörf fyrir krabbameinslyf til að ná sem bestum árangri.

  • Oft er mælt með krabbameinslyfjum ef krabbamein hefur sáð sér til eitla og skiptir stærð æxlis þá engu máli né heldur hvort konan er í barneign eða ekki.

  • Yfirleitt er mælt með krabbameinslyfjameðferð fyrir konur í barneign, sé meinið ífarandi (þótt það hafi enn ekki sáð sér í eitla) og einn sentímetri að stærð eða stærra. Fyrir konur komnar úr barneign yrði alvarlega íhugað að veita krabbameinslyfjameðferð við sömu aðstæður.

  • HUGSANLEGA yrði mælt með krabbameinslyfjameðferð fyrir konur (einkum þær sem eru í barneign) þar sem saman fara þættir sem eru henni ýmist í hag eða óhag - til dæmis ef krabbameinið er ífarandi en finnst einungis í brjóstinu og er minna en einn sentímetri að stærð (sem er hagstætt) en hefur engu að síður einn eða fleiri aðra þætti sem geta haft óhagstæð áhrif á horfur, eins og vöxtur í sogæðar, HER-2 tjáning o.s.frv. 


Andhormónalyf (and-estrogenlyf) til viðbótar við krabbameinslyf


Andhormónameðferð (and-estrógenmeðferð) ætti að vera inni í myndinni fyrir hverja einustu konu sem er Í BARNEIGN og með krabbamein með hormónaviðtökum. Þegar tekin er ákvörðun um meðferð með krabbameinslyfjum og andhormónum er hvort tveggja inni í myndinni. Sumar konur fá eingöngu meðferð með krabbameinslyfjum, aðrar eingöngu andhormónalyf og enn aðrar hvort tveggja.

Krabbameinslyf til viðbótar við andhormónalyf geta stuðlað að því að minnka líkur á ákveðnum tegundum krabbameins með estrógenviðtökum sem einnig sýna önnur óhagstæð einkenni. Nýlegt próf kallast Oncotype DX  (grein á ensku) og kann að auðvelda það að meta hættu á að sjúkdómur taki sig upp aftur hjá konum með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum sem hafa lokið fullri meðferð með tamoxifeni. *Ekki er stuðst við þetta próf hérlendis enda tölfræðilegar forsendur allt aðrar hér en í Bandaríkjunum. Að fá stoðmeðferð með krabbameinslyfjum gæti gagnast þeim sem miklar líkur eru taldar á að fái sjúkdóminn aftur.

Konum með krabbamein án estrógenviðtaka (æxlin þurfa ekki á estrógeni að halda til að vaxa) vegnar jafn vel með því að fara eingöngu í krabbameinslyfjameðferð eins og að fara í hana ásamt andhormónameðferð (and-östrogenmeðferð).

Mælt er með andhormónalyfjum fyrir nánast allar konur sem komnar eru úr barneign og eru með brjóstakrabbamein annaðhvort með estrógen-viðtökum eða prógesterón-viðtökum.

Fyrir margar konur er valin bæði meðferð með krabbameinslyfjum og andhormónum án tillits til þess hvort þær eru í barneign eða ekki.

 

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda eftir ábendingu lesara.

ÞB