Meðferðir við annars vegar ífarandi og hins vegar staðbundnu krabbameini

Mælt kann að vera með andhormónameðferð fyrir konur með staðbundið brjóstakrabbamein í því skyni að 1) minnka hættu á að sama krabbamein taki sig upp og 2) minnka hættu á að nýtt krabbamein myndist í öðru hvoru brjóstinu. Algengasta lyfið sem gefið er í þessu skyni er tamoxifen (líka kallað nolvadex). Krabbameinslyf eru aldrei gefin við staðbundnu brjóstakrabbameini þar sem það sáir sér ekki út fyrir brjóstið.

Ífarandi brjóstakrabbamein sem ekki hefur sáð sér

Kerfislæg meðferð kann að gagnast sumum konum með ífarandi brjóstakrabbamein sem ekki hefur borist í eitla. Yfirleitt er mælt með andhormónalyfjum reynist krabbameinsfrumur vera með hormónaviðtaka (hormóna-viðtaka-jákvætt). Andhormónalyf eru ýmist gefin ein eða til viðbótar við krabbaameinslyf. Tamoxifen (líka kallað nolvadex) er algengasta andhormónalyfið.

Stundum er mælt með því að gefa krabbmeinslyf konum með lítil æxli (2 sentímetrar eða minna, þ.e. krabbamein á 1. stigi). Algengast er að velja adriamycin (efnafræðiheiti: doxoruicin) ásamt cyclophosphamide í fjórum lyfjahringjum (AC x 4) eða cyclophosphamide, methotrexate og fluorouracil í sex lyfjahringjum (CMF x 6). Til greina koma fleiri samsetningar krabbameinslyfja, sem velja má sjálfstætt eða í tengslum við klínískar tilraunir. Til greina kemur að mæla með ágengari lyfjagjöf fyrir konur með meðalstórt eða stórt æxli (meira en þrír til fimm sentímetrar). Þegar gert er upp á milli meðferðarleiða er ákvörðunin tekin með hliðsjón af mörgum einstaklingsbundnum einkennum brjóstakrabbameinsins, almennu heilsufari að öðru leyti og þínum eigin aðferðum við að taka ákvarðanir.

Fyrir konur með ífarandi brjóstakrabbamein sem hefur borist í eitla er yfirleitt mælt með krabbameinslyfjum sem fyrstu kerfislægu meðferðinni. Algengasta lyfið sem gefið er við þessar aðstæður er adriamycin (efnafræðiheiti: doxorubicin) ásamt cyclophosphamide í fjórum lyfjahringjum (AC x 4) sem fylgt er eftir með fjórum lyfjahringjum af taxol (efnafræðiheiti: paclitaxel) (T x 4). Nýlegar rannsóknir (á ensku) sýna að aðrar samsetningar krabbameinslyfja kunna að skila betri árangri. Sumar konur kunna að velja eitthvað sem er ekki alveg jafn ágengt en má samt búast við að skili töluvert góðum árangri. Slíkir kostir eru meðal annars:

  • AC x 4

  • Cyclophosphamide, Epirubicin (svipað Adriamycin), fluorouracil í sex lyfjahringjum (CEF x 6)

  • Cyclophosphamide, methotrexate og fluorouracil í six lyfjahringjum (CMF x 6).

Konum sem taka þátt í klínískum rannsóknum kann að standa eitthvað fleira til boða.  

Hvers konar krabbameinslyf muni gagnast þér best er háð mörgum og einstaklingsbundnum einkennum krabbameinsins sem þú ert með. Lengri og ágengari meðferð er ekki endilega betri en sú sem stendur skemur og er vægari. Hversu lengi þú færð krabbameinslyf, hvenær þú skiptir úr einu lyfi yfir í annað, hvort þú færð krabbameinslyfin á undan, eftir á eða bæði á undan og eftir skurðaðgerð og geislameðferð — allt ræðst þetta af einkennum krabbameinisins sem þú ert með. Ákvörðun um meðferð þarf að byggjast á greiningu á krabbameininu sem þú ert með, á aðstæðum þínum, heilsufari þínu að öðru leyti og því hvernig þér lætur best að taka ákvarðanir.

