Lapatinib (Tyverb®/Tykerb®)

Samþykkt hefur verið að lapatinib (Tyverb®/Tykerb®) sé gefið ásamt lyfinu capecitabine (Xeloda®) til að meðhöndla meinvörp HER2-jákvæðs brjóstakrabbameins sem svarar ekki lengur meðferð með antracýklín-lyfjum, taxan-lyfjum (taxönum) eða herceptíni.

*Samkvæmt ábendingu frá framleiðanda lyfsins er heitið Tykerb® notað í Bandaríkjunum og löndum utan þeirra. Í Evrópu er lyfið aftur á móti skráð undir heitinu Tyverb®.

Hvernig virkar lapatinib?

Krabbameinsfrumur vaxa stjórnlítið. Tyverb® virkar inni í frumunni með því að trufla prótín, svo nefnda kínasa, sem geta örvað vöxtinn.

Nánari útlistun: Erfðavísar (gen) eru eins og handbók sem segir hverri frumu líkamans hvernig hún eigi að vaxa, hvaða hlutverki hún eigi að gegna og hvernig hún eigi að haga sér. Það gerist með því að fruman fær skipun um að framleiða sérstök prótín sem stjórna ákveðinni starfsemi - eins og vexti, hvíld eða viðgerð.

Sumar krabbameinsfrumur eru með frávik (stökkbreytingar) í erfðavísum sem ákvarða hve mikið og hve ört fruma á að vaxa. Stundum eru krabbameinsfrumur með of mörg eintök af þessum erfðavísum. Þegar þannig háttar, tala læknar um „yfirtjáningu". Í sumum tilfellum yfirtjáningar framleiða krabbameinsfrumur of mikið af prótínum sem stjórna frumuvexti og skiptingu og þannig nær krabbamein að vaxa og dreifa sér.

Í sumum brjóstakrabbameinum eru of mörg eintök af ákveðnum erfðavísum sem kallast HER2 og HER2 erfðavísirinn framleiðir prótín sem kallast HER2 viðtaki. HER2 viðtakar eru eins og eyru eða loftnet á yfirborði allra frumna. Brjóstakrabbameinsfrumur með yfirtjáningu HER2 erfðavísa búa til of mikið af HER2 viðtakaprótínum og er þá sagt að þær séu HER2-jákvæðar.

Inni í HER2-jákvæðri brjóstakrabbameinsfrumu nota HER2 viðtakar prótínboð, kínasa, til að skipa frumunni að vaxa og skipta sér óeðlilega. Kínasar stjórna því hve mikil orka er leidd til frumu þannig að hún nái að vaxa og skipta sér. Brjóstakrabbameinsfrumur með yfirtjáningu HER2 kunna að vera með of mikla starfsemi kínasa með þeirri afleiðingu að þær vaxa og skipta sér of hratt.

Tyverb® virkar með því að trufla kínasa sem hafa áhrif á HER2 inni í frumunni og skerðir orkumagnið sem brjóstakrabbameinsfrumurnar fá. Með því að minnka aðgang frumu að orku getur lyfið stöðvað eða hægt á vexti brjóstakrabbameins.

Tyverb® er marksækið lyf, en ólíkt trastuzumab (Herceptin®) og bevacizumab (Avastin®) er það ekki marksækið mótefnalyf. Marksækin mótefnalyf eru tegund náttúrulegra mótefna sem starfa á sama hátt og mótefnin sem líkaminn framleiðir sjálfur. Tyverb® er efnafræðilega samsett lyf en ekki mótefni.

Getur lapatinib komið þér að gagni?

Lyfið Tyverb® (lapatinib) getur virkað á fólk með dreift HER2-jákvætt brjóstakrabbamein sem svarar ekki lengur meðferð með antrasýklín-lyfjum, taxan-lyfjum (taxönum) eða herseptíni. Tvær tegundir rannsókna eru notaðar til að komast að því hvort brjóstakrabbamein sé HER2-jákvætt og eru þær gerðar áður en meðferð með herseptíni er ákveðin. IHC rannsóknin mælir magn HER2 viðtakaprótíns en með FISH rannsókn er talinn fjöldi HER2 arfbera:

  • IHC rannsókn (IHC er skammtöfun úr ImmunoHistoChemistry= mótefnalitun vefja) er algengsta aðferðin og felst í að greina vaka í vefjasneiðum með notkun ensímtengdra mótefna og litlausra hvarfefna sem falla út og mynda lit í návist ensímsins.

IHC rannsókn leiðir í ljós hvort of mikið er af HER-2 viðtakaprótíni í krabbameinsfrumum.

Niðurstöður úr IHC rannsókn geta verið 0 (neikvæð), 1+ (neikvæð), 2+ (á mörkunum) eða 3+ (jákvæð).

  •  FISH rannsókn (FISH eru upphafsstafir í orðunum Fluorescence In Situ Hybridization – staðbundin þáttapörun). FISH rannsókn sýnir hvort of mörg eintök eru af HER-2 erfðavísum í krabbameinsfrumum. Niðurstöður úr FISH rannsókn geta verið „jákvæðar” (of mörg eintök) eða „neikvæðar” (eðlilegur fjöldi eintaka). Þessi aðferð er talin áreiðanlegri en IHC prófið, en er ekki jafn útbreidd.

Við hverju má búast með því að taka inn Tyverb®

Lapatinib (Tyverb®) er ávallt gefið samtímis krabbameinslyfinu capecitabine (Xeloda®). Bæði lyfin eru í töfluformi og tekin um munn. Engar takmarkanir eru á lengd meðferðar með Tyverb® og henni er haldið áfram nema læknir komist að þeirri niðurstöðu að lyfið sé hætt að virka á krabbameinsfrumurnar eða aukaverkanir lyfsins reynist alvarlegar sem getur gerst í einhverjum tilvikum.

Aukaverkanir Tyverb®

Tyverb® kann að valda aukaverkunum sem eru yfirleitt ekki alvarlegar og hægt að finna ráð við með góðum árangri. Algengustu aukaverkanir eru:

Unnt er að breyta skömmtum til að draga úr aukaverkunum sem þessum. Sé niðurgangur þrálátur og alvarlegur, getur reynst nauðsynlegt að hætta töku lyfsins.

Þar sem Tyverb® er gefið ásamt krabbameinslyfinu Xeloda® er hugsanlegt að finna einnig fyrir aukaverkunum krabbameinslyfsins. Notkun Xeloda® er talin tengjast ákveðnum taugaskemmdum sem lýsa sér með roða og fiðringi í höndum og fótum.

Í örfáum tilvikum hefur Tyverb® valdið vægri hjartabilun. Gerist slíkt, er töku lyfsins þegar hætt og gefin hjartastyrkjandi lyf sem geta komið starfsemi hjartans í lag. Manneskja sem hefur í huga að taka inn Tykerb® og er með hjartakvilla fyrir, þarf að láta fylgjast afar vel með sér, bæði áður en byrjað er að taka lyfið og á meðan á meðferð með því stendur.

Tyverb® virðist ekki valda alvarlegum hjarta- og lungnakvillum eins og þeim sem lyfið  Herceptin® kann að valda í einhverjum tilfellum.

 

 

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB