Hvenær, hvernig, hvar?

Í stuttu máli:

Spyrðu lækni þinn við hverju megi búast í sambandi við þau krabbameinslyf sem þú átt að fá, þannig að þú vitir sem mest áður en meðferðin hefst.

Hvenær?

Krabbameinslyf eru gefin í svokölluðum lyfjahringjum þar sem dögum með lyfjagjöfum fylgja dagar í hvíld. Þér gætu til dæmis verið gefin lyfin á degi eitt og síðan aftur að þremur vikum liðnum. Það teldist þá einn lyfjahringur. Það fer eftir meðferðinni sem verður fyrir valinu hve lengi hún varir, en yfirleitt stendur krabbameinslyfjameðferð frá fjórum mánuðum upp í hálft ár. Yfirleitt er hún látin byrja innan þriggja vikna eftir skurðaðgerð.

Sumar tegundir brjóstakrabbameins eru þannig að boðið er upp á krabbameinslyfjameðferð Á UNDAN skurðaðgerð. Þannig meðferð - s.k. formeðferð - kann að minnka æxlið í þeim mæli að þú getir farið í fleygskurð (aðeins hluti brjóstsins fjarlægður) og geislameðferð í stað brjóstnáms (en þá er allt brjóstið er tekið). Það eru einungis sumar tegundir krabbameins sem bregðast við krabbameinslyfjum fyrir skurðaðgerð. Ræddu við lækni þinn og fáðu að vita hvort það gæti hentað þér að fá krabbameinslyf fyrir skurðaðgerðina.

Hvernig?

Krabbameinslyf eru yfirleitt gefin í æð, en sum þeirra um munn sem tafla eða hylki eða fljótandi. Þau eru einnig gefin í æð og þá er mjóum æðalegg komið fyrir í handarbaki eða á framhandlegg. Sumum konum er unnt að gefa krabbameinslyf um lyfjabrunn sem er komið fyrir á bringunni með einfaldri skurðaðgerð. Aðferðir við að gefa lyf í æð geta einnig verið mismunandi. Sum eru gefin með sprautu. Þá er stungið og lyfinu sprautað inn á stuttum tíma. Önnur eru gefin með því að láta þau renna hægt (dreypa) úr poka, gegnum slöngu, nál og í æð. Fer þetta allt eftir þeirri meðferð sem hefur orðið fyrir valinu.

(Í Bandaríkjunum er verið að prófa með klínískum rannsóknum nýja aðferð við að gefa krabbameinslyf þar sem hiti kemur við sögu (hyperthermia) í því skyni að minnka krabbameinsæxli. Háskammta krabbameinslyfi í hylki er með nál stungið inn um þunnan legg og komið fyrir í æxlinu. Síðan fylgir klukkutíma hitameðferð þar sem brjóstið er haft í heitu vatni. (Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna hefur þegar samþykkt að nota megi þessa aðferð ásamt geislun.)

Hvar?

Hérlendis eru krabbameinslyf gefin á dagdeild/göngudeild LSH (Landspítala-Háskólasjúkrahúss) og FSA á Akureyri þar sem sjúklingar eru yfirleitt frá 2-4 klukkustundir í senn. 

Annað sem þig gæti langað til að vita


"Finn ég til við lyfjameðferðina?" Margar konur spyrja þessa. Að fá krabbameinslyf er nokkurn veginn eins og að fá önnur lyf hvort sem þau eru tekin um munn eða gefin í æð. Að fá lyfin í æð er svipað og þegar tekið er blóð. Verðir þú vör við kulda, hita, hroll eða óvenjulega tilfinningu þar sem þú fékkst sprautuna eða þar sem nálin var sett upp, skaltu láta lækni þinn eða hjúkrunarkonu vita af því tafarlaust.

Lyfjagjöfin getur tekið frá einni klukkustund upp í marga klukkutíma og fer það eftir lyfjunum. *Á stofum dagdeildar er sjónvarp í loftinu og heyrnatól við hvert rúm og hvern stól þar sem líka má hlusta á útvarp. Þar er einnig töluvert af (misgömlum) tímaritum, en kannski væri vel til fundið að gera eitthvað af þessu:

  • Koma með góða bók til að lesa eða eitthvað til að hlusta á að eigin vali (spólur, DVD, ipod).

  • Koma með fartölvuna og nota tímann til að senda eða svara tölvupósti.

  • Koma með ritföng og klára að skrifa þakkarkort eða annað sem þú hefur lengi ætlað þér að skrifa.

  • Æfa slökun eða hugleiðslu meðan á lyfjagjöfinni stendur. 

  • Búa til lista yfir allt sem þú getur hlakkað til að gera þegar meðferðinni líkur. Æfa þig í listinni að hugsa jákvætt.

  • Byrja að skrifa dagbók eða skrifa hjá þér hvernig lyfjagjöfinni vindur fram. Það getur verið ágætt að rifja hana upp þegar næsti lyfjahringur hefst. 

*Öllum sem koma í lyfjagjöf er frjálst að hafa með sér vin eða maka til að hafa hjá sér meðan á lyfjagjöfinni stendur. Þetta getur orðið dýrmætur tími með nánum vinum eða fjölskyldu.

Þegar lyfjagjöfinni lýkur, ferðu heim. Séu þér ekki gefin sljóvgandi lyf eða ofnæmislyf, getur þú ekið sjálf. Hugsanlega líður þér samt betur að vita af einhverjum sem er tilbúinn að aka þér. Þú finnur ekkert til, en trúlega er skynsamlegt að reikna með að vera heima í rólegheitum um kvöldið, borða léttmeltan mat og alls ekki snerta áfengi. Það gildir um þetta eins og önnur lyf að rétt er að tala við lækninn um hvort rétt sé að forðast eitthvað í mat eða drykk á meðan á meðferðinni stendur.

Fyrstu vikuna eftir að þú færð krabbameinslyfinin finnurðu hugsanlega fyrir einhverjum aukaverkunum. Konur bregðast misjafnlega við lyfjunum, en þú skalt samt gera ráð fyrir að það dragi úr matarlyst, þú finnir fyrir meiri þreytu en venjulega og hugsanlega ógleði.

*Þú færð lyfseðil hjá lækninum þínum fyrir ógleðilyfjum sem afgreidd eru í apóteki spítalans og þú mátt taka inn samkvæmt fyrirmælum hans. Fáir þú niðurgang eða hægðatregðu, skaltu endilega ræða það við lækni þinn því að hann getur hjálpað þér að takast á við það.

ÞB