Lyfjameðferðir

Lyf hafa áhrif á allan líkamann og markmið lyfjameðferða, t.d. með frumudrepandi lyfjum er að drepa krabbameinsfrumur sem kunna að hafa sáð sér í aðra hluta líkamans. Meðferðin er fyrirbyggjandi eða trygging sem má taka jafnvel þótt engar sannanir liggi fyrir um að krabbameinið hafi sáð sér. Hafi krabbameinið hins vegar náð að sá sér og mynda æxli annars staðar í líkamanum, getur meðferðin stuðlað að því að minnka æxlið og vonandi leitt til sjúkdómshlés.

Þegar teknar eru ákvarðanir um meðferð sem hefur áhrif á allan líkamann er það gert út frá "séreinkennum" krabbameinsins. Því „ágengara" sem krabbameinið er talið vera, þeim muni meiri líkur eru á að það dreifi sér og því meiri þörf á meðferð sem virkar á allan líkamann. Því meinlausara sem meinið er, þeim mun minni hætta er á að það dreifi sér og því minni þörf fyrir meðferð sem hefur áhrif á allan líkamann.

Meðferðarleiðirnar eru í megindráttum ferns konar:

  1. Andhormónameðferð felst í að gefa lyf í töfluformi eða, það sem sjaldgæfara er, með sprautu. Þessi lyf hafa annað hvort þau áhrif að 1) minnka magn estrógens í líkamanum eða 2) loka fyrir áhrif estrógens til að koma í veg fyrir vöxt krabbameinsfrumna í líkamanum.

  2. Krabbameinslyfjameðferð felst í að gefin eru lyf ýmist í pilluformi eða í æð (gegnum nál eða lyfjabrunn) sem deyða krabbameinsfrumur. Krabbameinslyf verka með því að trufla hæfileika frumna til að starfa og fjölga sér.

  3. Ónæmismeðferð felst í að gefa nýja tegund lyfja sem er ætlað að lýkja eftir eða nýta varnarkerfi líkamans til að sigrast á krabbameini. Nafngiftin, ónæmismeðferð, er dregin af ónæmiskerfinu. Markmiðið er "virkt ónæmi" — að örva eða blekkja varnarkerfi líkamans til að hindra eða vinna gegn frumustarfsemi. Bóluefni tilheyra þessum flokki. Markmiðið getur einnig verið "óvirkt ónæmi" sem felst í að gefa líkamanum bardagaprótín eða "mótefni" sem hann vantar, þannig að ónæmiskerfið geti unnið á krabbameinsfrumum. Í orðinu "óvirkur" felst að líkamanum er ekki sjálfum ætlað að heyja þessa bardaga.

    Sem stendur er aðeins eitt ónæmislyf eða mótefni orðið útbreitt, en það er herceptin, Lyfið er gefið beint í æð (um nál eða lyfjabrunn). Herceptin hentar einungis konum með langt gengið brjóstakrabbamein með sérstökum krabbameinsarfbera sem kallast HER2/neu sem of mikið er af eða "yfirtjáir"  sig eins og það heitir á læknamáli. (ofvirkir æxlisvísar). Herceptin er dæmi um lyf sem framkallar "óvirkt ónæmi". Sérstök ónæmisprótín (mótefni) í lyfinu finna og stöðva starfsemi prótínanna sem uslanum valda og HER2/neu krabbameinsarfberarnir hafa framleitt. Með því að stöðva starfsemi prótínanna er frumuvexti haldið í skefjum.  Með frekari rannsóknum munu finnast fleiri lyf eða bóluefni sem vinna með ónæmiskerfinu á mismunandi vegu til gagns fyrir fleiri konur og gegn fleiri tegundum krabbameins.

  4. Lyf sem hindra æðamyndun. Þau koma í veg fyrir að nýmyndun æða sem flutt geti næringu til krabbameinsfrumna —með öðrum orðum eru krabbameinsfrumurnar "sveltar í hel" með því að þær fá ekki það sem þær þurfa sér til vaxtar og viðgangs. Sem stendur eru þessi lyf einungis gefin í tilraunaskyni í klínískum tilraunum  (grein á ensku) og í mjög litlum mæli.

 ÞB