Aukaverkanir aromatase-hemla
Beinþynning
Aromatase-hemlar valda því að minna estrógen nær til beinfrumna. Estrógen býður beinfrumum að búa til nýtt bein í staðinn fyrir bein sem við töpum að staðaldri með árunum. Þar sem aromatase-tálmar minnka estrógen geta bein þynnst og veikst með tímanum. Missi bein mikið af styrkleika sínum getur það leitt til beingisnunar eða beinþynningar og hætta á beinbrotum eykst.
Hættan á að verða fyrir umtalsverðri beinþynningu er háð:
-
Því hve sterk beinin voru áður en andhormónameðferð hófst.
-
Því hve lengi þú tekur inn aromatase-hemlar vegna þess að meðferðin getur með tímanum valdið beinþynningu.
-
Öðrum áhættuþáttum beinþynningar, en þeir eru: að vera holdgrannur, hvítur á hörund, reykja og eiga móður, föður, bróður eða systur sem hafa fengið beinþynningu.
-
Því hvort þú tekur líka inn beinstyrkjandi lyf á sama tíma og þú tekur inn andhormónalyf sem valda beinþynningu. Nú orðið mæla sumir læknar með að konur sem fá aromatase-hemla taki einnig inn beinstyrkjandi lyf.
Gerð var umfangsmikil rannsókn, kölluð Z-FAST, sem sýndi að lyfið Zometa® (efnafræðiheiti: zoledronic acid), sem er beinstyrkjandi, hafði aukið beinþéttni (BMD) í hrygg og mjöðmum eftir eitt ár hjá konum sem tóku inn lyfið Femara® (efnafræðiheiti: letrozole) en femara er aromatase-tálmi.
Z-FAST rannsóknin náði til kvenna, komnum úr barneign, með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum á fyrstu stigum. Helmingur kvennanna fékk zometa um leið og þær byrjuðu að taka inn femara. Hinn helmingurinn fór ekki að taka inn zometa fyrr en mörgum mánuðum síðar. Rannsakendur munu næstu fimm árin bera saman beinþéttni í hrygg og mjöðmum hjá konum í þessum tveimur hópum.
Eftir eitt ár mældist beinþéttni kvennanna sem fengu ekki zometa strax, umtalvert minni en hjá þeim sem byrjuðu að taka inn zometa um leið og femara. Fréttir af Z-FAST tilrauninni munu birtast á vef breastcancer.org jafnharðan og á þessum vef eftir því sem tækifæri gefst.
Aðrar aukaverkanir aromatase-hemla
Auk beinþynningar eru ýmsar aukaverkanir algengari hjá konum sem taka inn aromatase-hemla en þeim sem fá tamoxifen eða lyfleysu:
-
Vöðvaverkir, liðverkir, liðagigt. Í ljós hefur komið að lyfin þrjú í flokknum aromatase-hemlar (Arimidex® [efnafræðiheiti: anastrozole], Aromasin® [efnafræðiheiti: exemestane] og Femara®) valda 3-4% fleiri umkvörtunum um vöðva- eða liðverki en tamoxifen eða lyfleysa.
-
Meira kólestról í blóði. Sýnt þykir að bæði femara og arimidex auka magn óæskilegs kólestróls í blóði. Rannsakendur kanna nú langtímaáhrif þessarar aukaverkunar. Þar sem aukið magn kólestróls í blóði er talið tengjast aukinni hættu á hjartasjúkdómum þegar fram líða stundir, er ástæða til að hafa áhyggjur af að aromtase-hemlar kunni að auka hættu á hjartakvillum. Séu dæmi um hjartasjúkdóma í fjölskyldu þinni eða aðra áhættuþætti hjartasjúkdóma, gakktu þá úr skugga um að fylgst sé vel með kólestrólinu hjá þér. Þú gætir þurft að gera eitthvað til að minnka kólestrólmagnið með því að léttast, neyta fitusnauðrar fæðu, hreyfa þig meira eða jafnvel taka inn lyf sem minnkar kólestrólmagnið.
-
Magaverkir og væg ógleði. Þessi einkenni finnast yfirleitt á fyrstu vikum meðferðar en minnka hægt og bítandi þegar frá líður.
Almennt má segja að aromatase-tálmum fylgi tiltölulegar fáar alvarlegar eða óviðráðanlegar aukaverkanir. Hafðu í huga að fáar manneskjur verða varar við aukaverkanir af aromtase-hemlum, einkum Arimidex®. Þær konur sem finna fyrir aukaverkunum og neyðast til að hætta að taka lyfið af þeim sökum, ná ekki 1 af hundraði.
ÞB