Aukaverkanir tamoxifens
Yfirlit
Meðal aukaverkana tamoxifens eru:
Blóðtappar (segamyndun)
Algengast er að blóðtappar myndist í æðum fótleggja. Þannig tappar eru hættulegir því að þeir geta losnað, borist til lungnanna og stíflað lífsnauðsynlegar æðar. Kallast það blóðreksstífla. Hafir þú einhvern tíma fengið blóðtappa, er tamoxifen að öllum líkindum ekki rétta lyfið fyrir þig. Hafi einhverjir nánir ættingjar þínir fengið blóðtappa, skaltu fyrir alla muni segja lækni þínum frá því.
Líkur á blóðreksstíflu í lungum eru innan við 1%, sem þýðir að færri en ein kona af hverjum hundrað sem taka inn tamoxifen lendir í þessu. Takir þú inn tamoxifen skaltu hringja í lækni þinn, verðir þú vör við bólgur, roða, óþægindi eða hita í fótum því það gætu verið fyrstu merki um að þar sé að myndast blóðtappi. Gæti tilhneigingar til segamyndunar hjá þér, þarf að huga vel að öllu áður en ákveðið er hvaða andhormónalyf sé best að þú takir. Í sumum tilvikum þarf að taka inn blóðþynningarlyf (eins og barna-aspirín eða hjartamagnyl) með andhormónalyfinu.
Krabbamein í legslímhúð
Það hefur sýnt sig að tamoxifen eykur hættu á krabbameini í legslímhúð hjá konum komnum úr barneign sem eru með leg (þ.e. hafa ekki farið í aðgeð til að láta taka það). "Fóðringin" innan í leginu er mynduð af legslímhúð og vitað er að tamoxifen örvar vöxt legslímhúðarfrumna. Með tímanum geta líkur á að krabbamein myndist í legslímhúð aukist hjá konum sem taka inn tamoxifen.
Hafir þú fengið brjóstakrabbamein eru meiri líkur en ella á að þú fáir krabbamein í legslímhúð. Tamoxifen eykur enn á þessar líkur í svolitlum mæli. Því lengur sem þú tekur inn tamoxifen, þeim mun meira aukast líkur á að krabbamein myndist í legslímhúðinni. (Engu að síður eru líkurnar litlar, undir 1%, jafnvel þegar tamoxifen er tekið í tíu ár.) Hafir þú greinst með krabbamein í legslímhúð einhvern tíma á fyrstu tveimur árunum sem þó tókst inn tamoxifen hefur meinið trúlega verið þar áður en þú byrjaðir að taka inn lyfið.
Hvort sem krabbamein í legslímhúð tengist notkun tamoxifens eða ekki, er yfirleitt hægt að greina það mjög snemma og lækna það með skurðaðgerð. Oft (en þó ekki alltaf) eru viðvörunarmerkin skýr. Óvæntar blæðingar um kynfæri eru yfirleitt fyrsta merkið um að eitthvað sé að og þú skalt láta lækni þinn vita tafarlaust.
Samtök kven- og krabbameinslækna mæla með að þú farir í skoðun hjá kvenlækni árlega. Verðir þú vör við blæðingu eða einhver önnur merki um að eitthvað sé að, ferðu auðvitað samstundis til læknis.
Með strokusýni sem ævinlega er þáttur í árlegri kvenskoðun, er ekki unnt að greina krabbamein í legslímhúð. Það sýni getur aðeins gefið til kynna hvort sjálfur leghálsinn er heilbrigður eða ekki.
Til eru tvær aðferðir til að kanna heilbrigði legslímhúðar:
-
Ómskoðun. Þá er ómskoðunartæki sett upp í skeiðina til að mæla þykkt legslímhúðar og kanna hvort hún er slétt og felld.
-
Sýnistaka. Unnt er að taka sýni úr vef og senda til rannsóknar. Fljótlegt er að taka sýnið og oftar en ekki unnt að taka það á stofu án svæfingar.
Ekki er mælt með þessum aðferðum nema hjá þeim sem hafa orðið varar við blæðingar eða önnur einkenni. Ræddu málið við lækni þinn.
Hafir þú farið í legnám af því að þú greindist með krabbamein í legslímhúð, er óvíst að þú getir tekið inn tamoxifen til að meðhöndla brjóstakrabbameinið. Hafi legið verið tekið af einhverri annarri ástæðu, t.d. vegna bandvefsvöðvahnúta í legi, offjölgun eðlilegra frumna í legslímhúð eða sepa úr eðlilegum frumum, þarftu ekki að hafa áhyggjur af krabbameini í legslímhúð.
