Marksækin meðferð ("Targeted Therapy")

Marksæknar meðferðir eru lyfjameðferðir við krabbameini sem beint er að ákveðnum eiginleikum krabbameinsfrumna svo sem prótíni, ensími eða nýmyndun æða. Marksækin lyf skaða almennt ekki eðlilegar, heilbrigðar frumur. Mörg marksækin lyf eru mótefnalyf sem starfa á sama hátt og mótefni mynduð af líkamanum sjálfum. Því eru marksæknu meðferðirnar einnig oft kallaðar ónæmismeðferðir. En marksæknu lyfin eru ýmist einstofna mótefni(Herceptin® t.d.) eða efnafræðilega samsett lyf sem vinna á ákveðnum ferlum inni í frumunni sjálfri (Tyverb®t.d. sem er prótein-kínasa hemill).  Að þessu leyti eru meðferðir með marksæknum lyfjum afar ólíkar hefðbundnum krabbameinslyfjum.


  • Trastuzumab (Herceptin®)
    Herceptin® er best þekkta marksækna lyfið við brjóstakrabbameini. Herseptín virkar aðeins á brjóstakrabbameinsfrumur með yfirtjáningu á HER2-viðtökum, þ.e. HER2-jákvætt brjóstakrabbamein. Herceptín getur haft í för með sér ýmsar þekktar aukaverkanir svo sem áhrif á hvít blóðkorn, ofnæmisviðbrögð við inngjöf lyfsis og áhrif á hjartavöðva einkum ef það er gefið í tengslum við  anthracylin-lyf (Adriamycin® o.fl.). Herceptin er bæði gefið sem viðbótarmeðferð brjóstakrabbameins í læknandi skyni og við útbreiddu brjóstakrabbameini.

  • Lapatinib (Tyverb®/Tykerb®)                                                                                                                                   Lapatinib er annað marksækið lyf sem vinnur á brjóstakrabbameinsfrumum með yfirtjáningu (of marga) HER2-viðtaka. Til þess bærar stofnanir hafa samþykkt að lyfið sé gefið ásamt capecitabine (Xeloda®) sem meðferð við langt gengnu HER2-jákvæðu brjóstakrabbamein sem anthracylin-lyf, taxane-lyf og herseptín eru hætt að virka á.

  • Bevacizumab (Avastin®)
    Avastin® (bevacizumab) er einnig marksækið lyf. Avastin kemur í veg fyrir nýmyndun æða sem flytja næringu til krabbameinsfrumna. Samþykkt er að Avastin® sé notað til meðferðar við ákveðnum tegundum langt gengins krabbameins í lungum, ristli og endaþarmi, eggjastokkum, eggjaleiðurum og lífhimnu. Verið er að rannsaka áhrif bevacizumab þegar það er gefið ásamt Taxol® (paclitaxel) til að kanna hvort þessi lyf geti í sameiningu bætt árangur við meðferð á útbreiddu brjóstakrabbameini betur en taxol eitt og sér.

  • Pertuzumab (Perjeta®)                                                                                                                                                 Perjeta® er nýlegt marksækið lyf sem tilheyrir flokki einstofna mótefna og virkar á brjóstakrabbameinsfrumur sem eru HER2-jákvæðar.

  • Trastuzumab emtansín (Kadcyla®)                                                                                                                                             er einnig nýlegt lyf sem inniheldur virka efnið trastuzúmab emtansín. Það er gert úr tveimur samtengdum einingum, þ.e. einstofna mótefninu trastuzumab og örpípuhemlinum DM1.           

Ný marksækin lyf stinga reglulega upp kollinum. Fylgstu með á brjostakrabbamein.is eða breastcancer.org til að fylgjast með nýjungum í þessari meðferðarleið.

ÞB