Meðferð sem nær ekki yfir allt brjóstið
Meðferð sem nær ekki yfir allt brjóstið — en beinist eingöngu að æxlissvæðinu—er enn sem komið er ekki viðtekin meðferð (standard) og telst því vera "tilraun" í flestum tilfellum þar sem konur greinast með snemmbúið brjóstakrabbamein. Viðtekin regla er sú að meðhöndla allt brjóstið. Hins vegar kunna konur sem uppfylla ákveðin skilyrði að eiga þess kosta að velja á milli tveggja leiða til að láta meðhöndla brjóstið aðeins að hluta til:
-
fleygskurður að viðbættri "innvortis geislun" sem beinist eingöngu að því svæði þar sem æxlið var. Því er síðan fylgt eftir með reglubundinni læknisskoðun og röntgenmyndun brjóstvefjarins sem eftir er.
-
fleygskurður með mikilli eftirfylgni þar sem brjóstvefurinn sem var skilinn eftir er skoðaður reglulega af lækni og hann röntgenmyndaður.
Hvaða konur geta farið í svona meðferð?
Meðferð á hluta brjóstsins með fleygskurði og innvortis geislun getur komið til greina fyrir konur sem eru með tiltölulega lítið, staðbundið (ekki ífarandi) æxli sem eftirfarandi einkenni:
-
frumumyndun af lágri gráðu (non-comedo)
-
æxlið hefur allt verið fjarlægt með skurðaðgerð
-
á fjarlægðum vef voru hreinar skurðbrúnir breiðar (um það bil einn sentímeter).
Þess eru dæmi (* í Bandaríkjunum) að konum sé boðið að fara í aðgerð sem þessa þótt krabbameinið sé ífarandi, sé æxlið tiltölulega lítið og hafi verið fjarlægt að fullu með hreinum, breiðum (1 cm) skurðbrúnum. Er það þá yfirleitt gert í tengslum við klíníska rannsókn.
Þú og læknir þinn getið vikið frá reglunum að ofan gefi aðstæður þínar tilefni til. Það gæti verið hár aldur þinn, eitthvað tengt heilsu þinni sem taka þarf tillit til eða þá að æxlið er mjög smávaxið.
*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.
ÞB