Farir þú reglulega á túr í hverjum mánuði er hætta á krabbameini í legslímhúð nánast engin.
Önnur áhrif tamoxifens á legið
Hafir þú einhvern tíma greinst með legslímuvillu - kvilla sem ekki er krabbamein og lýsir sér í því að legslímhúðarfrumur vaxa í kviðarholinu utan við legið, á eggjastokkum eða á þvagblöðrunni - kann tamoxifen að gera ástandið verra.
Tamoxifen getur einnig haft áhrif á veggi legsins sem getur orðið til þess að vöðvar og bandvefur þykknar mismikið í legveggnum. Afleiðingin getur orðið sú að bandvefshnútar myndast í legveggnum (eins og litlar kúlur innan á veggnum) eða ójöfnur hér og þar. Þessar breytingar geta gert lækni erfitt fyrir að ómskoða legslímhúðina því ómskoðun getur leitt í ljós þykkildi eða misþykka legslímhúð þótt breytingin eigi sér í rauninni stað undir legslímhúðinni, í sjálfum legveggnum.
Í júní 2002 bættist ein viðvörun enn við leiðbeiningar með lyfinu tamoxifen. Samkvæmt henni er konum sem taka inn tamoxifen örlítið hættara en öðrum við að fá krabbamein í vöðvavegg legsins, öðru nafni sarkmein í legi. Hættan á sarkmeini í legi af völdum tamoxifens er innan við 1%.
Hjá flestum konum sem talið er að geti haft mikið gagn af tamoxifeni, vega eiginleikar lyfsins í að vinna á brjóstakrabbameini mun þyngra en hættan á að það kunni að leiða til krabbameins í legslímhúð eða sarkmens í legi.
Heilablóðfall
Samanburður á sex mismunandi rannsóknum sýndi að tamoxifen kann að auka lítillega líkur á heilablóðfalli (innan við 1%).
Frjósemi
Takir þú inn tamoxifen nú, en varst enn í barneign þegar þú byrjaðir í meðferð við brjóstakrabbameini, gætirðu orðið barnshafandi. Það á við þótt blæðingar hafi hætt eða séu óreglulegar meðan á meðferð stendur. Eggjastokkarnir kunna að hjarna við og egglos að hefjast á ný. Viljir þú ekki verða ófrísk, þarftu að nota getnaðarvarnir eins og smokk eða hettuna ásamt sæðisdrepandi hlaupi (hlaupið gagnast einnig sem sleipiefni). Taktu ekki inn getnaðarvarnarpillur. Í þeim er estrógen sem ekki er talið óhætt fyrir konur að taka inn sem hafa greinst með brjóstakrabbamein. Auk þess hefur komið í ljós að það eykur líkur á blóðtappa að taka inn bæði getnaðarvarnarpillur og tamoxifen. Með því að taka inn hvort tveggja eykst hættan á blóðtappa enn frekar og gæti orðið hættulega mikil.
Sértu frjósöm, er afar mikilvægt að það bregðist ekki að þú takir tamoxifen daglega. Þú verður að muna eftir lyfinu. Það er vegna þess að sé tamoxifen tekið inn óreglulega, getur það í raun örvað starfsemi eggjastokkanna á sama hátt og frjósemislyf. Viljir þú verða barnshafandi, skaltu hætta að taka inn tamoxifen áður en þú gerir tilraun til að verða ófrísk því að lyfið ætti alls ekki að taka inn á neinu stigi meðgöngu.
Skyldir þú engu að síður verða barnshafandi á meðan þú tekur inn lyfið og kýst að halda fóstrinu, skaltu hætta að taka inn lyfið og hafa samband við lækninn þinn. Reyndu samt að hafa ekki of miklar áhyggjur af því hvaða áhrif mánuður eða svo kann að hafa haft á fóstrið. Ekki hefur verið sýnt fram á að tamoxifen valdi fósturskaða hjá konum.
Hár og neglur þynnast
Fremur ólíklegt er að hárið á þér þynnist, en það er ömurlegt ef svo fer - einkum sé hárið nýfarið að vaxa eftir hármissi af völdum meðferðar með krabbameinslyfjum. Hárlos af völdum tamoxifens er líkara hárlosi sem getur orðið á breytingaskeiði við það að östrógenmagn minnkar. Í báðum tilfellum lagast það með tímanum.
