Trastuzumab (Herceptin®)
Herceptin® sem í daglegu tali kallast herceptín, er afar áhrifaríkt lyf við brjóstakrabbameini með yfirtjáningu í HER2-viðtökum eða Her2-jákvætt brjóstakrabbamein, bæði sem læknandi viðbótarmeðferð eða meðferð við staðbundnum og eða útbreiddum sjúkdómi. Lyfið er gefið í æð vikulega eða á þriggja vikna fresti.
Meðferð með herceptíni er kölluð marksækin meðferð vegna þess að lyfið hamlar fjölgun krabbameinsfrumna sem hafa of marga HER2-viðtaka en lætur aðrar frumur óáreittar. Þessi tegund krabbameins er sagt að sé HER2-jákvæð. Meðferð með herceptíni telst til ónæmismeðferða vegna þess að lyfið er einstofna mótefni eins og þau sem líkaminn myndar sjálfur í ónæmiskerfinu og mótefnið lokar fyrir virkni HER2 viðtaka í krabbameinsfrumum. Um það bil eitt af hverjum fimm krabbameinstilfellum er HER2-jákvætt. HER2-jákvætt brjóstakrabbamein hefur tilhneigingu til að vera illskeyttara en HER2-neikvætt brjóstakrabbamein, þ.e.a.s. krabbamein án slíkra viðtaka en á móti kemur meðferðarmöguleiki með Herceptíni®.
Herseptín er aðeins gefið konum sem eru með HER2-jákvætt brjóstakrabbamein. Herseptín gefur góða raun hjá konum með dreifðan sjúkdóm og sjúkdóminn á fyrstu stigum. Ennfremur er það nýtt sem fyrirbyggjandi lyf.
Í þessum hluta getur þú fræðst meira um hvernig herseptín virkar, hverjir geti haft gagn að því, hvernig það er gefið og hverjar eru aukaverkanir þess.
ÞB