Meðferð við krabbameini sem ekki hefur borist í eitla

Úrdráttur nr. 16 úr erindi sem lagt var fram á krabbameinsþingi í San Antonio í desember 2002


Höfundar: Fisher B og fleiri

Þar til seint á níunda áratug síðustu aldar var konum með ífarandi brjóstakrabbamein sem ekki hafði borist í eitla oft aðeins veitt staðbundin meðhöndlun (sem beindist einungis að afmörkuðu svæði líkamans). Sú meðferð fólst annaðhvort í brjóstnámi eða fleygskurði og geislameðferð. Flestum konum vegnaði vel án þess að þær fengju meðferð með krabbameinslyfjum eða andhormónum.

Hins vegar komu upp tilfelli þar sem sjúkdómurinn tók sig upp aftur hjá konum sem höfðu greinst með hreina eitla og einungis fengið staðbundna meðferð. Hjá þeim konum voru æxli oftar en ekki með ákveðnum einkennum sem talin eru tengjast líkum á að sjúkdómurinn taki sig upp. Meðal þessa er:

  • þau eru meðalstór eða stór,

  • þau eru af hárri gráðu,

  • þau eru án viðtaka fyrir estrógen eða prógesterón

  • þau eru hraðvaxandi.

Nýjum rannsóknum var hleypt af stokkunum á níunda og tíunda áratug síðustu aldar til að kanna gildi þess að veita viðbótarmeðferð eftir skurðaðgerð þeim konum sem ekki reyndust hafa sýkta eitla en með krabbamein með eitt eða fleiri af ofangreindum einkennum sem auka líkurnar á að sjúkdómurinn taki sig upp. Niðurstöður rannsókna sem sýndar eru hér að neðan sýndu að viðbótarmeðferð skilaði umtalsverðum árangri.

Rannsakendur á vegum National Surgical Adjuvant Breast and Bowel Project stofnuðu til sex mismunandi rannsókna og í þær voru skráðar rúmlega 11.600 konur með brjóstakrabbamein sem ekki hafði borist í eitla. Konunum var fylgt eftir frá 10 upp í 16 ár:

  • Konum með krabbamein án hormónaviðtaka (estrógen-viðtaka-neikvætt) og þarfnast því ekki estrógens sér til viðgangs:

    • Gagnaðist meðferð með krabbameinslyfjum eingöngu vel.

    • Krabbameinslyf ásamt tamoxifeni (efnafræðiheiti: nolvadex) eru engu gagnlegri en krabbameinslyfin ein.

  • Konum með krabbamein með hormónaviðtökum (estrógen-viðtaka-jákvætt) og þarfnast því estrógens sér til viðgangs:

    • Gagnaðist meðferð með tamoxifen eingöngu vel.

    • Meðferð með krabbameinslyfjum ásamt tamoxifeni er betri en eingöngu krabbameinslyf.

  • Geislameðferð eftir fleygskurð gagnast konum, jafnvel þeim sem eru með mjög smá æxli (sentímetra eða minna).


Í rannsóknunum tveimur sem drepið er á hér að neðan (úrdrættir nr. 11 og nr. 7) er farið nánar í þessi atriði.

 

Hvort hormónaviðtakar eru fyrir hendir eða ekki ræður úrslitum um hvor er gagnlegri, andhormónameðferð eða krabbameinslyfjameðferð, fyrir konur með brjóstakrabbamein sem ekki hefur borist í eitla.  

Úrdráttur nr. 11 úr erindi sem lagt var fram á brjóstakrabbameinsþingi í San Antonio í desember 2002

Höfundur: Castiglione-Gertsch, MM.

Baksvið rannsóknar: Á árunum 1988 til 1999, leiddu rannsakendur í rannsóknarhópnum International Breast Cancer Study Group (IBCSG) tvær rannsóknir til að kanna gagnsemi mismunandi samsetningar krabbameins- og andhormónalyfja fyrir konur með ífarandi brjóstakrabbamein sem ekki hafði borist í eitla.

Efniviður og aðferðir: Í fyrri rannsókninni — IBCSG Trial 8 —völdu rannsakendur af handahófi 1,063 konur í barneign með ífarandi brjóstakrabbamein sem ekki hafði borist í eitla og skipti þeim í þrjá hópa sem fengu mismunandi lyf:

  • Zoladex (efnafræðiheiti: goserelin acetate) sem stöðvar starfsemi eggjastokka þannig að þeir hætta að framleiða estrógen,

  • CMF krabbameinslyf (cyclophosphamide, methotrexate og 5-fluorouracil),

  • CMF krabbameinslyf og síðan lyfið zoladex.