Að nota lyfið Rogaine® (efnafræðiheiti: mioxidil) gæti komið í veg fyrir að hárið þynntist, en lyfið er dýrt og tímafrekt að nota það. Auk þess getur það haft í för með sér aukaverkanir eins og útbrot eða kláða í húð Sértu með hjartakvilla af einhverju tagi ættirðu ekki heldur að nota rogaine því að í ljós hefur komið að lyfið hraðar hjartslætti og lækkar blóðþrýsting.
Þynnist neglurnar skaltu nota rakakrem á hendurnar og forðast að beita afli við naglsnyrtingu. Naglalakk getur styrkt neglurnar og minnkað hættu á að þær klofni eða brotni. Fylgstu vel með merkjum um sýkingu og fylgdu leiðbeiningar um hvað ber að gera og hvað ber að forðast þegar sogæðabólga er annars vegar. Þú gætir viljað tala við krabbameinslækni þinn eða hjúkrunarfræðing um vandamálið.
Minnistap
Mörgum konum sem taka inn tamoxifen finnst þær verða gleymnari en áður. Það er eðlilegt því að breytingar á minni byrja oft um það bil sem brjóstakrabbameinið greinist eða meðan á meðferð stendur. Þú þarft að stríða við kvíða, minnkað estrógenmagn, streitu og svefnleysi sem allt getur gert þér erfiðara að muna. Auk þess getur þunglyndi, lyf (þar með talin krabbameinslyf) eða aðrir sjúkdómar eða kvillar aukið á minnistapið. *Oðið "lyfjaþoka" er stundum notað um minnistap af völdum krabbameinslyfja og lýsir ástandinu ágætlega.
Flestar konur taka inn tamoxifen í tvö til fimm ár. Á þessum árum kann öldrun einnig að taka frá þér nokkrar heilafrumur sem ella myndu hjálpa þér að muna. Hins vegar kann tíminn einnig að sumu leyti að vinna með þér. Áfallið af krabbameinsgreiningunni dofnar, líkaminn venst við og lagar sig að nýjum lyfjum.
Engu að síður telja margar konur að andhormónalyfin hafi áhrif á bæði minni og hugarstarf. Til þessa hafa fáar rannsóknir verið gerðar í því skyni að kanna nánar tengsl minnistaps og tamoxifens. Lítil rannsókn sem gerð var árið 2003 studdi þó þá fullyrðingu að andhormónameðferð við brjóstakrabbameini hefði áhrif á minni.
Merki um minnistap geta valdið töluverðum kvíða. Teljir þú að tamoxifen hafi framkallað hjá þér minnistap, skaltu endilega ræða það við lækni þinn. Fleiri rannsókna er þó þörf til þess að hægt sé að fullyrða eitthvað með vissu um þetta atriði.
Sjaldgæfar og ósannaðar aukverkanir tamoxifens
Sjónskaðar
Augnvandamál eru sjaldgæf en þó möguleg aukaverkun tamoxifens. Fyrir mörgum árum, þegar tamoxifenskammtarnir voru tvisvar sinnum stærri en þeir eru nú, urðu fáeinar konur fyrir minni háttar skaða á hornhimnu og sjónhimnu augna. Lítil rannsókn á þeim skömmtum sem nú eru gefnir sýndi afar litla hættu á breytingu sjónar og þær breytingar sem varð vart, hurfu um leið og hætt var að taka lyfið.
Engar fastar reglur eru til um hvernig fylgjast beri með sjón kvenna sem taka inn tamoxifen. Sumir krabbameinslæknar, en þó ekki allir, mæla með heimsókn til augnlæknis einu sinni á ári. Verðir þú vör við breytingar á sjóninni meðan þú ert í meðferð með tamoxifeni, láttu þá tafarlaust athuga hana hjá augnlækni. Augnlæknirinn setur dropa í augun til að víkka út sjáaldrið meðan hann skoðar augun til að fá góða sýn á hugsanlegar snemmbúnar breytingar. Verði breytinga vart, geturðu rætt málið við krabbameinslækni þinn til að vega og meta áhættuna og gagnsemina af að halda áfram að taka inn tamoxifen.
Lifrarkrabbamein
Til þessa hafa rannsóknir sýnt að tamoxifen eykur ekki líkur á því að fá lifrarkrabbamein. Lifrarkrabbamein byrjar í lifrarfrumum og er ekki hið sama og brjóstakrabbamein sem sáir sér í lifrina. Í tilraunum með rottur hefur fundist samband milli lifrarkrabbameins og stórra skammta af tamoxifeni, en hugsanlega eru áhrifin bundin við rottur - jafnvel mýs á tilraunastofum fá ekki lifrarkrabbamein af tamoxifeni.
*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.
ÞB