Staðbundnar meðferðir

Með staðbundinni meðferð er átt við meðferð sem takmarkast við ákveðið svæði líkamans — hvort sem það er brjóst, eitlar eða lungu —og nær ekki yfir allan líkamann.  Aðgerða sem beinast að eitlum næst brjóstinu er stundum vísað til sem "svæðisbundinna" af því að eitlarnir eru á svæðinu sem umlykur brjóstið.

Þegar brjóstakrabbamein greinist er það yfirleitt á grundvelli einhvers konar inngrips eða sýnatöku eins og með vefjarsýnum, fleygskurði eða öðru. Þess háttar aðgerð gegnir hugsanlega eingöngu "greinandi" hlutverki þar sem hún sker úr um hvað er að finna og hvaða aðgerða þarf að grípa til næst. Fínnálarsýni og vefjarsýni eru dæmi um greinandi aðgerð. Fyrsta inngrip gæti hins vegar reynst bæði greinandi og læknandi, sé unnt að fjarlægja allt meinið sem fannst í brjóstinu. Fleygskurður sem fjarlægir allt meinið er dæmi um læknandi aðgerð.  Þurfi ekki ekki grípa til frekari skurðaðgerða, er hugsanlega bætt við öðrum staðbundnum meðferðum.

Brjóstið er ýmist meðhöndlað þannig að það er allt tekið (brjóstnám) eða hluti þess er tekinn þannig að konan heldur brjóstinu (fleygskurður). 

  • Með brjóstnámi er allt brjóstið tekið eins og orðið felur í sér. Brjóstnámi er stundum fylgt eftir með geislun á svæðinu þar sem brjóstið var. 

  • Með fleygskurði getur konan haldið brjóstinu, þótt misjafnt sé hversu mikið af því þarf að fjarlægja. Þeirri aðgerð er fylgt eftir með geislun á því sem eftir er af brjóstinu.  

Báðar aðferðirnar eru taldar skila konum jafngóðum árangri, sé æxlið fjórir sentímetrar eða minna að stærð. Hjá konum með eitt stakt æxli sem er stærra en fjórir sentímetrar getur fleygskurður hugsanlega komið til greina, takist að minnka æxlið til muna FYRIR skurðaðgerð.

ÞB