 

Í seinni rannsókninni — IBCSG Trial 9— völdu rannsakendur af handahófi 1,669 konur komnar úr barneign með ífarandi brjóstakrabbamein sem ekki hafði borist í eitla og skipti þeim í tvo hópa sem hvor um sig fékk mismunandi lyf:

  • Tamoxifen,

  • CMF krabbameinslyf og síðan tamoxifen.

 

Niðurstöður: Rannsakendur komust að þeirri niðurstöðu að árangur meðferðar færi að verulegu marki eftir því hvort krabbameinsfrumur væru með eða án estrógenviðtaka.

Konur með krabbamein án estrógenviðtaka höfðu miklu meira gagn af krabbameinslyfjameðferð eingöngu eða krabbameinslyfjum ásamt andhormónameðferð heldur en andhormónameðferð eingöngu. Rannsakendur báru ekki beint saman áhrifin af krabbameinslyfjum eingöngu við áhrifin af krabbameinslyfjum ásamt andhormónalyfjum hjá þessum konum. Aðrar rannsóknir hafa hins vegar sýnt að meðferð með krabbameinslyfjum gerir ekkert síður gagn en meðferð með krabbameinslyfjum ásamt andhormónum.

Konum með krabbamein með estrógenviðtökum reyndist meðferð með krabbameinslyfjum ásamt andhormónum engu betri en meðferð með andhormónalyfi eingöngu. Þetta átti einkum við um konur um og yfir fertugt.

Hvort krabbameinið var með eða án hormónaviðtaka vóg mun þyngra þegar í hlut áttu konur með ífarandi krabbamein þegar kom að því að segja fyrir um viðbrögð við meðferð heldur en hvort krabbameinið hafði borist í eitla eða ekki.  

Lærdómur sem draga má af þessu: Hafir þú greinst með krabbamein sem ekki hefur borist í eitla, er mikilvægt að ræða allar hugsanlegar meðferðarleiðir við lækninn, ekki síður eftir skurðaðgerð þegar allar niðurstöður úr meinarannsókn liggja fyrir. 

Flestum konum farnast ljómandi vel án meðferðar með krabbameinslyfjum. Sumum konum kann þó að farnast betur með krabbameinslyfjum þegar krabbameinsfrumur reynast hafa ákveðin einkenni. Til dæmis sýna þessar rannsóknir að sértu með brjóstakrabbamein án estrógenviðtaka, geturðu haft töluvert gagn af því að fara í meðferð með krabbameinslyfjum. Rannsóknirnar benda ennfremur til að sértu með brjóstakrabbamein með estrógenviðtökum geti þér farnast alveg eins vel með því að taka eingöngu inn andhormónalyf eins og með því að fá bæði andhormónalyf og krabbameinslyf.  

Aftur á móti eru til rannsóknir sem sýna að með krabbameinslyfjum megi auka árangurinn lítilsháttar hjá konum með krabbamein með estrógenviðtökum. Meðferð með krabbameinslyfjum bætir hugsanlega ekki miklu við þann árangur sem fæst af andhormónalyfjum eingöngu, en þótt viðbótin sé lítil, kann þér að finnast það ómaksins vert að fara í þannig meðferð.

Ákvörðun um það hvort eigi að þiggja meðferð með krabbameinslyfjum er ekki einföld. Hafðu hugfast að staða hormónaviðtaka (hvort frumur eru með eða án hormónaviðtaka) er aðeins eitt af mörgum atriðum sem skipta máli  þegar ákvörðun er tekin.

Við þetta má bæta að með nýjum rannsóknum er verið að leita leiða til að segja fyrir um hvaða konur með hreina eitla geti haft gagn af krabbameinslyfjameðferð og hvaða konum muni vegna rétt eins vel án hennar. Sagt er frá einni slíkri rannsókn hér að neðan (úrdráttur nr. 7).

 

Aðferð sem lofar góðu og segir fyrir um hvort konum með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum muni gagnast meðferð með krabbameinslyfjum

Úrdráttur nr. 7 úr erindi sem lagt var fram á brjóstakrabbameinsþingi í San Antonio í desember


Höfundar: Harbeck N. og fleiri

Baksvið og mikilvægi rannsóknarinnar: Yfirleitt er mælt með andhormónameðferð ásamt krabbameinslyfjameðferð þegar konur greinast með brjóstakrabbamein sem hefur borist í fleiri en þrjá eitla og er með estrógenviðtaka.

Flestum konum með brjóstakrabbamein með estrógenviðtökum sem ekki hefur borist í eitla mun farnast vel og sjúkdómurinn ekki taka sig upp eftir staðbundna meðferð á brjóstinu (brjóstnám eða fleygskurð með geislameðferð).

