Hví svo margar mismunandi meðferðir?

Margar konur fullyrða að stríð við krabbamein sé eins og að berjast fyrir lífi sínu. Sigur í þessu stríði þýðir að krabbameinsfrumur eru allar að velli lagðar eða hafa að minnsta kosti verið yfirbugaðar um hríð. Af því að brjóstakrabbamein er saman sett úr mörgum mismunandi tegundum krabbameinsfrumna þarf að grípa til fleiri en einnar aðgerðar til að losna við þær allar. Það þarf að ráðast að þeim úr mörgum áttum, með mörgum samstilltum aðgerðum. Vörnin  getur falist í skurðaðgerð, krabbameinslyfjameðferð, geislameðferð, andhormónameðferð og marksækinni meðferð. 

Það krefst mikillar yfirvegunar að setja saman aðgerðaáætlun til að sigrast á brjóstakrabbameini. Besta meðferðaráætlun er sú sem berst við allt í frumunum sem kom krabbameininu af stað, kemur því til að vaxa og gæti orðið til að það dreifðist um líkamann.

Breytingar í erfðaefni valda sjúkdómum

Frumur eru grunneiningar í byggingu sérhverrar lifandi veru — hvort sem það eru tómatar, maríubjöllur, lax eða manneskjur. Fyrirmælin sem segja frumunni hvað hún eigi að starfa eru forrituð í arfberann sem er í kjarna frumunnar. Erfðaefni (arfberar) eru gerðir úr kjarnsýrum (DNA=deoxýríbósakjarnsýru). Sumar breytingar í arfberum eru meinlausar, en aðrar geta framkallað sjúkdóma. Krabbameinsfrumur eiga uppruna sinn í heilbrigðum frumum. Óeðlilegar breytingar í arfberum skipa nýmyndaðri krabbameinsfrumu að vaxa og búa til nýjar frumur hraðar en eðlilegt er. Eftir því sem krabbameinsfrumur vaxa halda þær áfram að breytast — og verða sífellt hver annarri ólíkari. 

ÞB