Að skipuleggja daglegt líf útfrá krabbameinslyfjameðferð


Þótt krabbameinslyf og meðferð með þeim séu af öllu tagi geta læknir þinn og hjúkrunarfræðingur hjálpað þér að átta þig fyrirfram á hvernig þér muni líða — og hvað þú ræður við að gera og hvað ekki — meðan á meðferð stendur.

Gerum til dæmis ráð fyrir því að þú farir í lyfjagjöf á þriggja vikna fresti. Náðu í dagatal. Færðu inn dagana í lyfjahringnum. Merktu við dagana sem þú þarft að fara í rannsókn eða blóðprufur. Svo skaltu fylla inn í myndina:

  • Fyrstu vikuna eftir að þú færð lyfin verður matarlystin ekki mikil. Láttu ógert að panta borð á fínu veitingahúsi og reyndu eftir föngum að forðast hádegisfundi á veitingastöðum.

  • Fyrstu tvær vikurnar eftir að þú færð lyfin máttu búast við að verða fremur orkulítil og þér er hætt við sýkingum. Láttu ógert að vera á ferðinni með börnum eða barnabörnum; láttu ógert að fara í viðskiptaferðir þar sem þú þarft að gista, forðastu flugferðir og hótel. Þú þarft að vera vel vakandi og fylgjast með merkjum um sýkingu eða hækkaðan hita.

  • Þriðja vikan eftir að þú færð lyfin lítur nokkuð vel út. Þú gætir hugsanlega treyst þér vel til að fara í viðskiptaferð eða helgarferðina sem þig dreymir um.


Eftir því sem lyfjahringjum fjölgar getur þú með krabbameinslækni þínum eða hjúkrunarfræðingi sagt fyrir um með nokkurri vissu hvenær þú átt góða daga í vændum og hvenær slæma. Það getur veið hjálp í því að skrá það í dagbók sem þú getur sýnt fjölskyldu og vinum.

Hve miklu af þínum daglegu verkum og venjum getur þú sinnt á meðan á meðferðinni stendur? Svarið er misjafnt frá einni konu til annarrar. Sumar konur halda að mestu leyti áfram að vinna og sjá um heimilið með svolítilli aðstoð. Fæstar konur eru þó ofurkonur og engin kona ætti heldur að reyna að vera það. Margar konur þurfa að taka sér frí frá vinnu, losna undan utanaðkomandi skyldum og fá töluverða hjálp við heimilisstörfin. Það er engin minnkun að því. 

Engar tvær konur bregðast nákvæmlega eins við meðferð með krabbameinslyfjum. Ljúktu fyrsta lyfjahringnum og skipulegðu síðan tilveru þína útfrá því hvernig ÞÉR líður. 

ÞB