Engu að síður eru konur í þessum hópi sem gætu þurft að stríða við að krabbameinið taki sig upp. Spurningin sem reynt að finna svar við er: Hvaða konur þurfa á meðferð með krabbameinslyfjum að halda og hverjum vegnar fullt eins vel án hennar?  

Rannsókn eins og sú sem sagt er frá hér að ofan (úrdráttur nr. 11) gefur til kynna að konum með brjóstakrabbamein með estrógenviðtökum sem ekki hefur borist í eitla gagnist lítt eða ekki að bæta meðferð með krabbameinslyfjum við meðferð með andhormónum (eins og zoladex eða tamoxifen).

Það útilokar hins vegar ekki að einhverjar konur gætu hugsanlega haft gagn af krabbameinslyfjameðferð, jafnvel þótt í litlu sé. Fyrir margar konur er erfitt að gera upp hug sinn í þessum sporum: Þiggja meðferð með krabbameinslyfjum eða ekki. Vega kostirnir — hversu litlir sem þeir kunna að vera — upp á móti öllum aukaverkununum?

Efniviður og aðferðir: Í þessari rannsókn var könnuð ný aðferð til að sjá hvort konur með krabbamein með estrógenviðtökum gætu haft gagn að meðferð með krabbameinslyfjum. Sumar konurnar í rannsókninni voru með hreina eitla, hjá öðrum hafði meinið borist í eitlana. Aðferðin sem könnuð var mælir magn "íferðarþáttanna" uPA og PAI-1 í krabbameinsfrumum. Þetta eru prótín sem auðvelda krabbameinsfrumum að sá sér í aðliggjandi vefi og dreifa sér til annarra hluta líkamans.

Kannað var hvort konum með krabbamein með estrógenviðtökum og mikið magn uPA og PA-1 í frumunum gæti gagnast að fara í meðferð með krabbameinslyfjum til viðbótar við andhormónalyfin.

Rannsakendur könnuðu rúmlega 3.400 konur með krabbamein með estrógenviðtökum. Þeir komust að því að hjá öllum konum sem rannsóknin náði til, fækkaðii meðferð með krabbameinslyfjum þeim tilfellum þar sem sjúkdómurinn tók sig upp EF í æxlisfrumum var að finna mikið magn uPA, PAI-1 eða hvors tvegegja. Konum með lítið af þessum prótínum, gagnaðist meðferð með krabbameinslyfjum óverulega. Þetta átti við um allar konur án tillits til þess hvort meinið hafði borist í eitla eða ekki.  

Niðurstöður og lærdómur sem draga má af þessu: Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til að sú aðferð að mæla uPA- og PAI-1-magnið geti átt þátt í að segja fyrir um hvaða konum með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum kunni að gagnast best að fá krabbameinslyf í viðbót við andhormónalyf. Þetta er einkum áríðandi þegar í hlut eiga konur með hreina eitla. Ástæðan er sú að til þessa hefur reynst erfitt að segja fyrir um hvort krabbameinslyf muni gagnast þeim konum eitthvað umfram það sem andhormónalyf geta fyrir þær gert.

Sértu með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum sem ekki hefur borist í eitla er mikilvægt að ræða allar mögulegar meðferðarleiðir við lækninn. Þessar leiðir eru: (1) engin frekari meðferð  (2) eingöngu andhormónameðferð  (3) andhormónalyf ásamt meðferð með krabbameinslyfjum.

Rannsóknin sem sagt er frá hér er alveg ný og ekki mögulegt að fá hana gerða nema á stöku stað (í Bandaríkjunum). Læknir þinn mun að öllum líkindum styðjast við annars konar og hefðbundnara mat á einkennum krabbameinsins (svo sem stærð æxlis, vaxtarhraða, gráðu og íferð í eitla) til að ákveða hvaða meðferðarleiðir muni gefast best í þínu tilfelli.

Þessi nýja aðferð gæti engu að síður reynst gagnleg ef einkenni krabbameinsins gera það að verkum að þú lendir á gráu svæði og átt erfitt með að sjá hvað best sé að gera. Sé þannig ástatt, skaltu athuga hjá lækni þínum hvort hægt sé að mæla magn uPA og PAI-1 prótína í krabbameinsfrumunum. (*Ekki er vitað hvort hægt er að fá þetta gert hérlendis.) Sýni rannsóknin að um mikið magn er að ræða, gætir þú viljað íhuga meðferð með krabbameinslyfjum jafnvel þótt krabbamein hafi ekki borist í eitla. Sé magnið hins vegar lítið gæti þér fundist þú öruggari með þá vitneskju en án hennar ef þú ákveður að fara einungis í andhormónameðferð.

ÞB