Mælt er með að gefa einnig andhormónalyf þegar krabbameinsfrumur reynast vera með viðtaka fyrir annað hvort estrógen eða prógesterón ("hormóna-viðtaka-jákvætt" krabbamein). Andhormónalyf má gefa ein og sér eða til viðbótar við krabbameinslyf. Tamoxifen (einnig nefnt nolvades) er algengasta andhormónalyfið.  

 

Ífarandi brjóstakrabbamein sem hefur dreift sér

Séu konur með dreifðan sjúkdóm (meinvörp) er yfirleitt mælt með andhormónameðferð á undan krabbameinslyfjameðferð, komi í ljós við rannsókn að krabbameinsfrumurnar eru með viðtaka fyrir annað hvort estrógen eða prógeterón ("hormóna-viðtaka-jákvætt" krabbamein). Yfirleitt koma tvær tegundir andhormónalyfja til greina, hvor í sínu lagi, en stundum þó saman: aromatase-tálmar og SERM-lyf (Selective Estrogen Receptor Modulators). Arimidex (efnafræðiheiti: anastrozole), femara (efnafræðiheiti: letrozole) og aromasin (efnafræðiheiti: exemestane) eru þeir aromatase-hemlar sem nú eru almennt notaðir. Tamoxifen og toremifene eru þau SERM-lyf sem völ er á.

Reynist krabbameinið sýna yfirtjáningu á HER2/neu æxlisgeni er herceptin  ómetanlegt lyf, eitt eða ásamt öðrum krabbameinslyfjum. Einu taxane-lyfi (taxol [efnafræðiheiti: paclitaxel] eða taxotere [efnafræðiheiti: docetaxel] ) má bæta við vikulegan skammt af herceptíni og auka þannig árangurinn verulega, yfirleitt með tilheyrandi aukaverkunum í þolanlegum mæli. Navelbine (efnafræðiheiti: vinorelbine) og herceptin er önnur lyfjasamsetning sem getur gefið góða raun. 

Sýni krabbameinsfrumur ekki yfirtjáningu á HER2/neu æxlisgeni getur vikulegur skammtur af taxol eða taxotere skilað góðum árangri með þolanlegum aukaverkunum.

Á krabbamein sem ekki er með viðtaka fyrir estrógen eða prógesterón ("hormóna-viðtaka-neikvætt" krabbamein) og krabbamein sem ekki sýna yfirtjáningu á HER2/neu æxlisgeni er gripið fyrst til krabbameinslyfjameðferðar. Krabbameinslyf eru oft gefin ef andhormónalyf eða herceptín hætta að virka.

Um margs konar krabbameinslyfjameðferðir er að velja. Sömu lyfjasamsetningar og notaðar eru á sjúkdóminn á fyrstu stigum koma til greina: AC, CMF, AC og síðan T, CEF. Einnig eru til stök lyf sem geta virkað vel á meinvörp: taxol, taxotere, navelbine. Annað hvort taxol eða taxoter má einnig gefa með adriamycin (efnafræðiheiti: doxorubicin). Auk þess eru reglulega kynnt til sögunnar ný lyf eftir því sem árangur þeirra sannast í klínískum tilraunum. 

Hver af þessum lyfjasamsetningum kann að virka best í hverju einstöku tilfelli er afar einstaklingsbundið. Það er háð svo mörgum sérstökum einkennum þess brjóstakrabbameins sem við er að glíma á ákveðnu tímaskeiði. Lengri eða ágengari meðferð er ekki endilega betri en styttri og vægari meðferð.  

Hve lengi þú ert í lyfjameðferð, hvenær einu lyfi er skipt út fyrir annað, hvort þú færð lyfin á undan, á eftir eða BÆÐI á undan OG eftir skurðaðgerð og geislameðferð — allt þetta ræðst af sérkennum þess krabbameins sem þú ert með. Síðan kunna ákvarðanir um meðferð að breytast í miðjum klíðum. Hugsanlega verður ákveðið að fara aðra leið og reyna eitthvað nýtt. Vertu við því búin að endurskoða ákvarðanir í sambandi við meðferðirnar reglulega undir handarjaðri krabbameinsteymis þíns. Byggðu ákvarðanirnar á þínum einstæðu aðstæðum, þar á meðal á heilsufari þínu almennt og hvernig þú vilt helst taka ákvarðanir. 

ÞB