Svona virka krabbameinslyf
Íslenskt slanguryrðið yfir krabbameinslyfjameðferð er "kímó" og er dregið af enska orðinu "chemotherapy" sem oft er stytt í "chemo". Eins og liggur í orðinu er krabbameinslyfjameðferð meðferð sem miðar að því að meðhöndla krabbamein með lyfjum. Fyrir skurðaðgerð er krabbameinslyfjameðferð stundum beitt til þess ýmist að minnka krabbameinsæxli eða eyða krabbameinsfrumum þar sem þær kunna að finnast í líkamanum. Eftir skurðaðgerð er markmiðið með krabbameinslyfjum að eyða krabbameinsfrumum sem kunna að hafa sáð sér í önnur líffæri eða líkamshluta. Meðferðin virkar svona:
Heilbrigðar frumur líkamans vaxa og skipta sér eftir ákveðnum reglum. Krabbameinsfrumur fara hins vegar ekki eftir reglum um frumusamskipti og vaxa og skipta sér að eigin "óreglu". Markmið krabbameinslyfjanna er að hindra viðgang krabbameinsfrumna og koma í veg fyrir að þær vaxi og skipti sér og ganga þannig af þeim dauðum. Þú hefur ef til vill áhyggjur af því að krabbameinslyf drepi einnig heilbrigðar frumur og sá möguleiki er vissulega fyrir hendi. Hins vegar ber að hafa í huga að lyfin virka best á frumur sem fjölga sér oft - og það gera einmitt krabbameinsfrumur. Því eiga krabbameinslyf sérlega gott með að vinna á þeim.
Þegar krabbameinslyfjum er beitt strax á eftir skurðaðgerð hefur meðferðin einnig þann kost að eiga sér stað á réttum tíma og við réttar aðstæður. Það má hugsa sér að krabbameinsfrumur hafi brotið sér leið frá frumæxlinu og að tiltölulegar nýir og litlir frumuhópar séu á sveimi annars staðar í líkamanum. Stökum frumum eða litlum frumuhópum berst næg fæða og súrefni og því fjölga þær sér í óða önn. (Hið sama verður ekki sagt um stór æxli. Þar er þröngt um frumurnar og ekki næg fæða handa öllum og þær hafa því ekki sömu vaxtarskilyrði). Þetta er því hárrétti tíminn því að krabbameinslyf virka best á frumur sem eru að fjölga sér og krabbameinsfrumur eru viðkvæmari fyrir krabbameinsyfjum en heilbrigðar frumur.
Talað er um lyfjagjöf í hvert skipti sem þú kemur á göngudeild til þess að fá krabbameinslyfin og er hvert skipti ásamt dögunum þar til þú kemur í næstu lyfjagjöf talið einn lyfjarhingur. Hver meðferð nær yfir alla lyfjahringana. Fer það eftir því hvað lyf eru gefin hve margir lyfjarhingir eru í hverri meðferð og geta verið frá fjórum upp í átta. Meðferðinni telst lokið þegar lyfin hafa verið gefin í þann fjölda skipta sem ákveðið var.
ÞB