Á hverja tegund þarf ákveðna meðferð
Sú staðreynd að krabbameinsfrumur eru ólíkar innbyrðis (misleitni æxlis) veldur því að meinafræðiskýrsla þín, blóðsýni og ýmsar aðrar rannsóknir geta orðið mjög flóknar og er jafnframt ástæðan fyrir því að svo margar mismunandi leiðir eru farnar til að meðhöndla brjóstakrabbamein. Krabbameinsfrumur er ólíkar innbyrðis og það sem drepur eina tegund hefur hugsanlega engin áhrif á aðra.
Áhrifaríkasta heildarmeðferðin fæst með því að ná því besta út úr hverri einstakri meðferð. Skurðaðgerð, geislameðferð, krabbameinslyfjameðferð, andhormónameðferð og marksækin meðferð gegna hver um sig sínu ákveðna hlutverki en geta auk þess orðið enn árangursríkari þegar þeim er beitt saman.
Samþykktar hafa verið yfir hundrað tegundir lyfja við krabbameini og verið er að þróa og prófa hundruð tegunda til viðbótar. Sum lyf eru afar sértæk og búin til í því skyni að ráðast á eina ákveðna tegund erfðavísis eða prótíns í krabbameinsfrumum. Svo hnitmiðuð meðferð getur skilað góðum árangri en verður aldrei nema hluti af heildarmeðferðinni gegn krabbameininu. Þörf er á öðrum lyfjum til að ráðast á önnur skotmörk í krabbameinsfrumum. Hver meðferð skilar sínu ákveðna verki í því heildarmarkmiði að losna við allar krabbameinsfrumur. Þess vegna virka sum lyf best með öðrum, hvort sem þau eru gefin samtímis, á undan eða á eftir öðrum.
Krabbameinsfrumur sem bæði eru með hormónaviðtaka (hormóna-viðtaka-jákvæðar) og HER2-jákvæðar er árangursríkast að vinna á með því að gefa andhormónalyf sem ræðst á hormónaviðtaka frumunnar og trastuzumab (Herceptin®) sem vinnur á HER2 erfðavísinum í frumunni. Í raun er það svo að hormónaviðtaki frumunnar og HER2 erfðavísir hennar hafa áhrif hvor á annan: Andhormónalyf virkar best eftir að ráðist hefur verið að HER2 erfðavísinum með viðeigandi lyfi.
Munurinn á eiginleikum krabbameinsfrumna er skýringin á því hvers vegna tvær konur með brjóstakrabbamein fá hugsanlega gjörólíka meðferð. Þú hittir kannski aðrar konur á biðstofunni áður en þú ferð í rannsókn eða færð lyfin. Algengt er að fólk skiptist á frásögnum af greiningu sinni og meðferð. Hafðu hugfast að hvert krabbamein hefur sín séreinkenni og þar af leiðandi eru meðferðirnar mismunandi. Þegar þú talar við aðra konu er erfitt að vita hvort hennar krabbamein er líkt eða ólíkt þínu. Þú skalt því ekki taka ákvarðanir út frá því sem einhver annar hefur að segja. Það sem kemur þeirri manneskju að gagni, hentar þér hugsanlega alls ekki.
Fyllri mynd
Frábær árangur lyfja sem beinast að erfðavísum og prótínum í krabbameinsfrumum kveikir von um að þróa megi ný lyf í sama tilgangi. Sem dæmi má nefna:
-
Andhormónalyf sem eyða hormónaviðtökum sem valda frumuvexti.
-
Herceptin® sem ræðst á HER2 viðtaka.
-
Bevacizumab (Avastin®) sem hindrar nýmyndun æða sem flytja blóð til krabbameinsfrumna.
-
Lapatinib (Tyverb®) sem ræðst á HER2 og EGFR erfðavísa hefur reynst árangursríkt í nýlegum rannsóknum.
Rannsakendur velta nú fyrir sér hvort unnt sé að greina aðra erfðavísa í einstökum brjóstakrabbameinum, og sé það hægt, hvort unnt sé að þróa lyf sem ráðist á þessi ákveðnu gen (erfðavísa).
Með nýju prófi, Oncotype DX kvarðanum (grein á ensku) má greina ákveðna erfðavísa í brjóstakrabbameinsfrumum. Með því að mæla hve mikið er af ákveðnum erfðavísum, reiknar prófið út líkur á að meinið taki sig upp. Því hærri sem útkoman er á kvarðanum þeim mun meiri líkur eru á að mein taki sig upp aftur. Með því að skoða önnur einkenni krabbameinsins ÁSAMT niðurstöðum kvarðans verður auðveldara að segja fyrir um líkur á að mein taki sig upp hjá konum með brjóstakrabbamein með estrógenviðtökum sem ekki hefur borist í eitla. Þær upplýsingar geta hjálpað konum og læknum þeirra að ákveða hvort meðferð með krabbameinslyfjum er nauðsynleg eftir skurðaðgerð og geislameðferð.
Rannsakendur vonast til að geta þróað prófanir sem geti gefið fyllri og ítarlegri mynd af arfgerð krabbameinsæxla. Þá yrði hægt að ákveða meðferð sem tæki fullt tillit til séreinkenna hvers krabbameinsæxlis fyrir sig.
ÞB